02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

194. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Ég sé nú, að það, sem hefur farið í taugarnar á hæstv. ráðh., eru ekki umr. um raforkumál. Það er dálítill annar hlutur, sem virðist hafa farið í taugarnar á honum, og það lái ég honum satt að segja ekki. Þessi hæstv. ráðh. minntist á, að ég hefði einhvern tíma notað orð eins og „lygi“ og „svík“. Ætli það hafi ekki verið önnur orð, sem ég notaði í gær, sem hann mundi eftir? Ég man ekki eftir, að ég hafi notað þessi orð nýlega, en ég var í gær að tala um þjófnað og notaði það í sambandi við áburðarverksmiðjuna, og ég gæti trúað, að það væri það, sem hefði farið í taugarnar á þessum hæstv. landbrh. Hann kann dálítið illa við það að standa hér í þinginu dag eftir dag í sambandi við umr. um áburðarverksmiðjumálið, vera borinn þeim sökum að vera þátttakandi í að reyna að ræna úr hendi ríkisins fyrirtæki, sem kostar 125 millj. kr., og gefa það einu hlutafélagi hérna. Og þessi hæstv. ráðh. hefur aldrei fengizt til þess að ræða þetta mál hér í þinginu. Ég býst við, að það sé þetta, sem fer í taugarnar á honum. Ég hins vegar kippi mér ekkert upp við það, þó að þessi hæstv. ráðh. og aðrir ráðh. með honum flýi út, þegar ég tala, því er ég svo vanur. Ég skil ósköp vel, hvernig rödd samvizkunnar hjá þeim, sem ég tala fyrir, slær þá þannig, að þeir geta ekki setið hérna. Það verður að hafa það. Ég held áfram.