25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umræðu, frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, er eitt af þeim málum, sem ákveðið var í hinum svo kallaða stjórnarsamningi að skyldi fram ganga á þessu þingi og lofað hafði verið af hæstv. ríkisstj. að skyldi leyst nú á þessu þingi. Alþingi hefur því raunverulega beðið í nokkra mánuði eftir þessu máli, og þetta er eitt af þeim fyrstu málum, sem hæstv. ríkisstj. sýnir til þess að standa við hinn svo kallaða stjórnarsamning. Af þeim orsökum þykir mér hlýða að gera hér í mjög stuttu máli grein fyrir afstöðu Þjóðvfl. Íslands til þessa frv. nú þegar við 1. umr. málsins.

Ég vil þegar í upphafi taka fram, að það, sem mér þykir athugaverðast við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er það, að síðan á árinu 1947 eða 1948 hafa verið starfandi lengst af mþn. í skattamálum. Það var viðurkennt af öllum, að skattalögin væru þann veg úr garði gerð, eins og þau eru nú og hafa verið, að þeim þyrfti að breyta. Þess vegna hefur verið lögð í það mikil vinna, — og hæstv. fjmrh. undirstrikaði það hér í framsöguræðu sinni í gær, hversu mikil þessi vinna hefur verið, og ég skal ekkert efast um, að hún hafi verið mikil, — það hefur verið lögð í það mikil vinna að undirbúa breytingar á þessum skattalögum. Þess vegna þykir mér það athugavert og mjög alvarlegt, að árangurinn eftir alla þessa miklu vinnu skuli ekki vera annar en það, sem hér liggur fyrir. Hvað sem hæstv. ríkisstj., blöð hennar og málgögn og málflytjendur básúna út um það, að hér sé um stórmál og stórbreytingar að ræða, þá ætti að liggja í augum uppi hverjum þeim, sem athugar þetta mál, að hér er raunverulega um mjög litið mál að ræða.

Þær breytingar, sem eru helzt til bóta í skattafrv. nú frá því, sem verið hefur, og er sjálfsagt og rétt að viðurkenna að séu til bóta, eru, eins og þegar hefur verið tekið fram, þær helztar, að ákveðinn er annar skattstigi fyrir hjón en einstaklinga, og er þó mjög lítill munur á þessum skattstigum. Í öðru lagi fá sjómenn nú nokkurn frádrátt fyrir fataslit, og ég skal ekki um það deila hér, hvort það er mikill eða lítill frádráttur, hvort hann er óeðlilega lágur eða sæmilegur eða ekki. Hitt er staðreynd, að þeir fá frádrátt nú, og sömuleiðis er fæði bátasjómanna frádráttarbært. Í þriðja lagi eru nú. frádráttarbær frá skatti iðgjöld af keyptum lífeyri og líftryggingum. Þetta er líka til bóta. Og frádráttarliðirnir um heimilisaðstoð, ef kona vinnur utan heimilis, um kostnað við stofnun heimilis, um helming af björgunarlaunum, um smávegis frádrátt fyrir greidda húsaleigu, þ.e. okurhúsaleigu, o.s.frv., og hækkun persónufrádráttar, allt eru þetta spor í rétta átt, og það er sjálfsagt að viðurkenna þetta. En þegar þetta er talið upp og þegar menn athuga þetta, þá sjá þeir, að þetta eru litlar breytingar.

Ef ekkert hefði verið athugavert við íslenzka skattalöggjöf annað en þessi atriði, þá hefðu ekki þurft að vera starfandi nefndir árum saman til að finna þessar leiðréttingar. Þetta gátu meira að segja hæstv. ráðh. gert sjálfir án þess að hafa nokkra aðstoð við. Þetta eru engin stórmál.

En í framsöguræðu sinni hér í gær undirstrikaði hæstv. fjmrh. það hvað eftir annað, að hér væri um stórfellda skattalækkun að ræða. Því máli hefur nokkuð verið lýst hér af tveim hv. þm. á undan mér, og skal ég ekki fara mikið út í þá sálma. Hins vegar vil ég á það benda, að hæstv. fjmrh. sagði orðrétt í ræðu sinni í gær, að „skattalækkunin mundi verða 29% að meðaltali, þegar allir nýir frádráttarliðir væru meðtaldir“. Ef hæstv. fjmrh. hefur ætlazt til þess, að þetta yrði skilið á þann veg, að skattur lækkaði að meðaltali um 29% hjá einstaklingum, þá er þetta ein sú herfilegasta blekking, sem ég hef heyrt fram haldið, því að það er sýnilegt og hlýtur öllum að vera ljóst, að þessir nýju frádráttarliðir, sem hér eru heimilaðir, koma ekki nema sárafáum mönnum að haldi. Hjón með tvö börn, sem hæstv. fjmrh. ræddi mikið um í gær og hafa 20–30 þús. kr. tekjur, hafa ekki efni á því að kaupa sér lífeyri fyrir 7 þús. kr. á ári. Þau hafa ekki heldur efni á því að kaupa sér líftryggingu og borga af henni 2 þús. kr. iðgjald á ári. Þau hafa ekki heldur efni á því að borga okurhúsaleigu og fá einhvern hluta hennar frádreginn til skatts, vegna þess að hjón með tvö börn og 20–30 þús. kr. tekjur á ári, eins og nú er, mundu sennilega neyðast til þess að búa í bragga eða einhverju öðru ámóta heilsusamlegu húsnæði. Hjón með 30–50 þús. kr. tekjur og tvö börn hafa ekki heldur möguleika á því að notfæra sér þessa frádráttarliði. Við útreikning á skatti þeirra kemur því lækkun, sem af þessum liðum stafar, ekki að neinn haldi. Það er hrein og bein blekking að halda því fram, að þessir frádráttarliðir lækki skatt slíkra aðila. Hjón með slíkar tekjur mundu ekki heldur njóta þeirra fríðinda, sem í því eru fólgin, að vextir af sparifé eru skattfrjálsir, vegna þess að þau hafa ekki efni á því að leggja fyrir neitt sparifé.

Þessir frádráttarliðir, sem ég vil þó viðurkenna í sjálfu sér að séu eðlilegir og spor í rétta átt, koma fyrst og fremst að haldi mönnum með mjög háar tekjur og mjög góða afkomu. Hjón með tvö börn, sem hefðu 100–120 þús. kr. tekjur, hefðu möguleika á því að kaupa sér líftryggingu og borga af henni 2 þús. kr. iðgjald. Þau hefðu einnig möguleika á því að leggja fyrir sparifé og njóta þess hagræðis, sem skattfrelsi sparifjárins hefði í för með sér. Og þannig er með þetta frv. allt, ef það er krufið til mergjar, að það kemur fyrst og fremst að haldi þeim, sem hafa góðar tekjur eða mjög háar tekjur. Þeir fá lækkaðan sinn skatt verulega, aðrir mjög óverulega.

Ég skal taka dæmi til að sýna þetta.

Það er hér í landi eitt ágætt fyrirtæki, sem allir kannast við. Það heitir Olíufélagið h/f. Það hafði svo miklar tekjur á s.l. ári, að það borgaði á aðra milljón króna í skatta. Samkvæmt þessu frv. mundi Olíufélagið, ef það á árinu sem leið hefur haft svipaðar eða meiri tekjur og hefði þurft að borga svipaðan eða meiri skatt en í fyrra, fá yfir 200 þús. kr. afslátt eftirgefinn af sköttunum, miðað við s.l. ár. En hjón með 20 þús. kr. tekjur og tvö börn á framfæri fá 39 kr. eftirgefnar.

Þetta er eðli frv., sem hér er til umræðu. Og það er annað og meira í þessu sambandi. Við getum hugsað okkur annað þjóðþrifafyrirtæki í þessu landi, annað þjóðþrifafyrirtæki en Olíufélagið h/f, og við skulum hugsa okkur, að það hefði ekki meiri tekjur en það, að það þyrfti að borga í skatta 100 þús. kr. á ári. Það mundi fá eftirgefið samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, 20%, þ.e.a.s. 20 þús. kr. í sköttum. Reglan verður þá sú, að þeim mun meiri gróða sem eitt fyrirtæki fær, þeim mun meiri eftirgjöf á skatti. Lögmálið, sem hér er farið eftir, er nákvæmlega þveröfugt við það lögmál, sem talið hefur verið einkenni og undirstaða heilbrigðrar skattalöggjafar hingað til.

Það er líka auðséð af þeirri stefnu, sem markar þetta frv., að það er sama stefnan og markað hefur skattapólitík okkar undanfarinn áratug, þ.e.a.s. sú hreinasta íhaldsstefna, sem hugsazt getur. Stefnan í skattamálum okkar siðasta áratuginn hefur verið sú að auka óbeinu skattana, sem leggjast þyngst á fjölmennustu fjölskyldurnar. Það hefur verið lagður á söluskattur á annað hundrað milljónir og tollar látnir lækka að krónutölu með gengisfellingunni o.s.frv.. sem sagt, það hafa alltaf verið hækkaðir nefskattar, óbeinir skattar sífellt verið hækkaðir, og nú kemur hér fram frv. um beinu skattana, tekjuskatt og eiguarskatt, og þá er haldið sömu reglunni, þeim hlíft mest, sem mestar hafa tekjurnar, mestan gróðann. Það var líka eftirtektarvert, og það sló mig ákaflega mikið hér í gær, þegar hv. 5. þm. Reykv. sá ástæðu til að standa hér upp og undirstrika það alveg sérstaklega, að nú væri loksins verið að framkvæma stefnu Sjálfstfl. í skattamálum. Betur var ekki hægt að játa það og viðurkenna, að hér er fram haldið þeirri íhaldsstefnu í skattamálum, sem ríkt hefur hér á. landi siðasta áratuginn.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil þó ekki láta hjá líða að lokum að drepa hér á eitt þýðingarmikið atriði, sem ég hef ekki enn þá minnzt á, þ.e. skattfrelsi sparifjár. Og þar skal ég enn þá byrja á því að viðurkenna, að þetta er að ákveðnu marki einnig spor í rétta átt. Hins vegar er þannig á því haldið í þessu frv., að það er ómögulegt að greiða því atkvæði. Það er verjandi, og það má raunar heita sjálfsagt að veita smásparifjáreigendum einhver skattfríðindi til þess að örva sparifjármyndun í landinu, en að sleppa jafnalgerlega og á jafnfullkominn hátt öllu taumhaldi á þeim málum eins og hér er gert er fjarstæða. Og ég er satt að segja, þó að ég hafi nú ekki mikið álit á Framsfl., algerlega undrandi á því, að Framsfl. skuli vera aðili að svona tillögum. Til að rökstyðja þetta nokkru nánar skal ég nefna nokkur dæmi.

Það eru hér í bæ tveir menn, sem mörgum er kunnugt um. Ég mun ekki nafngreina þá að sinni og ekki nema ég verði krafinn um það. Þessir menn munn eiga nú og hafa átt s.l. 5 ár og meir fasteignir, sem mundu seljanlegar á um 30 millj. kr. Eftir að þetta frv. hefði verið samþykkt, gætu þessir menn selt fasteignirnar, fengið sínar 30 millj., lagt þær í sparisjóðsdeild Landsbankans, fengið 1.8 millj. kr. í vaxtatekjur á ári skattfrjálsar. En hjón með 30 þús. kr. vinnutekjur og 3 börn á framfæri verða að borga skatt. Aðili, sem hefði eignazt fyrir nokkrum árum að arfi fasteign hér í þessum bæ, sem hann gæti selt fyrir 1 milljón í dag, gæti lagt milljónina í sparisjóð og fengið 60 þús. kr. vaxtatekjur á ári skattfrjálsar. En hjón með sömu vinnutekjur og 5 börn á framfæri þyrftu að greiða skatt. Og ég bið hv. þm. að athuga það, að þessi tvö tilfelli, sem ég hef nefnt, mundu ekki þýða neina aukningu á sparifé í landinu, því að ef þessir aðilar, sem nú eiga þessar fasteignir, seldu þær, þá yrðu kaupendurnir að taka út fé, sparifé einhverra annarra, til að kaupa þær fyrir.

Þannig hefði sparifé landsmanna ekki aukizt um krónu, en tveimur aðilum hefði verið gert kleift, öðrum að fá 60 þús. kr. vaxtatekjur á ári skattfrjálsar, hinum að fá 1.8 millj. kr. vaxtatekjur á ári skattfrjálsar.

Finnst svo hv. þm. það einkennilegt, þó að mér blöskri það, að Framsfl. skuli eiga aðild að annarri eins till.? Það var ekkert við því að segja, það var meira að segja hægt að mæla með því og finna rök fyrir því, að smásparifjáreigendur, menn, sem eiga 50–100 þús. kr. í sparisjóði, fengju skattfrelsi, slyppu við að greiða tekjuskatt af vöxtum, slyppu við að greiða eignarskatt af sparifé. Það var til að örva þá, sem gætu lagt inn smávegis sparifé. En þessi fjarstæða, sem hér liggur fyrir, er fyrir neðan allar hellur. Og ég skil ekki, að það séu menn með heilbrigða dómgreind og þjóðfélagslega hugsun, sem standa að svona till.

Það væri ástæða til að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál, svo alvarlegt sem það er, en ég mun ekki gera það að þessu sinni, ekki við þessa umr. Ég mun láta þetta nægja í bili. En við umr. um málið á síðari stigum mun ég e.t.v., ef ég tel ástæðu til og að það hafi nokkra þýðingu, flytja brtt. við þetta frv. Það er t.d. eitt atriði í þessu frv., sem væri ástæða til að breyta að mínum dómi, og þó hafa þeir aðilar, sem að þessu frv. standa, stigið þar spor í rétta átt, það er persónufrádrátturinn, hann hefur verið hækkaður frá því, sem er. En það er talin undirstaða allrar heilbrigðrar skattalöggjafar, að einstaklingurinn hafi brýnustu þurftartekjur skattfrjálsar. Það er ómögulegt að segja, að 6500 kr. nægi sem brýnustu þurftartekjur fyrir nokkurn einstakling í þessu landi. Þess vegna er það mín skoðun, að persónufrádrátturinn hefði átt að hækka þó nokkuð frá því, sem ákveðið er í frv.

Ég ætla þá ekki að ræða málið meira að sinni.