09.04.1954
Neðri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Í framhaldi þeirrar till., sem flutt var hér af okkur fjórum hv. þm., hv. 4. landsk., hv. þm. Siglf. og hv. 2. þm. Rang., við þetta frv., þegar það var seinast hér til umr. í hv. d., þá höfum við leyft okkur, tveir þeirra, að flytja hér aftur till., sem gengur reyndar nokkuð skemur en hin upphaflega till. okkar gerði ráð fyrir. En það hefur ekki unnizt tími til að prenta hana, og er till. í prentun. Hins vegar vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa þessa till., eins og hún er nú orðuð, en hún er við 7. gr.

„Fyrri málsl. h-liðar í 4. tölul. orðist svo: Fæðiskostnað sjómanna á fiskiskipum, ef þeir þurfa sjálfir að sjá sér fyrir fæði, svo og dvalarkostnað manna, sem leita þurfa sér atvinnu utan heimilissveitar sinnar og hafa þrjá eða fleiri einstaklinga á framfæri sínu, og við ákvörðun þessa kostnaðar sé farið eftir mati skattayfirvalda.“

Af þessari till. er ljóst, að hún gengur, eins og ég sagði áðan, nokkuð skemur en hin upphaflega till. okkar, og er hér einstaklingunum sleppt og að sjálfsögðu nokkuð gengið á þeirra rétt. Hins vegar virðist vera sanngirnismál, að tekið sé tillit til þessara manna, sem leita þurfa utan síns heimahéraðs eftir atvinnu, að þeir fái nokkra ívilnun um skatta, þar sem óhjákvæmilegur aukakostnaður hlýtur að dragast frá þeirra tekjum.

Hér er einungis farið fram á, að fjölskyldufeður njóti þessa réttar, og ef dæma má eftir þeim úrslitum, sem fyrri till. okkar fékk hér í hv. d., þegar hún var felld á jöfnum atkvæðum, þá mætti þess vænta a.m.k., að það yrði frekar til þess, að till. næði samþykki, að einungis er hér farið fram á þessa ívilnun fyrir heimilisfeður, sem hafa þrjá eða fleiri á framfæri sínu.