06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Frv. þetta var rætt í hv. fjhn. í morgun, og skrifuðum við tveir nm., hv. 9. landsk. þm. (KGuðj.) og ég, undir álitið með fyrirvara.

Hvað felst í þessu frv. hæstv. ríkisstj.? Í því feist það, að öllum greiðsluafgangi ríkissjóðs á s.l. ári er ráðstafað til ýmislegra þarfa. Hæstv. ríkisstj. gumar mjög af góðri fjármálastjórn. Hún segist fylgja heilbrigðri fjármálastefnu. Hvað felst í því að fylgja heilbrigðri fjármálastefnu? Í því felst fyrst og fremst það, að á ríkisrekstrinum sé hafður ríflegur greiðsluafgangur undir þeim kringumstæðum, sem nú eru óumdeilanlega í íslenzku efnahagslífi. Hér er góðæri. Hér er full atvinna. Hér er meira að segja þensla í efnahagskerfinu. Það er viðurkennt af öllum, sem nokkra þekkingu hafa á efnahagsmálum þjóðarinnar nú. Á því er enginn efi, að fyrirætlanir um fjárfestingu eru verulega umfram sparnað þjóðfélagsins. Af því leiðir þrýsting á verðlag og gjaldeyrisaðstöðu. Þrátt fyrir óvenjulegar gjaldeyristekjur söfnum við af þessum ástæðum engum gjaldeyrisvarasjóðum erlendis, og ríkissjóður safnar þrátt fyrir óvenjulegt góðæri engum varasjóðum til erfiðari ára, eða, sem er það sama, grynnir ekki heldur að neinu ráði á lausaskuldum. Ríkisstj. fylgir þeirri grundvallarstefnu í efnahagsmálum að vilja ekki leitast við að samræma fjárfestingu sparnaðinum með neins konar opinberri stjórn á fjárfestingunni. Allt skal vera frjálst eða sem frjálsast, en samtímis eru svo sérfræðingar ríkisstj. látnir prédika það fyrir alþjóð, að beita eigi svonefndum óbeinum aðferðum til þess að koma á jafnvægi í peningakerfinu, þ.e.a.s. beita eigi þeim aðferðum að hafa greiðsluafgang hjá ríkissjóði og hemil á útlánum hankanna. En það er rétt að undirstrika, að annaðhvort verður að gera, annarri hvorri grundvallarstefnunni verður að fylgja. Ef menn vilja þjóðarbúskap með svonefndu peningalegu jafnvægi, en tilhneiging er til röskunar á þessu peningalega jafnvægi af einhverjum ástæðum, þá verður ríkisvaldið annaðhvort að grípa inn í fjárhagskerfið með beinum aðgerðum, þ.e.a.s. með stjórn á fjárfestingu, ákvörðun vaxta og gengis, með stjórn á gjaldeyrisverzlun og innflutningi o. s. frv., eða þá að beita áhrifum sínum óbeint og þá fyrst og fremst með greiðsluafgangi og takmörkuðum útlánum bankanna.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar, í samræmi við grundvallarskoðanir mínar í þjóðmálum, að fara eigi fyrri leiðina, þótt ég vilji undirstrika, að ég tel höft aldrei geta verið tilgang í sjálfum sér, heldur alltaf neyðarráðstöfun, — neyðarráðstöfun, sem nauðsynleg sé til þess að leiðrétta misræmi, sem þegar sé komið fram eða yfirvofandi af öðrum ástæðum. Höft eru læknisaðgerð gegn sjúkdómi, og þau geta sem slík auðvitað verið nauðsynleg, en bezt er að vera laus við þau eins og öll lyf. Það er bezt að halda þjóðarlíkamanum heilbrigðum, þannig að á þeim þurfi ekki að halda. — Ég er þeirrar skoðunar, að til þess að það sé hægt, séu hinar svonefndu óbeinu ráðstafanir nauðsynlegar, þ.e.a.s. aðgerðir varðandi fjármál ríkissjóðs og bankanna, en þó ekki nægilegar einar, heldur verði opinber afskipti af fjárfestingu, vöxtum, gengi og gjaldeyrisviðskiptum, jafnvel innflutningi á sumum sviðum, að koma til. En ef hinar óbeinn ráðstafanir, ef hin almenna stefna ríkisvaldsins í fjármálum ríkissjóðs og bankanna er skynsamleg, þá þurfa þessi opinberu afskipti, sem ég nefndi áðan, aldrei að verða að lamandi höftum, heldur geta þau þá alveg eins orðið hvatning til heilbrigðra framkvæmda. Ríkisstj. vill sem minnst vita af opinberri stjórn á atvinnulífinu, þótt hún treysti sér auðvitað ekki til að segja alveg skilið við hana, en hún segist aðallega vilja treysta á hinar óbeinu ráðstafanir til þess að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En hvernig fer hún að því? Hvernig fer hún að því að framkvæma þessar óbeinn ráðstafanir til þess að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum?

Engum, sem hefur minnstu nasasjón af hagfræðilegum málefnum, getur blandazt hugur um, að eigi að treysta á hinar óbeinu aðferðir til þess að koma nú í veg fyrir verðbólgu hjá okkur, þá verður að hafa mjög verulegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Til þess mun íslenzka ríkisstj. og hafa skuldbundið sig í þeim alþjóðasamtökum, sem hún er aðili að, þ.e.a.s. í efnahagssamvinnu Vestur-Evrópulandanna og greiðslubandalagi Evrópu fyrst og fremst. Af því er og gumað, að þessari stefnu sé fylgt, a.m.k. þegar fjárlög eru rædd. Það er jafnvel sagt í skýrslum til útlanda, að þessari stefnu sé fylgt. Ég var nýlega að lesa eina slíka skýrslu, sem tvímælalaust er runnin undan rifjum íslenzka viðskmrn., þar sem því er blákalt haldið fram, að á undanförnum árum hafi það verið stefna ríkisstj., sem þá auðvitað hefur væntanlega verið framfylgt, að hafa mjög ríflegan greiðsluafgang hjá ríkissjóði. Þessu er m.ö.o. haldið að útlendingum. En hvað er gert í raun og veru? Það kemur fram í þessu frv., þar sem bókstaflega öllum greiðsluafgangi ríkissjóðsins frá fyrra ári er ráðstafað. Af þessari ráðstöfun greiðsluafgangsins verður í raun og veru aðeins einn liður talinn fela í sér raunverulegan sparnað, þannig að hægt er að tala um greiðsluafgang eftir sem áður þrátt fyrir þá ráðstöfun, en það er 9. liðurinn, þar sem lagðar eru til hliðar upp í framlög ríkisins til atvinnuleysistrygginga 6 millj. kr. (HV: Þar hefur verkfallið komið vitinu fyrir okkur.) Og þar kom verkfallið vitinu fyrir hæstv. ríkisstj.; það er algerlega rétt athugasemd. Er það nú í raun og veru furða, þó að staðreyndin sé sú, svo raunaleg sem hún er, að Ísland njóti lítils lánstrausts erlendis og að íslenzk fjármálastjórn njóti lítillar virðingar erlendis, þegar orðin eru eins og þau eru, en athafnirnar á þann veg sem raun ber vitni? Með tilliti til þessa er í raun og veru engin furða, að þeir erlendir fjármálamenn, sem fylgjast með íslenzkum málum, eigi það til að glotta, þegar minnzt er á Ísland og stjórn efnahagsmálanna þar. Það er óhætt að fullyrða, að allar ríkisstj., vestan járntjaldsins a.m.k., en um hitt er erfiðara að fullyrða, því að skýrslur þaðan liggja ekki eins ljóst fyrir, — að allar ríkisstj. í nágrannalöndum telja rétt, eins og ástand efnahagsmála í heiminum er nú yfirleitt, að hafa greiðsluafgang í ríkisbúskapnum. Athafnir íslenzku ríkisstj. að þessu leyti eru því algert einsdæmi, þegar til nálægra landa er litið. Að vísu er það ekkert nýtt, að hæstv. ríkisstj. hegði sér þannig, að til einsdæma verði að teljast. Þess er skemmst að minnast, að hæstv. ríkisstj. setti fyrir nokkru heimsmet í dýrtíðaraukningu, — heimsmet, sem auglýst var um allar jarðir í skýrslum alþjóðastofnana í mjög greinilegum línuritum, þar sem ekki var um að villast, hver heimsmetið átti. Það var íslenzka ríkisstj.

Þetta vildi ég segja um kjarna málsins, þ.e.a.s. um þá grundvallarstefnu, sem frv. birtir að því er varðar fjármálastjórn ríkisins og stefnuna í efnahagsmálum stj. yfirleitt. En um frv. að öðru leyti er ýmislegt fleira að segja.

Í 1. gr. er ríkisstj. heimilað að verja 35 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs svo sem hér segir: í fyrsta lagi til ræktunarsjóðs 8 millj. og til fiskveiðasjóðs öðrum 8 millj. Það er m.ö.o. lagt til, að þessi hv. d. samþykki að heimila ríkisstj. að inna af hendi greiðslur, sem hún er búin að inna af hendi fyrir næstum hálfu ári, því að frá því hefur verið skýrt hér áður á hinu háa Alþ., að ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði hafi verið lofað á þessu hausti þessum upphæðum. Þar var ekki beðið með að standa við loforðin, heldur voru þessar greiðslur inntar af hendi í algeru heimildarleysi. En 6 mánuðum síðar, hálfu ári síðar, er síðan komið til hv. Alþ. og það beðið um að heimila greiðsluna, sem búið er að inna af hendi. Ef Alþ. er með þessum aðgerðum ekki sýnd lítilsvirðing, þá veit ég ekki, hvað það orð þýðir. Hæstv. ríkisstj. var auðvitað í lófa lagið, ef hún bar nokkurn snefil af virðingu fyrir löggjafarsamkomunni, að leggja fram frumvörp um þessar greiðslur, ef hún taldi þær nauðsynlegar og æskilegar, sem ég skal ekki heldur draga í efa að hafi verið. Á báðum stöðunum hefur vafalaust verið full þörf fyrir fjármagnið, en þá bar hæstv. ríkisstj., vildi hún sýna Alþ. sjálfsagðan sóma, að leggja fram till., frv. eða ályktun um heimild til þessara greiðslna, áður en þær voru inntar af hendi. Ég held, að greiðslurnar hafi verið inntar af hendi skömmu eftir að þing kom saman, þannig að það var enginn vandi að hafa þessa hluti formlega í lagi, en það kaus ríkisstj. ekki að gera, heldur kemur hún nú ettir dúk og disk og biður um heimild fyrir því, sem hún er þegar búin að gera.

Þá er hér enn fremur um að ræða heimild til þess að greiða framlag ríkissjóðs samkvæmt lögum, sem er ekki búið að samþykkja, en verið er á þessari stundu að ræða í hv. Ed.; þar er verið að ræða um húsnæðismálafrv. ríkisstj. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. skuli skylt að leggja fram 3 millj. kr. á ári næstu 5 ár til að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Áður en Ed. Alþingis er búin að segja skoðun sína um þetta mál, leggur ríkisstj. fram frv., þar sem á að heimila henni að greiða 3 millj. Sem sagt, í Ed. leggur ríkisstj. til, að henni skuli skylt að borga 3 millj. kr. á ári í 3 ár, og áður en búið er að samþ. það, þá leggur hún til í hinni d., að henni skuli heimilað að borga 3 millj. kr. á ári. Ef þetta er ekki skringilegur skrípaleikur, þá veit ég ekki heldur, hvað þau orð tákna.

Ég skal svo að síðustu láta þess getið, að ég dreg ekki í efa, að fjárþörf sé fyrir hendi á þeim stöðum, sem eiga að veita þessu fé viðtöku, sem hér er verið að ráðstafa, og í samræmi við það hef ég ásamt hv. 9. landsk. þm. (KGuðj) ekki tekið afstöðu gegn frv. við meðferð þess í hv. fjhn. En ég hef ekki viljað láta hjá líða að benda á þá formslegu galla, sem eru á meðferð málsins, og ég hef ekki heldur viljað láta hjá líða að benda á það, að í þessum ráðstöfunum er fólgið hróplegt ósamræmi við margyfirlýsta og ítrekaða stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum þjóðarinnar yfirleitt. Ég tel það vera vægast sagt stjórninni til lítils sóma að hafa eina stefnu í orði, en láta svo allar aðgerðir sínar vera í algeru ósamræmi við þessa stefnu.