23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

167. mál, tollskrá o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ber fram tvær brtt. á þskj. 507. Hin fyrri fjallar um það, að á eftir nr. 6 í 73. kafla komi nýtt nr., 6.b, efni í spenna; það lækki í verðtolli úr 8%, eins og það nú er, og niður í 2%. Spennar þessir. sem hér um ræðir, eru notaðir langmest til þess að setja þá í spennubreytistöðvar í sambandi við heimtaugar til bændabýla víðs vegar úti um land og eru ekki fluttir inn af öðrum en þeim, sem ganga frá smiði og gerð slíkra spennubreytistöðva. Eftir því, sem liggur fyrir upplýst um þetta efni, þá mundi þetta muna á verði spennanna tilbúinna um 250–300 kr. og gera þá að því leyti auðveldari aðstöðu til þess að keppa við spenna, sem væru fluttir inn alveg tilbúnir frá útlöndum. Þar sem þess vegna hér er um að ræða efni til smíði tækja hér á landi, sem að vísu er nokkuð unnið, þegar það er komið hingað inn, en er partur af annarri stærri smíði, þá virðist alveg eðlilegt að leggja þessa spenna í sama verðtollsflokk og aðrar hráefnivörur til iðnaðar.

Hin síðari till. er þess efnis, að ríkisstj. sé heimilað að endurgreiða verksmiðjum, sem framleiða rafmagnstæki, aðflutningsgjöld eða hluta af þeim af efnivörum til rafmagnstækjanna. Það segir sig sjálft, að þær rafmagnstækjasmiðjur, sem hafa eitthvert verulegt starf með höndum hér, geta ekki smíðað frá fyrstu byrjun alla hluti til hvers einstaks rafmagnstækis. Fjöldaframleiðsla á elnstökum hlutum tækjanna borgar sig miklu. betur, og er því eðlilegt, að þær kaupi jafnan inn nokkuð af hálfgerðum eða tilbúnum hlutum í þau tæki, sem þær smíða að fullu hér heima. Hér er um svo margs konar hluti að ræða, að ekki er fært að telja þá alla upp í tollskránni, enda suma þeirra kannske hægt að nota annars staðar en við framleiðslu þessara tækja. Því þykir eðlilegt að leggja til, að í staðinn fyrir að telja upp þessa hluti alla og ákveða, hvar í tollskránni þeir skuli standa, þá sé ríkisstj. gefin heimild til þess að fella niður aðflutningsgjöld af þessu umrædda efni í rafmagnstæki. Það er þá á valdi hæstv. ríkisstj. hverju sinni að ákveða, hvaða hlutir eða efnivörur undir þetta falla, og í öðru lagi meta nauðsynina í hverju einstöku tilfelli. Sú rafmagnstækjasmiðja sem mest kveður að hér á landi, Rafha í Hafnarfirði, telur, að þetta sé eðlilegasta leiðin til þess að fá fram það, sem til er ætlazt með þessu nýja frv., þ.e.a.s. að styðja að því, að tollarnir séu sem lægstir á hrávörum og lítið unnum vörum, en aftur hærri á hinum vörunum, sem erlendis eru gerðar.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að hv. dm. geti fallizt á, að eðlilegt sé, að þessar breytingar séu gerðar, og greiði till. atkv.