08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

1. mál, fjárlög 1954

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mig langar til að mega segja hér örfá orð við hv. 2. þm. Eyf. Í ræðu sinni við umr. áðan, þegar hann vék að till. okkar hv. 8. þm. Reykv., komst hann svo að orði, að hækkanir okkar á tekjuliðum fjárlfrv. mundu leiða til þess, að tekjurnar yrðu, ef okkar till. yrðu samþ., áætlaðar hærri á árinu 1954 en ríkistekjurnar yrðu raunverulega árið 1953. Ég held nú helzt, að hv. 2. þm. Eyf. hafi ruglazt eitthvað í bókhaldinu þarna og er kannske von til, svo flókið sem það er nú orðið í meðförunum.

Fjárlfrv. fyrir árið 1954 gerir ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs á því ári verði 427 millj. kr. Hækkunartill. okkar hv. 8. þm. Reykv. eru samtals 37 millj. kr., og ef þær yrðu samþ., yrði tekjuáætlunin 1954 samtals 464 millj. kr., en hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu, sem hann flutti hér í þinginu í dag, að tekjur ríkissjóðs 1953 mundu verða um 485 millj. kr., og mér er ánægja að því að taka það fram, að þetta er sú heiðarlegasta tala, sem ég hef heyrt hæstv. fjmrh. nokkru sinni nefna í sambandi við tekjur ríkissjóðs. Það er nefnilega sýnilegt af því tekjuyfirliti, sem fyrir liggur til 31. okt. 1953, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1953 muni verða um 485 millj. kr. að minnsta kosti. Það er því alveg augljóst, að jafnvel þó að tekjur ríkissjóðs á árinu 1953 vegna tolla og söluskatts af virkjununum við Sog og Laxá séu dregnar frá, þá yrði tekjuáætlunin fyrir 1954 samkv. tili. okkar hv. 8. þm. Reykv. ekki hærri en raunverulegar tekjur ársins 1953 verða.

Við fjárlumr. 1952 komst hæstv. fjmrh. svo að orði, að með fjárlfrv. fyrir árið 1953 væri algerlega teflt á tæpasta vað, eins og hann orðaði það, í tekjuáætlunum ríkissjóðs, og hann endurtók það í ræðu sinni hér áðan, að það hefði verið næsta furðulegt, að þingið skyldi samþ. tekjuáætlun upp á 418 milljónir kr. fyrir árið 1953, þar sem ríkistekjurnar hefðu ekki orðið nema 420 millj. kr. árið 1952. Sagði hann, að þarna hefði sannarlega verið teflt á tæpasta vaðið. En það var ekki teflt á tæpara vað en það, að í staðinn fyrir, að ríkistekjurnar voru áætlaðar 418 millj. kr., munu þær nú verða samkvæmt ummælum sjálfs hæstv. fjmrh. 485 millj. kr. Þetta er ekki ný saga. Árið 1951 urðu tekjur ríkissjóðs raunverulega 115 millj. kr. hærri en áætlað var á fjárl., árið 1952 urðu ríkistekjurnar 44 millj. kr. hærri en áætlað var á fjárl. þess árs, og í ár er sýnilegt, að ríkistekjurnar ætla að verða 60 millj. kr. hærri en áætlað var á fjárl. ársins. Og ævinlega hefur hæstv. fjmrh. haldið því fram, að það væri teflt á tæpasta vað með fjárlagaáætlanir. Satt bezt að segja skil ég ekki, hvers vegna í ósköpunum má ekki reyna að áætla þetta eins nákvæmlega og hægt er. Hæstv. fjmrh. segir, að áætlanirnar séu alls ekki vísvitandi falsaðar í þeim tilgangi. að ríkisstj. hafi rýmri hendur til þess að fá fé í umframgreiðslu á fjárl. En hvers vegna má þá ekki reyna að ákveða þetta og áætla eins nákvæmlega og tök eru á hverju sinni? Ég ætla ekki að ræða þetta atriði ýtarlegar að sinni.

Þá vil ég aðeins víkja að því lauslega, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði í ræðu sinni um það, sem við lögðum til, að framlag til mótvirðissjóðs vegna tæknilegrar aðstoðar yrði bundið því skilyrði, að Iðnaðarmálastofnun Íslands útvegaði þessa tæknilegu aðstoð og ráðstafaði henni. Hann taldi þetta fráleita tillögu, þar sem það kæmi margt annað til greina við tæknilega aðstoð heldur en iðnaður í landinu. Gat hann þess meðal annars, að ungmennafélögin ættu að fá tæknilega aðstoð til þess að skipuleggja starfsíþróttir. Það má vel vera, að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, framleiðslu þess og afköst og efnahag allan, að ungmennafélögin fái tæknilega aðstoð til að skipuleggja starfsíþróttir. Hitt mun þó vera óumdeilanlegt, að atvinnuvegunum sjálfum og þá fyrst og fremst iðnaði, bæði þeim iðnaði, sem vinnur úr sjávarafurðum, svo og öðrum íslenzkum iðnaði, sé umfram allt nauðsynlegt að fá þessa aðstoð. Það eru þessar atvinnugreinar, sem fyrst og fremst þurfa á tæknilegri aðstoð að halda. Við höfum um nokkur ár — í ein tvö eða þrjú ár — borgað fé fyrir tæknilega aðstoð, sem hefur verið framkvæmd á vegum ríkisstj. Þessu fé hefur verið að mínum dómi mjög illa varið. Það var t.d. fenginn hingað bandarískur sérfræðingur til þess að veita, eins og það hét þá, íslenzkum iðnaði tæknilega aðstoð. Hann dvaldist hér í nokkrar víkur og tók of fjár fyrir og komst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu, að íslenzkur iðnaður væri alls góðs maklegur, hann hefði yfir að ráða mjög góðum vélakosti o.s.frv. Til þess að komast að þessari niðurstöðu þurfti þó ekki neinn bandarískan sérfræðing. Þetta vissu mjög margir Íslendingar áður. Og þá tæknilegu aðstoð, sem þessi maður hefði átt að veita, þ.e.a.s. kenna einstökum fyrirtækjum að hagnýta betur vélar sínar og önnur framleiðslutæki, þannig að afköstin yrðu meiri, betri og ódýrari, veitti hann aldrei. En það er einmitt slík tæknileg aðstoð, sem okkur vantar, og það er fyrst og fremst Iðnaðarmálastofnun Íslands, sem hefur nokkra möguleika á að ákveða það, hvers konar sérfræðinga þarf að fá í því efni, og þess vegna tel ég mótbárur hv. 2. þm. Eyf. í þessu efni algerlega út í hött.

Þá vil ég líka leyfa mér að leiðrétta misskilning, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Eyf., þar sem hann hafði skilið það svo, að liður sá, samtals 15 millj. kr., sem við hv. 3. þm. Reykv. leggjum til að verði varið til nýrra atvinnuframkvæmda, væri um atvinnubótafé. Það er það ekki. Þetta er hugsað sem framlag til nýrra atvinnufyrirtækja til aukningar á framleiðslu þjóðarinnar, sem svo aftur mundi breikka skattstofninn og gefa ríkissjóði auknar tekjur, um leið og framleiðslan og atvinna í landinu ykist.

Þá vil ég þakka hv. 2. þm. Eyf. fyrir það, að hann tók, að því er mér skildist, vinsamlega undir þá till. okkar, að framlag til íþróttasjóðs yrði hækkað eitthvað úr þeim 600 þús., sem nú hefur verið gert ráð fyrir í fjárlfrv.

Að lokum vildi ég svo aðeins leiðrétta ranghermi hv. 2. þm. Eyf. Hann sagði í sambandi við það, sem ég sagði um tolltekjuáætlanir, að ég hefði haldið því fram, að vörurnar tvo síðustu mánuði ársins 1952 hefðu ekki verið tollafgreiddar fyrr en ettir áramót. Þessu hélt ég nú ekki fram. Og hv. 2. þm. Eyf. veit jafnvel og ég, að vegna verkfallanna í nóv. og des. 1952 dró mjög verulega úr vöruinnflutningi til landsins. Innflytjendur þorðu ekki að flytja meginið af sínum jólavörum til landsins þetta ár, vegna þess að þeir óttuðust einmitt, eins og kom á daginn, að mjög lítið væri hægt að tollafgreiða af vörum fyrir jól. Þess vegna hefur þetta ekki komið fram sem auknar tolltekjur á árinu 1953, eins og þm. hélt fram, heldur urðu tolltekjurnar 1952 beinlínis minni en þær hefðu annars orðið, ef engin verkföll hefðu verið. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta.