31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

78. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Emil Jónsson:

Herra forseti. Einhvern veginn atvikaðist það svo, þegar þetta mál var hér til 1. umr., að ég var þar ekki nærstaddur og gat ekki sagt um það þau fáu orð, sem ég þess vegna vildi gjarnan segja við þessa umr. Verður það því kannske um málið nokkuð á við og dreif, og vænti ég, að forseti taki mér það ekki illa upp.

Það hefur verið stöðugt umræðuetni á mörgum undanförnum þingum, hvernig unnt væri að auka starfsemi fiskveiðasjóðs. Síðast man ég eftir því, að á síðasta þingi var rætt um það meir en nokkuð annað, að mig minnir, í hv. sjútvn. þessarar deildar, hvernig unnt væri að ráða bót á þessu, hvernig unnt yrði að afla fiskveiðasjóði meiri tekna, þannig að hann yrði betur en áður fær um að sinna sínum verkefnum. Í lok síðasta þings komu fram tvær þáltill., sem voru samþ. og báðar fóru í þessa átt. Önnur var að efni til frá fjvn. um að skora á ríkisstj. að afla fiskveiðasjóði viðbótarfjár til nauðsynlegra stofnlána vegna endurnýjunar og eðlilegrar aukningar fiskibátaflotans með bátasmiði innanlands. Þetta var, að mér virtist, kjarni till. fjvn., að skora á hæstv. ríkisstj. að efla möguleika sjóðsins til styrktar bátasmiðum innanlands, svo að á þann hátt yrði unnt að sinna eðlilegri endurnýjun bátaflotans. — Frá hv. þm. N-Þ. var samþ. önnur þáltill. um endurskoðun laganna um fiskveiðasjóð, m.a. í því skyni, að starfsfé sjóðsins og starfssvið hans yrði aukið. M.ö.o., báðar þessar till. lögðu áherzlu á það, að starfsfé sjóðsins yrði aukið, önnur aðallega vegna bátasmíða innanlands, en hin — auk sérstakrar áherzlu á aukningu starfsfjárins — lagði áherzlu á, að starfssvið sjóðsins yrði aukið.

Nú langar mig til þess að gera lítils háttar samanburð á því, hvernig þessi endurskoðun laganna um fiskveiðasjóð hefur orðið við þeim tilmælum, sem í þessum þáltill. felast.

Um fyrri till er það að segja, að ég sé ekki í þessu frv. bætta neitt frá því, sem áður var; aðstöðu innlendra skipasmiðastöðva til þess að smíða báta innanlands. Það er samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir, að sjóðurinn láni til innlendra bátasmíða nákvæmlega sama hundraðshluta og gert var ráð fyrir í gömlu lögunum, eða um 75%. Sá eini munur á lánveitingunum nú og lánveitingunum áður samkvæmt gömlu lögunum er sá, að samkv. lögunum eins og þau eru eða voru, var gert ráð fyrir, að verulegur hluti af þessu lánsfé yrði vaxtalaus um 5 ára skeið og afborgunarlaus um 10 ára skeið. Þessi ákvæði þeirra laga, sem nú eru í gildi, eru afnumin með frv., sem hér liggur fyrir, og varla get ég sagt, að það sé til þess að greiða götu innlendra bátasmíða að nema úr gildi þau vaxtafríðindi og frestun afborgana, sem voru í gildi í núgildandi lögum.

Þá er hin till., sem var frá hv. þm. N-Þ. og m.a. fól í sér, að endurskoðun laganna skyldi miða að því að auka starfssvið sjóðsins. Þetta hefur nú verið gert á þann hátt, að mér virðist, að starfssvið sjóðsins sé frekar dregið saman, þannig að nokkuð af þeim verkefnum, sem hann sinnti áður, er nú hugsað yfirfært til Framkvæmdabankans. Ég er út af fyrir sig ekki að finna að þessu. Það má vel vera, að það sé fullt eins vel og kannske betur séð fyrir þessum málum á þennan hátt, en hitt er víst, að starfssvið sjóðsins er ekki þar með aukið, heldur miklu frekar dregið saman.

En það sem er aðalatriðið, það, sem var „alfa og omega“ í öllu tali um fiskveiðasjóð áður fyrr og var það líka í öllum umræðum hv. sjútvn. á síðasta þingi, var, á hvern hátt starfsfé sjóðsins yrði aukið. Það er nefnilega gert í frv. á þann hátt að hækka lánsheimild sjóðsins úr 4 og upp í 50 millj. kr., en að öðru leyti engar ráðstafanir gerðar, sem ég get séð í frv., til þess að afla sjóðnum þessara tekna. Ef þessi heimild til handa sjóðnum um að hækka ábyrgðarheimildina upp í 50 millj. á þess vegna að koma að nokkru gagni, þá verður að sjá til þess, að sjóðurinn fái það fé, sem þarna er um að ræða. Í þeim skýrslum, sem fylgja frv. í grg. um lánsfjárþörf hans, kemur greinilega fram, að honum mun sannarlega ekki af veita að fá þetta fé og það jafnvel þótt meira væri en þessar 50 millj., sem ríkisábyrgðin er látin taka til. Því hefur að vísu verið lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að hún hafi þegar greitt sjóðnum af tekjuafgangi ársins 1954 8 millj. kr., og er það vitaskuld nokkur úrbót, þó að ég geti ekki stillt mig um að segja það, að ég kann ekki við þann hátt, hvernig þetta er gert. Hæstv. ríkisstj. kemur til Alþ. og tilkynnir því, að hún hafi ákveðið að leggja í fiskveiðasjóð 8 millj. og í annan sjóð aðrar 8 millj., og það á þeim tíma, sem þing situr og auðvelt er að afla samþykktar þingsins fyrir þessum fjárútlátum. Þetta er í hæsta máta óviðkunnanleg aðferð. Þó að ég sé sízt á móti því, að fénu hafi verið ráðstafað á þennan hátt, þá kann ég ekki við aðferðina. En eigi að síður, þó að þessar 8 millj. komi, er mikið eftir, og það er engin ábending í frv. um það, hvernig þessa fjár skuli aflað. Þess vegna langar mig nú til að spyrja hv. frsm. sjútvn., hv. þm. Snæf. (SÁ), hvernig sé með lánsútvegun til sjóðsins, hvort við séum yfirleitt nokkru nær kjarna málsins með þessu frv. en við vorum í fyrra. Það er að vísu tæpt á því hér í grg. fyrir frv., að það sé möguleiki til þess að innbyrða stofnlánadeild sjávarútvegsins, og væri vissulega vel, ef það væri gert, en það eru engin ákvæði í frv. um, að þetta skuli gert. Mig langar þess vegna til þess að fá upplýsingar frá hv. frsm. um það, hvað hann viti um möguleika til þess að afla þessa fjár og hvaða líkur séu til, að það muni fást. Á því veitur yfirleitt, hvort þetta frv. hefur nokkra þýðingu eða alls enga.

Ég skal svo ekki fara lengra út í að ræða málið, en ég get ekki stillt mig um að benda á, að mér virðist, að það sé smáskekkja í grg. á bls. 5, og vildi ég bera það undir frsm. n., hvort ekki sé rétt. Skekkjan er að vísu ekki stór, hún er ekki nema 10 millj. kr., en það er þó peningur líka, þegar um svo fjárvana sjóð eins og fiskveiðasjóð er að ræða. Á bls. 5 eru þrennar áætlanir. Í fyrsta lagi er áætlun um það, hvernig útlánum fiskveiðasjóðs sé ætlað að aukast á árunum 1955 –59, og þar virðist mér vera gert ráð fyrir 38 millj. kr. láni á árinu 1955, eins og líka fram gengur af því, sem á undan er sagt. En neðar á bls., í síðustu áætlununum, er búið að færa þetta niður í 28 millj. í staðinn fyrir 38, sem hlýtur að rugla þann reikning, sem byggist á 38 millj. ofar á bls., og á þann hátt er fengið, að greiðsluhallinn á árinu 1955 verði 15.6 millj. Mér virðist, að hann eigi að vera 25.6, og samtala þess dálks aftast á blaðsíðunni verður þess vegna ekki 53.1 millj., heldur 63.1 millj.

Ég held, að þetta sé fyrst prentvilla, en svo prentvilla, sem gengur í gegnum samtöluna og gerir heildarútkomuna skakka. En það, sem verst er, er að þetta lagar ekki afkomu fiskveiðasjóðsins, heldur aflagar.