16.02.1954
Neðri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

139. mál, lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. talaði um varnarsvæðin og takmörk þeirra og gekk inn á, að þau væru ekki sem allra gleggst. Í sambandi við hverja einustu ákvörðun, sem gerð hefur verið um hreppaskiptingu á Íslandi, umdæmi lögreglustjóra og annað slíkt, hefur verið tekið fram alveg nákvæmlega, við hvaða svæði slíkt miðast, og þegar svo er, eins og hann benti réttilega á og ég líka vissi um, að það er ekki samhangandi svæði, sem umdæmi lögreglustjóra nær yfir, þá er það alltaf tekið fram, hver þessi svæði eru. Hér í sambandi við þetta mál hins vegar er ekkert ákveðið um, hvaða svæði þetta eru. Það er ekki tilgreint í lögunum, hver svæðin eru, þannig að íbúarnir almennt geti vitað það, — íbúarnir, embættismennirnir svo og aðrir, sem þarna eiga hlut að máli, geti vitað m.a., undir hvaða ráðuneyti þau kæmu til með að heyra á Íslandi, ef eitthvað brygði út af. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi. Hæstv. ráðh. lýsir því nú yfir t.d. um loftskeytastöðina í Grindavík eða þar hjá, að hann hefði nú kannske haldið, að hún væri á samningssvæðinu, en hún sé ekki á samningssvæðinu, af því að það sé ekki eign ríkisins, hins vegar ef það verði eign ríkisins einhvern daginn, þá sé það komið allt í einu inn á samningssvæðið, þá sé það komið allt í einn inn undir annan lögreglustjóra. Samningssvæðið, sem þarna er, og umdæmi lögreglustjóra eftir þessum lögum kemur til með að vera breytilegt eftir því, hvernig ríkisstj. kaupir lönd á einhverju svæði þarna; þá kemur þetta til með að lenda inn undir hæstv. ráðh. Þetta er náttúrlega alveg ófært í sambandi við setningu laga, þegar verið er að ákveða ákveðið umdæmi, þar sem ákveðnar réttarfarsreglur eiga að gilda, og þetta vildi ég sem sé enn einu sinni átelja.

Þá kom ég fram með þá fyrirspurn viðvíkjandi Hvalfirði, hvort Hvalfjörður væri samningssvæði. Hingað til hefur aldrei nokkurn tíma fengizt upplýst hér á Alþingi, hvort Hvalfjörður væri samningssvæði. Ég spurði ekki, hvort hann heyrði undir lögsögu lögreglustjórans á Keflavikurflugvelli, því að það er alveg greinilegt af þessum lögum. En ég spurði að þessu af öðru, sem sé vegna þess, að eftir samningnum við Bandaríkin er liði Bandaríkjanna rétt að fara með lögregluvald á samningssvæðunum samkv. 10. gr., m.ö.o., útlendum mönnum er gefið lögregluvald á ákveðnum svæðum á Íslandi. Íslendingum er ekki einu sinni svo mikið sem tilkynnt, hvar þessi samningasvæði séu á landinu. Og það er hvergi nokkurs staðar auglýst, þegar menn nálgast þessi samningssvæði, hver þessi samningssvæði séu. Áður en nokkur Íslendingur veit af því, er hann allt í einu kominn af svæði, þar sem hann er fullkomlega frjáls maður, og inn á svæði, þar sem einhver óþverralýður getur vaðið að honum vopnaður og gert það, sem honum þóknast, eins og sá lýður, sem Bandaríkjamenn hafa haft hér og hefur þótzt fara þarna með lögregluvald. Þetta er í alla staði af hálfu þeirra stjórnarvalda, sem hafa kallað þennan her inn í landið, óforsvaranlegur aðbúnaður að Íslendingum, að láta menn ekki einu sinni vita, hvar samningssvæðin séu. Þess vegna er það gott út af fyrir sig að fá þessa yfirlýsingu. En ég vil fyrir mitt leyti hins vegar mótmæla því, að Íslendingar geti litið svo á sem amerískur her hafi lögregluvald í Hvalfirði. Hæstv. ráðherra segir: Hvalfjörður er samningssvæði. — Hvað er Hvalfjörður í þessu efni? Engum dettur í hug, að Hvalfjörður allur sé samningssvæði. Hvað stórt svið í Hvalfirði er samningssvæði? Er það bryggjan, eða eru það olíutankarnir, sem Olíufélagið, sem Samband ísl. samvinnufélaga er aðalhluthafi í, á? Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti að vera mér sammála um það, að þetta er algerlega óviðunandi aðbúnaður, fyrir utan nú allt annað.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að radarstöðvarnar mundu að líkindum verða lokuð svæði. Við höfum áður sagt það hérna, að Bandaríkin væru eftir krókaleiðum að fá fram það, sem þeir með beinum yfirgangi og án allra átyllna og kjaftæðis um lýðræði heimtuðu af Íslandi 1945, þegar þeir höfðu hér her í landinu. Þá heimtuðu þeir af Íslendingum að fá undir sín yfirráð ákveðin svæði á Íslandi, sem væru lokuð svæði og Bandaríkjamenn réðu einir og að öllu leyti, herstöðvar til 99 ára, afgirt sem bandarísk yfirráðasvæði. Nú er talað um það sem einhvern sjálfsagðan hlut af hálfu hæstv. ráðh., að radarstöðvarnar verði slík lokuð svæði, m.ö.o., að Íslendingum eigi að fara að verða óheimilt að ganga um á sinni fósturjörð, þar sem þeim þóknast, og að aðrir menn, útlendingar, vopnaðir útlendingar, eigi að geta ráðið bara eins og þeir vilja. Við sjáum, hve stórt spor þannig væri verið að stiga í þá átt að fá fram þær kröfur, sem Bandaríkjamenn gerðu 1945 og þá var einhuga mótmælt af allri þjóðinni.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að þó að hann væri fjmrh. fyrir Keflavíkurflugvöll, þá mundi náttúrlega verða haft samstarf við hin ráðuneytin; þó að skilað væri til hans peningum, sem innheimtir væru í skatta á Keflavíkurflugvelli, þá náttúrlega gengi það áfram sína leið á eftir. Því bjóst ég nú satt að segja líka við, og það væri náttúrlega anzi langt komið, ef sú yfirlýsing yrði getin í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það ætti ekki að hafa samstarf við hin ráðuneytin. Þá væri það náttúrlega auðséð, hvert verið væri að stefna. En má ég nú spyrja, þó að ég efist ekki um, að það skorti af hálfu hæstv. utanrrh. ekki á vilja til slíks samstarfs: Er það nú áreiðanlega alveg gagnkvæmt; t.d. dómsmrh., sem áður var utanrrh., er hann svo ákaflega fús í samstarfið, við skulum segja um samningana núna, að það sé nú alveg gefið, að það samstarf, sem þessi lög ganga út frá og hæstv. ráðh. gerir sér vonir um, verði nú svo sérstaklega gott, þegar fram í sækir? Er ekki nokkurn veginn alveg auðséð, að þegar búið er að praktísera þetta í nokkur ár, og við skulum segja t.d. að Sjálfstfl. sé eftir nokkur ár farinn að praktísera þetta með álíka háttum eins og praktíserað hefur verið hingað til afskiptin af varnarliðinn, — skyldi þá ekki vera komið svo, að sá utanrrh., sem er dómsmrh. á Keflavíkurflugveili, á Horni í Hornafirði, í Hvalfirði, í Aðalvík, á Langanesi og annars staðar, hafi sína samninga fyrst og fremst við sendiráðið á Laufásvegi og samstarfið við aðra aðila verði ekki aðalatriðið í þessu? Ég er hræddur um, að þetta verði þróunin. Svona hefur þetta alltaf byrjað hérna í þinginu. Því var lýst yfir, þegar Atlantshafssamningurinn var gerður, bókfest, lýst yfir af þremur ráðherrum, sum flugu vestur þá, að það kæmi aldrei til mála, að það yrði farið fram á herstöðvar hér á Íslandi — kæmi aldrei til mála — og hver maður, eins og ég og aðrir, sem lýstu því yfir, að það væri meiningin með þessu að fá útlendan her á Ísland, væri að rægja þessa ágætu vinaþjóð okkar, Bandaríkjaþjóðina, og annað slíkt. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur verið staðin að ofbeldi og lygum í öllum sínum afskiptum af Íslandi; að ofbeldi 1945, að lygum 1949, staðin að því í samhandi við Keflavíkurflugvöll að hóta Íslendingum því, að herinn, sem hér var, yrði ekki fluttur burt, svo framarlega sem Íslendingar gengju ekki inn á Keflavíkursamninginn.

Þetta hefur verið okkar reynsla af afskiptunum og svo kölluðum samningum við Bandaríkin. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að við, sem erum búin að standa undanfarinn áratug í þessu hér á Alþingi og þekkjum það, hvernig þessir hlutir hafa gengið til, vörum við, þegar verið er að stíga spor, sem — þó að þau liti ekki mjög alvarlega út á pappírnum enn þá eru einn steinn í viðbót til að leggja þá götu, sem liggur til yfirráða Bandaríkjanna yfir Íslandi.

Ég vil svo að síðustu þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf viðvíkjandi skoðanakúguninni, sem beitt hefur verið á Keflavíkurflugvelli. Ég veit, að mönnum mun þykja mjög vænt um það, ef þeir mega eiga von á, að þeim yfirheyrslum, sem þar hafa farið fram, verði hætt; að af hálfu Bandaríkjanna verði hætt að grennslast eftir ætterni manna, pólitískum skoðunum og öðru slíku, þegar menn eru ráðnir þar í störf. Og ég vildi óska, af því að ég efast ekki um hans góða vilja í slíku sambandi, að honum mætti verða auðið að koma í veg fyrir, að slík hneyksli eins og þar hafa gerzt á undanförnum árum endurtaki sig hvað þetta snertir.

Viðvíkjandi sjómönnunum minntist hæstv. ráðh. á, að sér hefði engin kæra borizt. Ég verð að segja, að það er mjög leitt, að sjómenn skuli ekki hafa kært yfir þeim fruntaskap, yfirgangi og ósvífni, sem ameríska sendiráðið hefur haft í frammi við þá hér undanfarið. Og ég vil aðeins benda þingheimi á, í hvert óefni er komið á Íslandi, þegar hugrökkustu og djörfustu mennirnir, sem við eigum, sömu mennirnir sem sigldu og lögðu líf sitt í hættu á stríðsárunum, eru nú það beygðir, að þeir þeirra, sem eru ekki þá þegar það brennimerktir, að það kemur ekki til mála, að þeir séu einu sinni spurðir, kæra ekki eða neita öðrum eins aðferðum og beitt hefur verið við þá. Hæstv. ráðh. veit, að það, að enginn einstakur sjómaður hefur kært, stafar eingöngu af því, að það að kæra yfir lögbrotum ameríska sendiráðsins, frekju þess og yfirgangi var sama og að lýsa því yfir, að hann væri sjúkur og gæti ekki farið til Ameríku, gæti ekki siglt á skipi til Ameríku. Það að kæra ameríska sendiráðið fyrir ríkisstj. var vitanlega það sama og að segja: Ég afsala mér minn skipsplássi á þessum Fossi. Hins vegar hefur Sjómannafélag Reykjavíkur mótmælt þessu sem heildarsamtök sjómanna. Og ég vil vona, einmitt af þessum góðu undirtektum, sem í þessu efni komu fram hjá hæstv. ráðh., að þegar Sjómannafélag Reykjavikur, sem ég trúi ekki öðru en það geri eftir þessa yfirlýsingu ráðh., sendir kæru formlega út af þessu, þá verði bundinn endir á þennan yfirgang, sem þarna hefur verið sýndur. Og ég vil einmitt, um leið og ég hef gagnrýnt ýmislegt af því, sem hæstv. ráðh. hefur komið með, taka það fram, að í hvert skipti sem við, sem annars erum á öndverðum meið við hann, verðum varir við það, að hann vilji á ýmsum þeim sviðum, þar sem hans vald nær til, láta gott af sér leiða, þá mun ekki skorta stuðning til þeirra verka.