07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að hækka verulega tekjur ríkissjóðs af þeim gjöldum, sem frv. fjallar um, sérstaklega þinglestrargjöldum. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. og einnig í því, sem Landsbanki Íslands hefur látið frá sér fara í sambandi við athugasemdir um þetta frv., þá mun láta nærri, að gert sé ráð fyrir því, að þinglestrargjöld almennt hækki um 100% frá því, sem verið hefur. Það er að vísu rétt, að hv. Ed. hefur gert nokkrar breytingar á frv. frá því, sem gert var ráð fyrir í upphafi, og hvað viðkemur innheimtu á þinglestrargjöldum í sambandi við þinglestur afurðalána, þá hefur Ed. dregið nokkuð úr þeirri miklu hækkun, sem þar var gert ráð fyrir. En eigi að síður tel ég, að þetta frv. almennt séð geri ráð fyrir allt of mikilli hækkun og alveg óeðlilegri hækkun af þessari þjónustu ríkisins, því að ég held, að varla verði um það deilt, að það eru engin frambærileg rök fyrir því, að ríkissjóður sé að afla sér tekna sérstaklega á því að annast þessa skyldu, sem því fylgir t.d. að þinglýsa samningum. Hið eðlilega er það, að ríkið taki aðeins fullan kostnað við þessi störf, en noti þetta ekki á neinn hátt sem skattstofn á landsmenn eða atvinnurekstur í landinu.

Ég er fylgjandi þeirri till., sem hv. þm. Snæf. (SÁ) flytur hér á þskj. 678 og gerir ráð fyrir því, að lækkuð verði nokkuð frá því, sem nú er ákveðið í frv., þinglestrargjöld af framleiðslulánum. Það er mín skoðun, að eitt það fráleitasta, sem er að finna í þessu frv., séu hin háu þinglestrargjöld, sem gert er ráð fyrir að taka af lánum, sem veitt eru yfirleitt til stutts tíma út á framleiðsluvörur.

Þó að nú sé svo komið eftir leiðréttingu Ed., að gert sé ráð fyrir því, að þinglestrargjald af framleiðsluvörulánum sé rétt um það bil helmingur á við það, sem er af ýmsum öðrum lánum, þá hygg ég, að menn sjái fljótlega, að eigi að síður er þarna raunverulega, þegar allt kemur íil alls, um hærri gjaldstiga að ræða af afurðalánum en t.d. venjulegum fasteignalánum, sem aftur eru venjulega veitt til nokkuð margra ára.

Hin algengustu afurðalán t.d. í sambandi við sjávarútveginn eru tekin til þriggja og upp í sex mánuði. Þegar um þriggja mánaða lántöku er að ræða, eins og mun vera langalgengast, þá kemur eðlilega til þess, að afurðalánin eru tekin æ ofan í æ eða kannske fjórum sinnum á sama ári. Vitanlega halda svo þessi afurðalán áfram að vera tekin árlega ár eftir ár. Þannig verður t.d. af 1 millj. kr. afurðaláni, sem tekið er og stendur nokkurn veginn frá ári til árs, eftir nokkur ár búið að taka æði hátt þinglestrargjald og margfalt hærra en tekið mundi vera af 1 millj. kr. láni, sem veitt hefði verið t.d. til 10 eða 20 ára sem fasteignalán. Þinglestrargjöldin af afurðalánum, sem tekin eru til tiltölulega stutts tíma, eru því í rauninni allt annars eðlis en þinglestrargjöld, sem tekin eru af fasteignalánum, sem tekin eru til margra ára.

Nú er það líka svo, að þegar það er viðurkennt, að það ber fremur að stuðla að gengi framleiðsluatvinnuveganna, og það stendur þannig sérstaklega á nú, að það veitir ekki af, að ríkisvaldið hlynni að framleiðsluatvinnuvegunum í öllum greinum fremur en að íþyngja þeim með sífellt hækkuðum álögum, þá vildi ég mega vænta þess, að hv. þm. sæju, að réttmætt er að samþ. þá brtt., sem hv. þm. Snæf. flytur á þskj. 678 og miðar að því að leiðrétta þetta nokkuð og gera þessi gjöld framleiðslunnar hóflegri heldur en þau hafa verið og heldur en þetta frv. þó sérstaklega gerir ráð fyrir að þau verði. En auk þessa, sem ég hef hér sagt sérstaklega um afurðalánin, þá tel ég, að þetta frv. sem heild sé í fyllsta máta óeðlilegt. Ríkið á ekki að fara þá leið að hækka tekjur sínar af slíkri þjónustu sem þessari. Það hefur fengið þessa þjónustu fyllilega borgaða miðað við það, sem hún kostar, og þetta er enginn eðlilegur tekjugrundvöllur fyrir ríkið til þess að skattleggja einstaklinga eða atvinnurekstur í landinu. Af þeim ástæðum er ég á móti frv. sem heild. Ég tel, að þessi gjöld séu nægilega há, en legg þó mesta áherzlu á það, að sú till., sem ég hef nokkuð minnzt á, verði samþ., því að hún kemur þó framleiðslunni að mestu gagni.