08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

1. mál, fjárlög 1954

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. fjvn. fyrir þá afgreiðslu, sem þau erindi hafa hlotið, sem ég hef beint til n. Að sönnu vantar mikið á, að allar þær óskir, sem ég bar fram, hafi verið teknar til greina, en ég skil afar vel þann vanda, sem fjvn. á við að etja að velja eða hafna úr þeim fjölda erinda, sem henni berast, og reyna að veita öllum úrlausn, eftir því sem fært er og efni standa til.

Ég hef leyft mér, ásamt hv. 1. þm. Árn. að bera fram eina brtt., sem ég vildi með fáum orðum gera grein fyrir. Þessi brtt. er prentuð á þskj. 277,VIII og er þess efnis að veita Þorleifi Jónssyni fyrrverandi alþm. í heiðurslaun og vegna ritstarfa 20 þús. kr.

Það er í minnum haft og oft til þess vitnað, hvað kosningar til Alþingis, sem fóru fram árið 1908, voru sóttar af miklu kappi. Þá urðu kosningaúrslit í Austur-Skaftafellssýslu ýmsum mönnum nokkuð óvænt. Í kjöri voru tveir keppinautar. Annar þeirra var þaulreyndur þingskörungur, Guðlaugur Guðmundsson sýslumaður, en hinn keppinauturinn var bóndi, greindur, en hóglátur bóndi, sem bjó í héraðinu og var þá á miðjum aldri. Kosningaúrslítin urðu þau, að bóndinn hlaut kosningu með 2/3 atkvæða, en sýslumaðurinn hlaut 1/3 atkvæða. Þessi úrslít munu hafa fallið á þennan veg vegna þess, að Austur-Skaftfellingar voru skeleggir í baráttunni við Dani í sjálfstæðismálinn, og í annan stað vegna þess, að þeir, sem þekktu bóndann, sem í kjöri var, treystu honum vel til fulltingis og um forsjá mála. Þessi bóndi var Þorleifur Jónsson í Hólum. Eftir að hann náði kosningu 1908, sat hann hér á löggjafarþinginu samfleytt fullan aldarfjórðung eða til ársins 1933, er hann lét af þingmennsku og gaf engan kost á því sjálfur að fara í framboð, þegar kosið var eftir stjórnarskrárbreytingu, sem þá kom til framkvæmda.

Á þessum langa og gifturíka þingferli var ekki aðeins, að Þorleifur í Hólum ynni mörg góð verk fyrir sitt kjördæmi, sem fól honum þann trúnað að sitja hér, heldur naut hann mikils trúnaðar og virðingar meðal þingmanna. Hann var t.d. fyrri varaforseti Alþingis á Alþingishátíðinni 1930 og sat þar í forsetastóli á Lögbergi, meðan aðalforsetinn flutti ræðu sína við þá veglegu athöfn.

Þorleifur Jónsson var orðinn um sjötugt, þegar hann lét af þingmennsku, og eftir það hélt hann áfram félagsmálastörfum heima í héraði, eftir því sem hann taldi sig hafa tök á, en eftir því sem árin hafa liðið og aldur færzt æ meira yfir þennan mann, þá hefur hann af eðlilegum ástæðum tekið sér hvíld frá umsvifum félagsmála og hefur nú fyrir nokkru afsalað sér öllum þeim störfum, sem hann gegndi í almanna þágu heima í héraði. En hann vildi ekki eyða ævikvöldi sínu iðjulaus, því að eftir því sem hann slakaði til við félagsmátastörfin, þá tók hann að stunda rítstörf. Fyrir fáum árum kom út bók eftir Þorleif í Hólum, verzlunarsaga fyrir Skaftafellssýslu. Það er að sönnu ekki mjög stór bók, en þó merk á því sviði, sem hún fjallar um. Og nú er í undirbúningi að hetja prentun á öðru riti, mun stærra riti, sem væntanlega mun koma út á næsta ári. Þetta rit mun fjalla um minningar hans, og inn í það er fléttað mjög mörgum atburðum úr Skaftafellssýslu og atburðum, sem snerta sögu landsins í heild á þessum tíma, sem um er fjallað. Vænti ég þess og tel raunar víst, að þetta rit verði mikill fengur, eigi aðeins fyrir Skaftfellinga, heldur jafnframt fyrir sögu landsins. Hann hefur valið sér þessi viðfangsefni m.a. vegna þess, hve honum er saga landsins kær, hann hefur með þessu eins og öðrum störfum sínum sýnt það, að „hólminn á starf hans, líf hans og mátt“.

Það hefur verið tekinn upp sá háttur að undanförnu að veita einstökum mönnum, sem lengi hafa átt setu á Alþ., nokkra viðurkenningu. T.d. hefur Benedikt Sveinsson fyrrverandi forseti, sem lengi var samstarfsmaður Þorleifs í Hólum hér á þingi, notið launa um nokkur ár samkv. 18. gr. fjárlaga. Og nokkur undanfarin ár hefur Páll Hermannsson fyrrverandi alþm. haft nokkurn styrk til ritstarfa samkv. 15. gr. fjárlaga. Þorleifur Jónsson hefur fram að þessu engin eftirlaun fengið umfram það, sem hver almennur borgari fær frá Tryggingastofnun ríkisins, og því hefur aldrei verið hreyft, svo að ég viti til, að honum yrði veitt nokkur viðurkenning af hálfu þessarar stofnunar. Það er alls kostar fjarri Þorleifi sjálfum að eiga nokkurn hlut að því að afla fjármuna eða sérstakrar viðurkenningar sjálfum honum til handa, og ég og aðrir, sem hér höfum starfað, höfum sannast sagna látið þetta undir höfuð leggjast á undanförnum þingum.

Nú liggur það fyrir, að næsta sumar á Þorleifur í Hólum níræðisafmæli, ef honum endist aldur til þess, sem við skulum vona, og þá fer það saman, að það er einmitt keppt að því, að fyrir níræðisafmælið verði komin á prent bókin, sem ég var að lýsa áðan og verður aðalritverk Þorleifs og að sjálfsögðu það verk, sem hann af eðlilegum ástæðum fyrir aldurs sakir skilar síðast, — að sjálfsögðu verður þetta síðasta verkið, sem honum auðnast að leysa af hendi í almannaþágu. Fyrir þessar sakir er það, að ég ásamt hv. 1. þm. Árn. hef leyft mér að bera fram þessa till., sem prentuð er á þskj. 277.

Það má með sanni segja, að þessi till. sé fram borin á elleftu stundu, þar sem hér er um mann að ræða, sem er nú brátt að ná níræðisaldri. Þessi till. er orðuð þannig, að þeir fjármunir, sem hér ræðir um, verði greiddir Þorleifi Jónssyni sem heiðurslaun og vegna ritstarfa. Það er ekki til ritstarfa, því að þess er ekki að vænta, að manni, sem nú fer að byrja tíunda áratuginn, endist þrek til þess að halda áfram ritstörfum. En þetta er orðað svona, „vegna ritstarfa“, einmitt til þess að vekja athygli á því, hvaða verk hann hefur unnið á þessu sviði, án þess að hann eða nokkur fyrir hans hönd hafi farið fram á, að hann fengi greiðslu til þess fyrir fram. En okkur flm. þessarar till. virðist, að þó að fram hjá því hafi verið gengið að veita honum nokkra greiðslu fyrir fram, þá sé það alls kostar eðlilegt, að Alþ. fyrir sitt leyti meti þessi störf eigi siður fyrir það, taki nú eftir því, sem hann hefur af hendi leyst, og veiti honum þessa viðurkenningu eftir á, sem farið er fram á með þessari till.

Í frv., sem nú liggur fyrir um þingfararkaup alþingismanna, er gert ráð fyrir því, að þeir fyrrverandi alþm.. sem setið hafa á þingi 10 ár samfleytt eða lengur, eigi hér ettir að njóta nokkurs lífeyris, samanborið við það, sem embættismenn ríkisins hafa notið nú að undanförnu. Ef þetta frv. verður að lögum, sem líkur benda til, þá mundi Þorleifur í Hólum að sjálfsögðu koma til greina með nokkurn lífeyri í samræmi víð það ákvæði. Það kynni einhver að vilja segja, að það sé að ófyrirsynju að bera nú fram þessa sérstöku till., sem hér liggur fyrir, þar sem í undirbúningi sé að koma málum í það horf. sem ég hef lýst og frv. greinir. En mér virðist og okkur flm., að þessi till. eigi fullan rétt á sér þrátt fyrir það frv., sem nú er hér á ferðinni. Að sönnu er gert ráð fyrir því í frv., að ef aðili hefur lífeyri annars staðar að, þá komi sá lífeyrir til frádráttar því, sem gert er ráð fyrir að greiða fyrrverandi alþingismönnum. Ég geri því ráð fyrir því, að framkvæmdin á þessu yrði þannig, að þótt till. okkar hv. 1. þm. Árn. yrði samþ., þá yrði sú fjárhæð, 20 þús. kr., í raun og veru ekki ný útgjöld fyrir ríkið að öllu leyti. En bæði er, að þessi fjárhæð, sem við förum fram á, er nokkru hærri en lífeyririnn mundi verða samkv. frv., sem á döfinni er, og á hinn bóginn leggjum við áherzlu á það, að það sé ekki sama, í hvaða formi þessi greiðsla er veitt, ekki sama, hvort hún kemur sem lífeyrir, sem sjálfsagt er að aðili fái samkv. lögum, eða hvort hún kemur frá Alþ. á þann hátt, sem farið er fram á í till okkar, sem sérstök viðurkenning fyrir unnin störf.

Við flm. till. stefnum að því, að með samþykkt hennar sé unnið þetta þrennt, að Alþ. láti ekki fram hjá sér fara þau störf, sem þessi maður, sem hér á hlut að máli, hefur innt af hendi nú á kvöldi ævi sinnar, eftir að hann varð fyrir aldurs sakir að draga sig í hlé frá umsvifum félagsmála; í annan stað sé þessi fjárhæð veitt eins og afmælisgjöf frá Alþingi á 90 ára afmæli þessa aðila, þar sem við viljum vona, að honum endist ævi svo lengi og geti notið þeirrar gleði, sem hann mun þá eiga kost á á þeim afmælisdegi, og í þriðja lagi sé þessi fjárhæð veitt sem sérstakur vottur virðingar og þakklætis af hálfu Alþingis fyrir fjölþætt og vel unnin störf. Ég vænti þess, að hv. alþingismenn fallist á þetta sjónarmið okkar flm. till. og stuðli að því með atkv. sínu, að till. verði samþ.

Ég skal taka fram að lokum, að hv. fjvn. hefur ekki átt þess kost að fjalla um þessa till., en ég fyrir mitt leyti vildi ekki standa því í gegn, að hv. fjvn. gæti fjallað um þetta mál á milli umræðna, ef n. út af fyrir sig teldi það nokkru skipta, og þó að við höfum borið þessa till. fram nú, þá er okkur það ljóst, að hv. fjvn. mun eiga ófjallað um eftirlaunagreinina í fjárlögunum.