05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

3. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Lög um veitingu ríkisborgararéttar hafa í þau tæp 13 ár, sem liðin eru síðan ég kom hingað fyrst á þing, oft lent í hinu mesta öngþveiti, og ég man a.m.k. 3 þing, þar sem frv. hafa annaðhvort dagað uppi eða verið felld, vegna þess að deildirnar gátu ekki komið sér saman um reglur, sem skyldi fara eftir í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar. Hv. Ed. hefur alltaf verið miklu íhaldssamari í þeim efnum en hv. Nd., og ég tel það rétt, því að ég álít, að ríkisborgararétturinn sé einhver dýrmætasta eignin, sem við Íslendingar eigum, og við eigum ekki að láta hann til annarra þjóða manna, nema þeir hafi sýnt, að þeir séu verðir þess.

Ef maður líkir þjóðinni við stórt heimili, þá var það siður, a.m.k. í gamla daga, á góðum heimilum að taka fósturbörn. Það var látið vel að þeim, þeim var veitt atvinna og hinn bezti viðurgerningur. En það var undantekning, ef þau voru gerð að kjörbörnum. Ég skoða það, ef þessari samlíkingu er haldið, að veita manni ríkisborgararétt sama og að gera hann að kjörbarni íslenzka þjóðfélagsins, og vil ég þess vegna gera talsvert miklar kröfur til þess manns.

Á þessu þingi hefur samizt svo um milli hv. allshn. Nd. og hv. allshn. Ed., að n. hafa komið sér saman um sameiginlegar reglur, sem ég að vísu álit ekki nægilega strangar, en get þó eftir atvikum sætt mig við. Þær eru teknar upp í nál. allshn. Nd. á þskj. 472, og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að telja höfuðatriðin úr þeim upp. Þar segir:

„Var talið æskilegt, að þær yrðu á þessa leið: Það skyldi ófrávíkjanlegt skilyrði, að umsækjandi hafi gott orð um alla hegðun og framkomu að áliti valinkunnra manna. Einhleypir menn hafi átt hér lögheimili í 5–10 ár, og fari um árafjöldann nokkuð eftir þjóðerni umsækjanda (Norðurlandabúar 5 ár).

Íslenzk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið, fær borgararétt, þegar hún hefur öðlazt hér á landi heimili og ákveður að vera hér áfram.

Erlendur ríkisborgari af íslenzku foreldri, sérstaklega ef hann á Norðurlandabúa að öðru foreldri, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu.

Maður (eða kona), sem kvænist (eða giftist) íslenzkum ríkisborgara, fái borgararétt eftir 3 ár frá giftingu, þó þannig, að sá, sem borgararéttinn hefur fyrir, hafi haft hann a.m.k. í 3 ár.“

Þetta eru þær reglur, sem nefndirnar hafa myndað sér til að fara eftir núna, en auðvitað er Alþ. heimilt hvenær sem er að víkja frá þessum reglum, því að þær eru ekki lögbundnar, hafa þær strangari eða draga úr þeim, en það vona ég að ekki verði.

Hv. Nd. hefur farið nákvæmlega eftir þessum reglum í frv. sínu. Þar hafa þó slæðzt inn tvær villur. Önnur er sú, að nr. 57 í frv., eins og það kemur frá Nd., Bernadotte van der Poel, karmelnunna í Hafnarfirði, er farin af landi burt og kemur því ekki til greina lengur. En af misskilningi féll aftur niður úr frv. önnur karmeinunna, de Zeeuw, sem tekin er í stað hennar. Þetta er ekki annað en leiðrétting. Í öðru lagi hafði fallið niður hjá hv. Nd. Færeyingur, Tórbjörn Andreasen, sem uppfyllir öll þau skilyrði, sem nefndirnar hafa sett, og hefur því aðeins fallið niður af misgáningi.

Af þessum ástæðum verður að senda frv. aftur til Nd. En úr því að það verður gert, þótti okkur rétt að taka inn í það hjón, þar sem ungverskur maður er giftur íslenzkri konu. Þau uppfylla sömu skilyrðin, en umsóknirnar bárust ekki fyrr en eftir að málið fór úr Nd. En ég vil taka það skýrt fram, að n. er mjög á móti skapi og mun ekki framvegis sætta sig við það, að verið sé að dengja umsóknum um ríkisborgararétt inn til hennar alveg til síðustu stundar. Það þarf að gera mönnum það ljóst, sem vilja sækja um ríkisborgararétt, að umsóknir séu komnar til dómsmrn. áður en Alþ. kemur saman eða a.m.k. áður en ríkisborgararéttarfrv. fer úr fyrri deildinni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Allir nm. eru sammála, og ég vil leyfa mér að leggja til, að hv. d. samþykki frv. með þeim breytingum, sem n. stingur upp á.