27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins af sérstöku tilefni, sem ég kveð mér hér hljóðs.

Aldrei þessu vant mættu fimm ráðh. í deildinni, og það er svo sjaldan, sem það kemur fyrir, að hæstv. ráðh. heiðra þessa hv. d. með sinni nærveru, að það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði á að fara að koma fram með hinar og þessar fyrirspurnir utan dagskrár. Ég held, að hæstv. ráðh. hefðu nú átt að vera við og ættu yfirleitt að skoða það sem skyldu sína að vera við, á meðan verið er að ræða mál í þessari deild. Það hefur verið svo núna dag eftir dag, að ráðh. hafa ekki sýnt sig, á meðan verið er að ræða mál, sem hér eru búin að liggja fyrirþingplöggum, og oft er verið að biðja um ýmsar upplýsingar frá þeim. Ég hef ekki skilið það svo, að ríkisstj. væri komin svo algerlega utan við þingið, að hún ætti aldrei að svara, nema fyrirspurnum sé beint til hennar skriflega og prentaðar og hún hafi viku til þess að svara, og þá í þannig tímum, að þm. almennt hafi fimm mínútur og megi tala tvisvar sinnum og hæstv. ráðh. megi tala endalaust. Það er nú orðið þannig í þinginu, að hæstv. ráðh. eru ekki farnir að sýna sig. Í sambandi við umr. um almenn mál, þannig að það sé hægt að ræða við þá á þessum litla tíma, sem þingið stendur. Og ég vil þess vegna segja það, að það er ekkert undarlegt, þó að það yrði kannske farið inn á það miklu meira en gert hefur verið að fara að taka upp þann hátt, sem einu sinni var hér, að bera upp fyrirspurnir utan dagskrárinnar. Það gengur ekki svo vel að fá upplýsingar um þau mál, sem hérna liggja fyrir. — Ég vildi nú aðeins nota þetta tækifæri til þess, fyrst svona margir hæstv. ráðh. sýna sig, að segja þeim þessa skoðun mína.

Viðvíkjandi því sérstaka atriði, sem varð til þessarar umr. utan dagskrár, þá vil ég taka mjög undir það, sem hv. 1. landsk. kom hér fram með, og undirstrika þær skoðanir, sem hann lét hér í ljós, að íslenzka þjóðin stæði með nýlenduþjóðunum í þeirra frelsisbaráttu. Og hæstv. ríkisstj. verður að muna það, að þótt henni hafi tekizt að fleka Ísland inn í Atlantshafsbandalagið, þ. e. bandalag nýlendukúgaranna, þá er hjarta Íslendinga eftir sem áður með þeim þjóðum, sem eru kúgaðar af þessum voldugu nýlenduríkjum.

Viðvíkjandi því, hvort svona fyrirspurnir eins og viðvíkjandi utanríkismálunum eigi að berast fram í venjulegu fyrirspurnarformi og ræðast þar, þá vil ég lýsa því sem minni skoðun, að ég álít það algerlega óþolandi fyrirkomulag. Það er ekki hægt að ætlast til þess, það er ekkert jafnrétti í því og mundi hvergi nokkurs staðar tíðkast í neinu þingi Evrópu, að þm. ættu að ræða utanríkismál við ríkisstj. undir því formi, að þingmaður, sem kemur fram með fyrirspurn, hafi tvisvar sinnum fimm mínútna ræðutíma og ríkisstj. óendanlegan. Það er ekki hugsanlegt. Það þarf ekki að leita nema til enska þingsins til þess að sjá, hvers konar háttur er hafður á um slíkt. Og ég vil nú, fyrst hæstv. ríkisstj. er að kvarta undan því, að þessar umr. skuli hafa orðið hér utan dagskrár, mjög beina þeirri ósk til hæstv. ríkisstj., að hún athugi, hvort það mundi ekki vera heppilegt fyrirkomulag, að það yrði tekið upp hér í þinginu, að öðru hvoru, við skulum segja annaðhvort einu sinni í viku eða einu sinni í hálfum mánuði, gæfi hæstv. ríkisstj. stutta skýrslu viðvíkjandi utanríkismálunum og leyfði þingmönnum að ræða þau. Ég held það væri ákaflega heppilegt, að við tækjum þann hátt upp; það hafa flest þing í Evrópu eitthvað þess háttar og enska þingið alveg sérstaklega, og ég held það gæti verið að mörgu leyti mjög heppilegt form fyrir okkur að koma hér á. Það hefur verið svo, af því að það er nú ekki svo ýkja langt síðan við tókum fullkomlega okkar utanríkismál í okkar hendur, að þessi mál hafa verið ákaflega mikið utan við venjulega meðferð þingmála. Utanrmn. hefur upp á síðkastið orðið miklu lélegri nefnd en upprunalega var ætlazt til, og sjálf utanríkismálin koma ákaflega sjaldan fyrir þingið, nema þá kannske ef það er eitthvert stórmál á ferðinni, sem eru þá oft harðar deilur um. En ég vildi mjög beina því til hæstv. ríkisstj. til athugunar, hvort ekki gæti verið heppilegt að koma einhverju slíku fyrirkomulagi á.