05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég bið afsökunar á því, að ég var ekki hér til þess að mæla fyrir frv., en ástæðan var sú, að ég varð að hafa framsögu fyrir tekjuskattsmálinu í Ed., rétt þegar málið kom á dagskrá.

Það er sagt frá því í grg. málsins, hvernig á því stendur, að þessi breyting á framkvæmdabankalögunum er nauðsynleg: að hækka lánsheimildina. Það er vegna þess, að búið er að nota 27 millj. af þeirri heimild, sem fyrir er; hún var notuð fyrir landbúnaðarláninu og tveimur öðrum litlum lánum. Þá stendur til, að Framkvæmdabankinn verði milliaðili við lántökuna til sementsverksmiðjunnar og einnig til rafmagnsframkvæmdanna, og loks þarf bankinn endilega að hafa heimild þar umfram, eins og upphaflega var til ætlazt, sem ekki er fyrir fram alveg ráðstafað, til þess að hann geti unnið að fleiri málum, sem fyrir kunna að koma. — Ég vil taka það fram nú, að ég ætlaði mér einmitt að hafa tal af hv. fjhn., þegar hún væri að vinna að málinn, og fara fram á það við hana, að hún tæki upp þá till. að hækka lánsheimildina enn úr 175 millj. upp í 225 millj., þ.e. um 50 millj. frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Það er nauðsynlegt að gera þetta. Það gæti farið svo, að við tækjum meira lán til sementsverksmiðjunnar en við höfum áætlað, og er nauðsynlegt að hafa þetta nokkru rýmra en gert er ráð fyrir í frv.