06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

7. mál, gjaldaviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Að þessu tilefni gefnu vil ég upplýsa, að skattamálanefndin hefur beint starfi sínu fyrst og fremst að endurskoðun beinu skattanna, enda var henni fyrst og fremst ætlað það hlutverk, og það var það, sem vakti fyrir, þegar þál. var sett, og svo tekjustofnum bæjar- og sveitarfélaga. Þetta verkefni hefur reynzt svo umfangsmikið, eins og engum hefur komið á óvart, að ekki gat komið til mála, að n. gæti haft till. sínar tilbúnar fyrir síðasta þing, og gilti það áreiðanlega jafnt um fulltrúa allra flokka, sem í n. áttu sæti. Enginn þeirra hafði á þeim tíma tilbúnar tillögur um afstöðu sína eða síns flokks í málinu. Síðan eru liðnir 20 mánuðir, og mun vera óhætt að segja það sama enn. Enn hafa ekki fulltrúar frá neinum flokki, sem á fulltrúa í n., tillögur sínar tilbúnar. Áherzla hefur á hinn bóginn verið lögð á, að fyrir þetta þing gæti komið frv. um beinu skattana og um útsvörin, þ.e.a.s. tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Er unnið að því að hraða störfum n., þannig að þetta geti tekizt.