26.03.1954
Neðri deild: 70. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

93. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef í fjhn. mælt með því, að þetta frv. næði fram að ganga, og styð eindregið að því, að þetta þing afgreiði lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Í þessu frv. er að finna mörg nýmæli, sem eru til mikilla bóta frá þeim reglum, sem gilt hafa, og því er lagasetning um þetta efni bæði nauðsynleg og eðlileg.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. eina á þskj. 512, sem ég gerði grein fyrir í n., en hún er þess efnis, að ákvæði reglugerða eða samninga stéttarfélaga ríkisstarfsmanna, sem við gildistöku þessara laga veita fyllri rétt en þann, sem kveðið er á um í lögunum, teljist ekki úr gildi fallin þrátt fyrir samþykkt laganna. Það er viðtekin regla, þar sem um frjálsan samningsrétt vinnuveitenda og vinnuþiggjenda er að ræða, að löggjafarvaldið blandi sér ekki inn í þá samninga og allra sízt til þess að skerða þann rétt, sem launþegar hafa fengið viðurkenndan í frjálsum samningum við sína vinnuveitendur. Það hefur trauðla gerzt, að löggjafarvaldið hafi leyft sér að grípa þannig inn í samningsfrelsi stéttarfélaganna, að það hafi ógilt réttarbætur eða kjarabætur, sem fengizt hafa viðurkenndar í samningum við vinnuveitendur. Hitt hefur hins vegar stundum gerzt, að ríkisvaldið hefur gengið á undan og veitt meiri rétt en fengizt hefur viðurkenndur í samningum, og er það eðlilegra og réttmætara en hitt. Það er hugsanlegt, að í samningum einstakra stéttarfélaga ríkisstarfsmanna og reglugerðum séu ákvæði, sem í einstökum atriðum ganga örlítið lengra en þau almennu ákvæði, sem sett eru í þessum lögum. Þó er samtökum opinberra starfsmanna eða stjórn þeirra aðeins kunnugt um eitt slíkt dæmi, en það er reglugerð, sem gildir um yfirvinnu póstmanna á pósthúsinu hér í Reykjavík, en sú reglugerð var sett fyrir nokkrum árum af ráðherra og póst- og símamálastjóra með samþykki allra hlutaðeigandi aðila, póstmeistara og starfsmannafélags póstmanna, en í þessari reglugerð er yfirvinnuskylda póstmanna takmörkuð nokkru meira en hún er takmörkuð í þessu frv. Stéttarfélag póstmanna hér í Reykjavík og stjórn Bandalags opinberra starfsmanna leggja á það áherzlu, að það sé tvímælalaust við samþykkt þessara laga, að þetta reglugerðarákvæði þurfi ekki að falla niður. Raunar er það skoðun stjórnar bandalagsins, að reglugerðarákvæðið falli ekki sjálfkrafa niður, þótt þetta ákvæði væri ekki samþykkt, en óskar samt eftir því, að öll tvímæli séu af um þetta tekin og að það sé skýrt kveðið á um, að þessi lög raskí ekki þeim réttarbótum, sem einstök starfsmannafélög kunna að hafa fengið annaðhvort í samningum eða með setningu reglugerða. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þessa till., en hún hefur meðmæli stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þó alveg sérstaklega póstmannafélagsins hér í Reykjavík.

Um aðrar brtt., sem fram hafa komið, vildi ég í sem fæstum orðum segja þetta:

Ég er sammála fyrri brtt. á þskj. 498, fluttri af hv. þm. Á-Húnv. Það væri mjög óeðlilegt, að hægt væri að taka til greina umsóknir um starf, eftir að umsóknarfrestur er liðinn. Hinn hátturinn er miklu eðlilegri, að umsóknarfresturinn sé framlengdur eða starfið auglýst að nýju, þannig að aldrei sé valið á milli nema þeirra, sem um stöðuna hafa raunverulega sótt.

Síðari brtt. er ég hins vegar algerlega andvígur, vegna þess að þar eru sköpuð skilyrði til þess að svipta starfsmenn þeim rétti, sem þeir gætu fengið í ráðningarsamningi til þess að halda óbreyttum kjörum. Ein höfuðrökin fyrir því, að launakjör opinberra starfsmanna hafa verið allt að 10% lægri en annarra starfsstétta í þjóðfélaginu, sem búa við frjálsan samningsrétt, hafa verið þau, að ríkisstarfsmenn byggju við miklu meira atvinnuöryggi en þær stéttir, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör. Einn höfuðkjarni þessa atvinnuöryggis hefur verið talinn sá, að þegar opinber starfsmaður hafi verið ráðinn, geti hann treyst ráðningarsamningi sínum, meðan honum á annað borð sé ekki sagt upp starfi. Hann getur treyst því, að laun hans verði ekki lækkuð af nokkru handahófí. Þetta öryggi á nú að taka af hinum opinberu starfsmönnum samkvæmt till. hv. þm. A-Húnv., m.ö.o. að ofurselja þá algerri óvíssu þrátt fyrir ráðningarsamning um það, hvert kaup þeirra og kjör muni verða í framtíðinni. Ef þetta yrði gert, yrði afleiðingin að sjálfsögðu sú, að opinberir starfsmenn hlytu að krefjast kauphækkunar sem því svarar, að kaup þeirra hefur hingað til verið ákveðið lægra en annarra vegna atvinnuöryggisins. Með samþykkt þessarar till. yrði verulegur þáttur atvinnuöryggisins einmitt tekinn af hinum opinberu starfsmönnum.

Varðandi brtt. á þskj. 441 vildi ég svo að síðustu leyfa mér að segja þetta: Ég hefði talið það vera mjög eðlilegt, þegar sett eru lög um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, að í þeim lögum væru ákvæði um þær meginreglur, sem fylgja skyldi við veitingu embætta. Þess vegna er ég í grundvallaratriðum sammála þeirri hugsun, sem felst í brtt. á þskj. 441.

Ég flutti á Alþingi 1946 frv. til laga um embættaveitingar og ráðningu opinberra starfsmanna, sem þá var vísað til ríkisstj. Ríkisstj. hefur þrátt fyrir fyrirspurn einum eða tveimur þingum síðar ekki tekið tillit til ýmissa atriða, sem í frv. voru og þó hlutu meðmæli allshn. á þinginu 1946, fyrr en nú, að ýmis ákvæði, sem í frv. voru, hafa verið sett inn í frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. En kjarninn í þessu frv. mínu á sínum tíma var sá í fyrsta lagi, að ráðh. skyldi vera óheimilt að stofna til embættis eða opinbers starfs, nema heimilað sé í lögum, — og svo í öðru lagi, að öll embætti og opinber störf skyldi auglýsa með minnst mánaðar fyrirvara, en það hefur verið tekið í það frv., sem nú liggur hér fyrir. Enn fremur var gert ráð fyrir því, að áður en ráðh. tæki afstöðu til veitingar embættis eða ráðningar opinbers starfsmanns, þá skyldi hann ætíð leita umsagnar einhvers ákveðins umsagnaraðila, sem nánari ákvæði voru sett um í frv., og var þetta gert til þess að takmarka nokkuð vald veitingavaldsins, en á því hafði borið og hefur enn borið, að pólitískir ráðherrar hafi tilhneigingu til þess að misbeita að ýmsu leyti veitingavaldi sínu. Skynsamlegasta reglan, sem mér þótti til greina koma til þess að hafa hér nokkurn hemil á, var sú að setja nánari reglur um það, að ráðh. skyldi aldrei standa einn að embættaveitingu, heldur ávallt hafa umsögn annars opinbers embættismanns til stuðnings ráðstöfun sinni.

Þetta var kjarni þessa frv. Sumt af þessu hefur þegar verið tekið til greina, en mér þykir það galli á frv., eins og það er komið frá Ed., að í því skuli engin ákvæði vera, sem fjalla um almennar reglur til þess að tryggja svo sem verða má og unnt er hlutlausar embættaveitingar. Þess vegna fagna ég þeirri meginhugsun, sem í till. á þskj. 441 felst. Ég tel nú að vísu, að ákvæðin í seinni hlutanum séu ef til vill fullumfangsmikil, þ.e.a.s. fullumfangsmikið að leggja það á herðar þess, sem stöðu veitir, hversu smávægileg sem hún er, að þurfa að gera grein fyrir því skriflega, og hefði verið nægilegt að binda slíkan rökstuðning við æðri embætti. Ég óttast, að nokkur skriffinnska muni af þessu hljótast, en sé þó ekki ástæðu til þess að gera um það brtt., enda eru þær nokkuð vandasamar, og yrði þá ef til vill að hafa hana allmiklu víðtækari. Það hef ég ekki hugsað mér að gera, heldur einfaldlega að greiða brtt. þessum atkv. við 2. umr. málsins. Gæfist þá tóm til þess við 3. umr. að sníða af þá smávægilegu agnúa, sem ég tel á því fyrirkomulagi, sem þarna er stungið upp á.

Að síðustu vildi ég svo aðeins endurtaka þá skoðun mína, að ég tel meginatriði þessa frv. horfa til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, og styð eindregið að því, að það nái fram að ganga á þessu þingi.