23.10.1953
Efri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

61. mál, alþjóðaflugþjónusta

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv., og eins og sjá má á nál. á þskj. 82, leggur hún einróma til, að það verði samþykkt. Við 1. umr. málsins skýrði hæstv. fjmrh. efni frv. og tilgang, og hef ég engu við það að bæta. En af því að það kom fram í n., að æskilegt væri að vita um greiðsluskilmála og lánskjör á því láni, sem frv. fjallar um, þá hef ég aflað mér eftirfarandi upplýsinga um þessi atriði:

Hinn 4. sept. s.l. veitti Alþjóðabankinn í Washington Framkvæmdabankanum lán að upphæð £ 90 000; sem á kaupgengi kr. 45.55 nemur kr. 4 099 500:00. Lánið er með 43/4 % vöxtum á ári. Af ónotuðu lánsfé skal greiða 3/4%. Vextir og aðrar greiðslur skulu greiðast á 6 mánaða fresti, hinn 15. janúar og 15. júlí ár hvert. Endurgreiðslu lánsins er hagað þannig, að vextir og afborgun nema nokkurn veginn jafnri upphæð hverju sinni, alls kringum 450 þús. kr. á ári. Lánið endurgreiðist því á 12 árum, 1954–1966. En eins og mönnum er kunnugt, greiða þátttökuríki Alþjóðaflugmálastofnunarinnar álíka upphæð til Íslands árlega sem nemur þessum greiðslum. Samkvæmt lögum um Framkvæmdabankann bætist svo við 1% af upphæðinni í „provision“ til bankans, og mun sú upphæð að sjálfsögðu verða talin til byggingarkostnaðar þeirra húsa, sem frv. ráðgerir að reist verði. Það er því svo að sjá, að Ísland muni ekki greiða sjálft neitt af þessu, heldur verði það greitt með þessu framlagi frá þátttökuríkjum í Alþjóðaflugmálastofnuninni.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur, en ef svo færi, bað hann mig að beina því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að halda annan fund nú í dag og taka málið til 3. umr.