06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki hér að fara að hefja neinar umr. um dýrtíðarmál eða fjármálastefnu eða stefnur, enda þótt ræða hv. 1. landsk. þm. (GÞG) gæfi tilefni til þess, en ég ætla að segja það, að ef meðferð fjármála hjá hæstv. ríkisstj. væri að öllu leyti jafngóð og fram kemur í þessu frv., þá gætum við allir hér á Alþ. verið ánægðir með hennar fjármálastjórn, — því hvað er það, sem hér er verið að gera? Það er verið að ákveða það að borga 6 millj. kr., sem ríkið skuldar. Ég tel, að það sé skuld, sem er til skólabygginga, til hafnarbóta og til brúasjóðs að vissu leyti, og það er líka skuld, sem hér er um að ræða í sparifjáruppbætur. Það er að vísu rétt, sem hv. 9. landsk. þm. (KGuðj) tók fram, að það var til þess ætlazt, að þessar sparifjáruppbætur væru borgaðar með stóreignaskattinum. En það er nú þannig háttað með þennan stóreignaskatt, að það hefur ekki verið neitt mér vitanlega slakað til á innheimtu á honum, en þær upphæðir, sem frá honum hafa komið, eru ekki í handbæru fé. Sumt af þeim er ekki innheimt, sumt af þeim er í fasteignum, og þessi eign er ekki þannig nema að litlu leyti, að það sé í handbæru fé, og þess vegna er farið fram á það, að þessi upphæð, 11/2 millj. kr., sé tekin af þarna handbæru fé til ráðstöfunar í þessu skyni.

Í öðru lagi er svo ákveðið með þessu frv. að láta 3 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, og ásakanir hv. 1. landsk. þm. út af því finnast mér vera alveg út í bláinn. Það er búið að samþ. það frv. með yfirgnæfandi meiri hl. hér í þessari hv. d., og þó að það sé ekki komið í gegnum hv. Ed., þá vita það allir þm., að það verður ekki slitið þessu þingi án þess að það verði að l. Hér er þess vegna verið að ráðstafa peningum í fyrirtæki, sem Alþ. er að samþ. og a.m.k. öllum stjórnarandstæðingum, eftir því sem mér hefur virzt, þykir miklu minna en ætti að vera.

Þá eru það stærstu upphæðirnar, sem eru til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, hv. 9. landsk. þm., að þessir sjóðir eru það nauðsynlegir sjóðir, að þeir ættu að hafa forgangsrétt fyrir mjög mörgu öðru, til þess að þeim væri gert fært að fullnægja sinni starfsemi, og það, að látin var þessi upphæð í ræktunarsjóð og fiskveiðasjóð, var fyrir kröfur frá þm. stjórnarflokkanna og byggt á því, að það væri nauðsynlegt, að þetta væri greitt, áður en tekin væri ákvörðun um alla úthlutun á tekjuafganginum, sem ekki var heldur hægt á meðan það var ekki vitað, hver tekjuafgangur yrði.

Þriðja upphæðin, sem þarna er um að ræða, er til veðdeildar Búnaðarbankans. Það er nauðsynjamál, sem hefur verið stórkostlega vanrækt í fjölda ára, að sú stofnun fengi starfsfé til þess að geta sinnt því nauðsynlega verkefni áð gera ungum mönnum. mögulegt að stofna til búskapar í sveitum landsins, og þótt það séu látnar í þetta þessar 4 millj. kr., er það alls ófullnægjandi upphæð til þess að fullnægja því mjög áriðandi verkefni, sem þar er um að ræða.

Þá eru að síðustu þær 6 millj. kr., sem hér eru í 9. lið þessa frv., og má segja, að það sé kannske vafasamasta upphæðin til þess að taka inn í þessi l. Hún er ekki vafasöm að því leyti til, að það er búið að ákveða, að þessar 6 millj. kr. skuli greiddar, en hún er vafasöm að því leyti til, að það hefði ekki verið nauðsynlegt að taka þetta upp í þessi l., því að það mátti alveg eins færa það á næstu fjárlög. En því ættu þeir að mótmæla, að þetta væri tekið upp í þessi l. og geymt, þangað til þarf á því að halda, sem hafa gert harðastar kröfur um það, að þessi leið væri farin og þessir peningar yrðu lagðir fram. Ég held þess vegna, að það sé ástæða til fyrir þá, sem eru óánægðir við hæstv. ríkisstj., að beita spjótum sínum að henni á allt öðrum vettvangi en þeim, sem þetta frv. gefur tilefni til.

Meira skal ég svo ekki um þetta segja fyrir hönd meiri hl. fjhn., ef svo mætti segja. Hún hefur nú að vísu ekki klofnað, en mér þykir mjög undarleg sú ásökun, sem fram kemur hér hjá hv. tveim meðnm. mínum í nefndinni.