31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Þegar lögin um Framkvæmdabanka Íslands voru til umr. á þinginu 1952, þótti ýmsum það ærið nýstárlegt ákvæði, að fjmrh. var þar heimilað að veita ríkisábyrgð fyrir erlendum stórlánum, sem Framkvæmdabankinn tekur, án þess að samþykki Alþingis komi til hverju sinni. Í frv. ríkisstjórnarinnar, sem þá var lagt fram um Framkvæmdabankann, var þessi upphæð upphaflega takmörkuð við 100 millj. kr. Ýmsum fannst nú mjög varhugavert að fara inn á slíka braut, og ég var einn þeirra, en loks varð þó að samkomulagi í liði stjórnarflokkanna að lækka upphæðina, sem till. var gerð um í frv. eins og það kom frá ríkisstj., úr 100 millj. í 80 millj. kr. Nú er farið fram á að hækka þessa upphæð, sem heimilt er að ganga í ábyrgð fyrir án samþykkis Alþingis, upp í 175 millj., eða um 95 millj. kr. Þetta er rökstutt með því í grg., að nauðsynlegt sé að taka stór erlend lán til sementsverksmiðju, til raforkuframkvæmda o.fl. Nú er það svo, að það er til lántökuheimild til þess að koma á fót sementsverksmiðju, og er því ærið kynlegt að biðja um nýja heimild í því skyni. Þurfi hins vegar að útvega lánsfé til annarra framkvæmda, þá er spurningin: Hvers vegna er þá ekki farið fram á lántökuheimild til þessara framkvæmda eins ag venja er til? Það er auðvitað meginmunur á því að fara fram á 95 millj. kr. lánsheimild til ákveðinna framkvæmda og hinu, að festa það í lögum, að fjmrh. sé heimilt að ganga í ábyrgð fyrir lánum fyrir hönd ríkissjóðs, án þess að samþykki Alþingis komi til, fyrir upphæð, sem nú skal nema 175 millj. kr. á hverjum tíma um alla framtíð, svo lengi sem lögin eru í gildi. Það hefði verið hægt að láta Framkvæmdabankann annast lántökuna, enda þótt þessi leið væri ekki farin. En um leið hlýtur þó að vakna sú spurning: Hvers vegna er nauðsynlegt, að Framkvæmdabankinn annist lántökuna? Hver mun þóknun bankans fyrir slíka lántöku vera? Það hafa ekki verið gefnar um það upplýsingar, en ég hygg, að hún sé ekki minni en 1%, eða 1 millj. 750 þús. kr. fyrir 175 millj. kr. lántöku. Það er engin smáræðis upphæð. Þarf það virkilega að kosta slíka óhemju upphæð að útvega slík lán? Það hefði einhvern tíma þótt efni í langar blaðagreinar.

Sogsvirkjunin hefur þurft að greiða Framkvæmdabankanum 1% í þóknun fyrir sín lán, enda þótt þau lán séu tekin úr mótvirðissjóði eða úr sjóði, sem er eign ríkisins, svo að það er dýrt að færa fé úr einum reikningi yfir á annan, og varla verður það minna fyrir að útvega erlent lánsfé.

Enda þótt ég að sjálfsögðu sé samþykkur því, að veitt sé heimild til þeirrar lántöku, sem hér er farið fram á, fram yfir það, sem þegar er til heimíld fyrir í lögum, þá er ég algerlega andvígur þessu frv., sem fer fram á allt annað og meira, og ég legg þess vegna til, að þetta frv. verði fellt og jafnframt verði lagt fram frv. um lántökuheimild með venjulegum hætti.