06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. landsk. (GÞG) gagnrýndi talsvert þetta frv. og sagði, að það væri í ósamræmi við fjármálastefnu ríkisstj. að leggja til þá ráðstöfun á greiðsluafgangi, sem í frv. fælist.

Ég gat þess í framsöguræðu minni, að frá mínu sjónarmiði hefði verið æskilegast, að hægt hefði verið að leggja þennan greiðsluafgang til hliðar hreinlega til jöfnunar í þjóðarbúskapnum og þá með það fyrir augum, að síðar hefði verið hægt að nota það fé, þegar ástæða hefði verið til þess að auka verklegar framkvæmdir. Ég benti þá um leið á hitt, að þörfin fyrir fjárútlát í því skyni, sem frv. gerir ráð fyrir, væri svo mikil, að ríkisstj. hefði í samráði við stuðningsflokka sína ekki séð sér annað fært en að leggja til, að þessi fjárframlög ættu sér stað.

Hv. 1. landsk. vill gera mikið úr þeim óhagstæðu áhrifum, sem þessi ráðstöfun muni hafa á peningamálin. Það muni leysast hér úr læðingi fjármagn, sem hefði þurft að vera bundið. Ég vil í því sambandi benda á, að af þessum 35 millj., sem hér er gert ráð fyrir að ráðstafa, er um að ræða 16 millj., sem ráðstafað var á s.l. hausti, og við getum því sagt í þessu sambandi, að greiðsluafgangurinn hafi í raun og veru orðið þessum 16 millj. kr. lægri; hann hafi orðið 19 millj. í stað 35 millj. Af þessum 19 millj., sem er þá hinn raunverulegi greiðsluafgangur ársins þannig skoðað, verða svo 6 millj. lagðar til hliðar í atvinnuleysistryggingasjóð. Þannig nemur það fjármagn, sem leysist úr læðingi við þetta frv., 13 millj. kr. og verður þó ekki ráðstafað öllu strax, heldur sumu smátt og smátt. Hér er því ekki um nein stórfelld áhrif á þjóðarbúskapinn að ræða, og hefði hv. 1. landsk. því ekki þurft að vera alveg jafnhátíðlegur og hann var áðan.

Ég kem þá að því, sem þessi hv. þm. sagði um heilbrigða fjármálastefnu og framkvæmdir ríkisstj. í því sambandi. Ríkisstj. hefur undanfarið lýst yfir því, að hún vilji búa við greiðsluhallalausan ríkisbúskap, og það er einn aðalþátturinn í fjármálastefnu hennar. Þessu hefur verið framfylgt bókstaflega. Ef við litum á tímabilið síðan 1950, er þessi stefna var upp tekin, mun koma í ljós, að öll fjárfestingarútgjöld ríkissjóðs og allar afborganir fastra lána hafa verið greiddar af tekjum á rekstrarreikningi og að lausaskuldir hafa þar að auki lækkað um milljónatugi. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir, að litið á tímabilið í heild sinni hefur ríkisbúskapurinn verkað stórlega í jafnvægisátt. En hver hefur svo verið afstaða þess flokks, sem hv. 1. landsk. þm. talar fyrir, til þessarar fjármálastefnu? Nú kemur þessi hv. þm. og segir mjög fjálglega: Ríkisstj. þarf að leggja fyrir fé og greiða stórkostlega niður ríkisskuldirnar. — En hver hefur verið afstaða hans flokks? Afstaðan hefur verið sú að ausa mig stóryrðum fyrir það, að ég láti innheimta af landsfólkinu stórfé í sköttum og tollum og leggist á það eins og ormur á gull. Ég hugsaði um það eitt að safna fé í ríkissjóðinn, tæki of mikið. En nú segir þessi hv. þm. allt í einu: Það hefði þurft að safna hér stórkostlegum sjóðum undanfarið. — Það þýðir, að það hefði þurft að taka af mönnum miklu meira fé en gert hefur verið undanfarið til jafnvægis í ríkisbúskapnum. Í þessu er auðvitað ekkert samræmi hjá hv. þm. né þeim flokki, sem hann styður, elns og allir sjá.

Þá segir hv. þm., að það muni vera leitun á nokkurri stjórn vestan járntjalds, sem hefði rekið jafnábyrgðarlausa fjármálapólitík og íslenzka ríkisstjórnin að þessu leyti. Ég held, að hv. þm. þurfi að endurskoða mjög þessa skoðun. Ég held, að það muni fljótlega koma í ljós, ef hann kíkir í þessa hluti, að það mun vera leit á þeirri ríkisstj. hérna megin járntjaldsins, sem hefur greitt öll fjárfestingarútgjöld ríkisins af rekstrartekjum og þar að auki lækkað lausaskuldir ríkisins. Ég held, að þetta muni hið rétta í þessu máli, því að þegar talað er um afgang á fjárl., eins og t.d. á ensku fjárl., þá er yfirleitt ekki átt við greiðsluafgang í þeim skilningi, sem við notum það orð, því að við tölum aldrei um greiðsluafgang, fyrr en við erum búnir að greiða öll fjárfestingarútgjöld af tekjunum og afborganir fastra lána. Þeir eiga þá fremur við það, sem við köllum tekjuafgang á rekstrarreikningi, og þeir hafa stórkostlegt „kapítal“ („budget“) þar fyrir utan, sem þeir oft og tíðum afla fjár til með lántökum. (GÞG: Þeir hafa stóran greiðsluafgang.) Stóran greiðsluafgang? Ég var síðast í gærkvöld að lesa í „Eeonomist“ um þessi efni og komst að þeirri niðurstöðu, að eins og nú er háttað, mundum við kalla, að verulegur greiðsluhalli væri. Hér ber okkur afar mikið á milli, mér og hv. 1. þm. landsk., og væri því þörf á að athuga þessi mál betur.

Ég held, að endurskoða þurfi fullyrðingu hv. þm. Ég hef oft heyrt talað um, að ríkisstj. hafi mikinn afgang á fjárlögum, en þá er afar oft talað um afgang á rekstrarreikningi. Ég held, að það villi mjög í sambandi við þetta mál. En hvað sem því líður, sem gerist annars staðar í þessum efnum, þá er það alveg víst, að ríkisstj. Íslands hefur fullkomlega staðið við sínar yfirlýsingar í þessum efnum, hefur haft verulegan greiðsluafgang, þegar litið er á tímabilið í heild sinni, og það þótt allar ráðstafanir á greiðsluafgangi séu taldar til útgjalda. Fyrir þetta höfum við hlotið stórfellt ámæll einmitt frá flokki hv. 1. landsk. þm. Ég skil ekki, hvaða vitrun hv. þm. hefur nú allt í einu fengið eða hvað því veldur, að hann nú söðlar svo gersamlega um og fer að krefjast þess af ríkisstj., að hún hafi stórkostlegan afgang, sem hún leggi fyrir og láti óráðstafað. Ég álít, að það væri heilbrigt að hafa afgang, eins og nú standa sakir, sem hægt væri að leggja fyrir, og hef lýst yfir þeirri skoðun minni. Og það er gott að vita, að tæki ríkisstj. nú rögg á sig og vildi stýra sterkara í þessum efnum en hún hefur gert, þá á hún vísan stuðning frá þessum hv. þm., sem sér nú svo glöggt nauðsyn þess að innheimta meira af landsmönnum og hafa meiri afgang en enn þá hefur verið talið mögulegt.

Þá vék hv. 1. landsk. þm. að því, að mjög væri óviðkunnanlegt að vera nú að leita staðfestingar á greiðslum, sem hefðu verið inntar af hendi þegar fyrir jól. Ég gat um það hér í framsöguræðu minni um þetta mál og einnig þegar ég gerði skýrslu um afkomu ríkissjóðs 1954, að þessar greiðslur væru inntar af höndum i samráði við þingmeirihlutann, sem stjórnina styður, og að stjórnin tryggði sér örugglega, áður en til greina kæmi, að þessar greiðslur yrðu inntar af höndum, að þingmeirihluti væri fyrir þeirri ákvörðun.