03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

6. mál, gengisskráning

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir nokkrum árum var skipuð n. til þess að endurskoða lög um laun opinberra starfsmanna, launalögin. Sú n. skilaði uppkasti að frv. Þetta frv. er nú og hefur verið um alllangt skeið til athugunar innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er sem sé enn þar í athugun þetta uppkast, sem þá var gert.

Viðvíkjandi brtt. þeim, sem fram koma, þá vil ég segja það, að mér sýnist vera sanngjarnt, að opinberir starfsmenn búi við sömu reglur um greiðslu verðlagsuppbóta og annað launafólk, það sé sú eðlilega regla að halda sér við. Þess vegna leyfi ég mér að mæla gegn báðum þeim brtt., sem fram hafa komið, annarri frá hv. þm. A-Húnv., sem ætlar opinberum starfsmönnum minni rétt en öðrum, og hinni frá hv. 2. þm. Reykv., þar sem hann gerir ráð fyrir, að opinberir starfsmenn búi við hagstæðari reglur að þessu leyti en aðrir. Vonast ég eftir, að menn sjái sér fært að samþ. frv. óbreytt.