22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

3. mál, ríkisborgararéttur

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Á þskj. 603 flyt ég ásamt hæstv. landbrh. (StgrSt) brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. Brtt. okkar fer fram á það, að maður nokkur, að nafni Karl Helmuth Simmroth, sem nú er búsettur á Sauðárkróki, fái ríkisborgararétt.

Maður þessi er þýzkur að þjóðerni. Fæddur í Querfurt á Þýzkalandi árið 1929. Einhverra hluta vegna undi hann ekki búsetu í heimabyggð sinni og fluttist hingað til Íslands árið 1949, og hér hefur hann dvalizt síðan, utan þess að hann fór skyndiför til Þýzkalands 1953. Hann hefur dvalizt austur í Mýrdal í Skaftafellssýslu, hér í Reykjavík og nú síðastliðin 21/2 ár norður á Sauðárkróki, og hefur hann starfað bæði hér í Reykjavík og þar norður frá sem bifvélavirki, en þá iðn hafði hann lært í heimalandi sínu. Ég hef átt þó nokkur viðskipti við bifvélaverkstæði það, sem þessi maður hefur verið meðeigandi í og starfað við, og get því af eigin raun borið vitni um það, að maðurinn er mjög vel dugandi og fær í þessu starfi sínu.

Hv. frsm., hv. 1. þm. Árn., hvatti okkur þm. í framsöguræðu sinni til þess að athuga vel þau skilyrði, sem hv. allshn. hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar og birt eru á þskj. 472.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að maður sá, sem um getur í brtt. okkar þm. Skagf., fullnægi þeim skilyrðum í nál., þar sem um það er að ræða, að umsækjandi hafi á sér gott orð um hegðun og framkomu að áliti valinkunnra manna, eins og það er þar orðað. Í þeim efnum læt ég mér nægja að vitna til þeirra meðmæla, sem fylgja umsókn þessa manns. Þau eru öll lofsamleg. Meðal þessara meðmæla eru meðmæli frá prófastinum í Skagafjarðarprófastsdæmi, bæjarfógetanum á Sauðárkróki svo og bæjarstjóranum þar á staðnum, sem allir bera umsækjandanum gott orð og mæla með umsókn hans.

Ég held því, að hv. dm. þurfi ekki að hafa neitt samvizkubit út af því, þó að þeir samþykki þessa brtt. Hins vegar vil ég taka fram, að ég ber engan kala til hv. n., þó að hún hafi ekki séð sér fært að mæla með brtt. Ég skil það ofboð vel, að í þessum efnum þarf að fara eftir ákveðnum reglum.

Ég hafði hugsað mér svo sem í leiðinni að fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 498, sem hv. 1. landsk. þm. (GÞG) flytur ásamt nokkrum öðrum hv. þm., en þess gerist nú ekki lengur þörf. Hv. frsm. (JörB) svo og nú siðast hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) eru nú búnir að gera þessari till. þau skil, sem hún þurfti að fá, og verður þar ekki um bætt, þó að fleiri orð séu sögð.

Ég er á móti þessari brtt. og mun samþykkja 2. gr. frv. eins og hún liggur fyrir. Ég fæ með engu móti séð, að það þurfi að vera nein frágangssök því fólki, sem þeirra hlunninda verður aðnjótandi að fá ríkisborgararétt hér á landi, þó að það þurfi að hlíta þeim skilyrðum, sem sett eru í 2. gr. frv.

Í fjölmörgum tilfeilum er meira að segja ekki um það að ræða, að fólk þetta þurfi að skipta um nafn, heldur að breyta nafni sínu til samræmis við íslenzkt mál, íslenzka málvenju og íslenzkan rithátt. Glöggt dæmi um það er einmitt maður sá, sem ég sæki nú um ríkisborgararétt fyrir. Hann heitir Karl, og því nafni getur hann að sjálfsögðu haldið áfram. Faðir hans heitir að fornafni nafni, sem mjög er algengt á Íslandi, að sjálfsögðu með íslenzkum framburði og íslenzkum rithætti. Ég fæ með engu móti séð, að það þurfi að vera nein nauðung þessum manni að kenna sig við fornafn föður síns, svo sem siðvenja er í landi okkar, en ekki við ættarnafn, sem fæstir skilja og fjöldinn allur fær ekki fram borið né ritað með réttum hætti.

Ég vil svo að lokum þakka hv. framsögumanni fyrir þá áminningu, sem hann flutti hér, að nafnalögin frá 1925 verði betur framkvæmd en oft hefur átt sér stað. Sem prestur í íslenzku þjóðkirkjunni og þá um leið einn þeirra manna, sem eiga að gæta þess, að þessum l. sé hlýtt, vil ég með ljúfu geði taka þessa áminningu hans mér til góða.