21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

150. mál, kostnaður við skóla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að síðustu áratugina hefur sótt í það horf, að ríkið hefur tekið meiri og meiri þátt í þeim kostnaði, sem stafar af skólahaldi í landinu. ríkið og sveitarfélögin, þar með talin bæjar- og sýslufélög, annast nú í sameiningu barnafræðslu, gagnfræðastigsfræðslu og húsmæðrafræðslu.

Hluti ríkisins af rekstrarkostnaði þessara skóla nam árið 1953 hér um bil 38 millj. og 100 þús. kr., og rekstrarkostnaður sveitarfélaganna nam hér um bil 12 millj. og 900 þús. kr. Af þessum tölum er ljóst, að hér er mjög mikilla fjárhagsmuna að gæta, enda er rekstrarkostnaður ríkis og sveitarfélaga af þessu skólahaldi áætlaður samtals nær 55 millj. kr. fyrir árið 1955.

Núgildandi ákvæði um þessi efni eru í fræðslulöggjöfinni frá 1946. Samkv. lagaboðunum er ætlazt til, að um þetta sé nánar kveðið á í reglugerðum. Reglugerðir þessa efnis hafa alllengi verið í undirbúningi í menntmrn., en að athuguðu máli varð ljóst, að sjálf lagaboðin eru að ýmsu svo óskýr, sundurlaus og sjálfum sér ósamþykk, að ekki var ráðlegt að setja reglugerðir samkv. þeim að lögunum óbreyttum. Það er og mjög til óhagræðis að hafa fjármálaákvæðin á víð og dreif innan um önnur ákvæði fræðslulaganna. Á allt þetta sinn þátt í því, að töluvert ósamræmi hefur orðið í framkvæmd l. og hún öll yfirleitt slappari en viðunandi sé. Þegar af þessum ástæðum hef ég látið undirbúa heildarlöggjöf um þessi efni, og er það von mín, að eftir setningu hennar verði skorið úr mörgum vafaatriðum, sem nú þvælast fyrir mönnum, og að meðferð þessara mála verði þá í heild mun yfirlitsbetri en verið hefur fram til þessa.

Mestu varðar þó að leysa þá efnisannmarka, sem fram hafa komið á gildandi lögum. Þar skiptir höfuðmáli, að skýr ákvæði verði sett um stofnkostnaðargreiðslur skólanna. Nú er mjög um það deilt, hverjar reglur gildi. Lögin gera að vísu ráð fyrir skiptingu á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Af hálfu sumra er því haldið fram, að hlutföllin, sem nefnd eru í lögum, séu svo ákveðin, að hvorum aðila sé skylt að greiða það fé, sem í hans hluta kemur samkv. þeim reglum, og eigi sveitarfélögin beina lagakröfu á ríkið um þær greiðslur. Forráðamenn ríkissjóðs hafa hins vegar ætíð litið svo á, að hvað sem þessu hlutfalli líður, sé ríkinu ekki skylt að greiða meira fé en hægt er að úthluta af því, sem veitt er á fjárlögum hverju sinni. Eftir þessu eru reglurnar um hlutfall ríkisins í greiðslum þessum einungis hámarksreglur, og ræður þá fjárveitingavaldið því alveg, að hve miklu leyti það leggur fram fé í þessu skyni, innan þeirra takmarka, sem hámarksreglurnar setja. Ef þetta er rétt, er ljóst, að sveitarfélögin eiga alveg undir högg að sækja hjá fjárveitingavaldinu og geta í raun réttri litlu eða engu treyst um stuðning ríkisvaldsins við að koma skólum upp.

Ég skal ekkert um það segja hér, hvað sé rétt í þessu, hvort sveitarfélögin eigi réttarkröfur á ríkið eða ekki, enda er orðalag ekki allt á einn veg og engan veginn víst, að efni þeirra sé hið sama, þó að sennilega hafi verið til þess ætlazt. Það, sem hér skiptir máli, er, að ríkið hefur hvergi nærri greitt framlög, sem samsvari því hlutfalli, er lögin nefna, og gera sveitarsjóðir nú kröfur á hendur ríkissjóði fyrir barnaskóla 121/2 millj. kr., fyrir gagnfræðaskóla 3 millj. 350 þús. kr., fyrir húsmæðraskóla 11/4 millj. kr. Þessum kröfum þarf að fullnægja fyrr en síðar, vegna þess að sveitarfélögin hafa reist skólana í þeirri trú, að greiðslurnar fengjust. Engu að síður hafa þessar skuldir aukizt frá ári til árs og nema nú sem sagt samtals 17 millj. og 100 þús. kr.

Við setningu gildandi fjárlaga fékk ég því áorkað, að í fjárveitingum skyldi greint á milli greiðslna á áföllnum kröfum og þess, er færi beint í skóla, sem verið er að reisa. Upp í þessar rúml. 17 millj. kr. kröfur fékkst ekki nema 1200 þús. kr. fjárveiting, og var þá að vísu ætlunin að veita mun meira í því skyni af tekjuafgangi ársins 1954, hvað sem úr því verður. Hins vegar voru 6 millj. 890 þús. kr. veittar til stofnkostnaðar nýrra skóla, og er það mun meira en nokkru sinni áður, enda vonuðust menn þá til, að skuldirnar mundu ekki vaxa á þessu ári.

Höfuðnauðsyn er að setja um þessi efni ákveðnar reglur, er gildi í framtíðinni, svo að hver og einn viti, að hverju hann eigi að ganga, og ekki sé unnt að ásaka ríkið fyrir vanefndir. Menn verða að gera sér grein fyrir, hverjar byggingarframkvæmdir helzt þarf að ráðast i, og tryggja síðan fyrir fram, að fé til þeirra sé fyrir hendi. Verður þá hvort tveggja að fylgjast að, að Alþ. sjálft ákveði, hvaða skólar skuli reistir með tilstyrk ríkisins og hvenær ríkisframlögin skuli greidd, og að enginn vafi sé á, að þessi framlög verði greidd á tilsettum tíma, enda stofnist ótvíræð réttarkrafa, sem sveitarfélögin geti knúið fram greiðslu á lögum samkvæmt, et greiðslur dragast úr því, og miða ákvæði frv. að þessu.

Vera kann, að sumum þyki ákvæðin nokkuð flókin og of þung skylda til undirbúnings verði lögð á sveitarstjórnir og menntmrn. ásamt fræðslumálaskrifstofunni. En ég fæ ekki séð, hvernig þetta verður umflúið, ef komast á út úr því öngþveiti, sem nú ríkir. Ef framkvæmd þessa ákvæðis tekst, svo sem vonir standa til, og ef ríkið getur innan hæfilegs tíma greitt þær kröfur, sem nú eru fallnar á í þessum efnum, hefur fengizt mjög mikilsverð réttarbót, er gera mun skólanefndum, sveitarstjórnum, skólastjórum og kennurum og öðrum þeim, er eiga að annast framkvæmd skólamála í landinu, ólikt léttara að gegna skyldum sínum en nú er. Vona ég, að allir geti orðið sammála um að stuðla að því, að þessi mikilvæga réttarbót nái fram að ganga.

Þá er rétt að vekja athygli á ákvæðunum um skólabíla. Akstur á skólabörnum og unglingum til skóla hefur sums staðar getið mjög góða raun, einkum í snjóléttari sveitum hér í nágrenninu og á Suðurlandsláglendinu. Með slíku er hægt að spara byggingu sérstakra skóla og heimavista, og liggur sannanlega fyrir, að stundum er það fjárhagslega mun hagkvæmara, jafnvel þótt rekstur skólabílanna sé allkostnaðarsamur. Auk þess vilja flestir foreldrar frekar hafa börn sín heima hjá sér en koma þeim í heimavist, þótt góð sé.

Um stofnkostnaðarákvæði frv. er þess enn fremur að geta, að nákvæmar er nú talið en áður, hvað til stofnkostnaðar skuli telja, og betra samræmi í því en verið hefur. Ákvæðin um rekstrarkostnað eru mörg til samræmingar og skýringar frá því, sem verið hefur. Sérstök ástæða er til að benda á, að samkv. frv. eru látnar gilda tilsvarandi reglur um þátttöku ríkisins í kennaralaunum við gagnfræðaskóla og barnaskóla varðandi þann fjölda nemenda, sem þarf að vera fyrir hendi, svo að skóli öðlist rétt til kennara. Undanfarið hafa ákvæðin verið óljós um gagnfræðastigið, og hefur það leitt til þess, að víðs vegar um landið hafa myndazt mjög smáir gagnfræðastigsskólar eða unglingaskólar, en eftir frv. mundi ríkið ekki greiða laun kennara við slíka skóla nema stuttan starfstíma á hverju ári. Leiðir af því, að annaðhvort verða sveitarfélögin að leggja meira fram af sinni hálfu til skólanna en áður eða haga starfi þeirra svo, að það standi þeim mun skemur, er svari til takmörkunarinnar á skyldu ríkissjóðs til greiðslu kennaralauna. Ef sveitarfélögin vilja á hvorugan þennan kost fallast, er það ráð, að þau sameinist um stærri skóla eða noti þá skóla, sem fyrir eru og nú eru lítt sóttir sumir einmitt vegna þessara smáskóla, svo að jafnvel ein slík milljónabygging stendur nú með öllu ónotuð. Sjálfsagt verða ekki allir á eitt sáttir í þessu, en ljóst er þó, að ákveðnar reglur verða að gilda, svo að menn viti, að hverju þeir eiga að ganga, en ekki eins og nú, að allt sé á huldu. Sýnist raunar liggja í augum uppi, að viss hæfilegur lágmarksfjöldi nemenda verði að vera fyrir hendi, til þess að verjanlegt sé að setja upp fullkominn gagnfræðastigsskóla. Hitt er skiljanlegt, að menn greini á um, hvar mörkin skuli setja, og verður það atriði væntanlega athugað í meðferð þingsins á málinu.

Þá er ráðgert að samræma einnig reglurnar um greiðslu viðhaldskostnaðar, og er sjálfsagt að láta sams konar reglur gilda um barnaskóla og gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla í þessum efnum, en svo hefur ekki verið að undanförnu. Í frv. er lagt til, að viðhaldskostnaðurinn verði hvarvetna greiddur í sama hlutfalli og stofnkostnaður er ákveðinn.

Skal ég ekki rekja frekar kostnaðarákvæði í frv., en benda á, að mörg ákvæði þess eru allflókin við skjótan yfirlestur, þó að töluverð vinna hafi verið lögð í að gera þetta allt eins einfalt og unnt er. En málið sjálft er flókið og erfitt viðureignar, og verður því að virða það til vorkunnar, að nokkra yfirlegu þarf til að átta sig á sumum ákvæðunum.

Loks eru í frv. fyrirmæli um reikningshald, endurskoðun og eftirlit. Í þessum efnum hefur mjög skort á undanfarið. Er þess dæmi, að ekki hefur verið fylgzt með reikningshaldi skóla, hvorki af hálfu ríkis né sveitarfélags, nokkuð á annan áratug. Sennilega hefur hvor aðili um sig talið, að eftirlitið heyrði undir hinn, og því ekki aðhafzt. Þó að slíkt sé að vísu undantekning, þá er víst, að til skamms tíma var eftirlit af hálfu ríkisins í þessum efnum allsendis ófullnægjandi og miðað við þær háu fjárhæðir, sem hér er um að ræða, með öllu óverjandi. Það var því mikil bót, þegar fyrir nokkrum árum var ráðinn sérstakur námsstjóri, sem m.a. skyldi hafa eftirlit með fjárreiðum gagnfræðaskólanna. Hefur hann unnið hið nytsamasta verk með því að greiða fram úr ýmsum flækjum, sem komnar voru á, og er sjálfsagt að láta hann einnig taka við eftirliti með barnaskólunum, er hann raunar hefur nú þegar sinnt að nokkru, enda njóti hann aðstoðar námsstjóra barnafræðslunnar í þeim efnum. Hafa nú þegar verið leyst sum þeirra vafaatriða, sem fram hafa komið við endurskoðunina, önnur eru enn óleyst, enda ér ekki auðvelt að gera sér grein fyrir sönnu samhengi mörgum árum síðar, þegar nauðsynleg gögn eru ekki lengur fyrir hendi. Fram úr þeim vandamálum verður að ráða eftir því, sem bezt má virðast. Hitt skiptir höfuðmáli, að búa svo um hnútana, að sem fæstar flækjur komi á og allt geti gengið greiðlega í framtíðinni. Ég er ekki í vafa um, að ef frv. þetta nær fram að ganga, verður að því mikil réttarbót og mun auðveldara verður að ráða við fjármál skólanna eftir en áður, en þau eru sú undirstaða, sem ekki má án vera.

Ég leyfi mér svo að vænta þess, að hv. d. samþykki að umræðu lokinni að vísa málinu til 2. umr. og hv. menntmn. deildarinnar.