31.03.1955
Neðri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

183. mál, húsnæðismál

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég mun aðeins, herra forseti, segja hér örfá orð, og þá sérstaklega til þess að þakka fyrir þessa 1. umr.

Að vísu var hv. 2. þm. Reykv. (EOl) nokkuð stórorður um sum atriði í frv. og brá ríkisstj. um mútustarfsemi í stórum stíl, og ég held svik, ég man það nú ekki, og margt fleira, en þetta eru hlutir, sem við eigum að venjast frá honum, við þingbræður hans, við kippum okkur ekkert upp við þetta og látum það liggja í láginni. En þrátt fyrir það viðurkenndi hann frv. Hann viðurkenndi ýmislegt í því, að það væri til bóta, og með því hefur hv. 2. þm. Reykv. f.h. síns flokks viðurkennt það, að hér væri um mál að ræða, sem sjálfsagt væri að taka til yfirvegunar og athugunar hér á Alþ., og ég gat tæpast vænt mér meiri stuðnings frá honum í þessu máli en það, og ég leyfi mér þess vegna að þakka honum fyrir það. Hins vegar vil ég leyfa mér um leið að mótmæla því, sem hann sagði um einhverja svívirðilega úthlutun á smáíbúðalánum, sem átt hefði sér stað undir forustu eða í umsjá félmrn., og ég verð að segja það, að þegar svona áburður er borinn á sérstök ráðuneyti og þá menn, sem hafa starfað þar að þessum málum, þá verður það að vera eitthvað meira en aðeins að segja, að hér hafi verið um mútustarfsemi og svívirðilega úthlutun að ræða. Ég hef hvergi séð það um þau 1500 eða 1600 lán, sem veitt hafa verið eftir l. um smáíbúðir, að það hafi nokkurn tíma komið fram gagnrýni með nöfnum um það, að óverðugum mönnum hafi verið veitt lán, en þeir, sem frekar hefðu átt að fá þau, hefðu ekki fengið þau. Það má ekki minna vera, þegar svona er borið á heilar stofnanir og einstaka menn, sem starfa fyrir þær, en að slíkt sé rökstutt. — Þetta tel ég mér skylt að taka fram í sambandi við þetta, jafnvel þó að ég að vissu leyti þakki hv. þm. fyrir þann stuðning, sem hann veitir frv., og að hann og hans flokkur vill athuga það málefnalega hér í umr. á Alþ.

Hv. 5. landsk. (EmJ) talaði með velvilja um frv. á ýmsan hátt, en var þó með gagnrýni á víssum atriðum, eins og mér þykir mjög eðlilegt. Hann talaði einkum um, hv. þm., að það væri með mjög óljósum orðum talað um aðstöðu verkamannabústaðasjóðsins til þess fjármagns, sem á þennan hátt á að fá til útlána. Það er nú alveg sama orðalagið um hann og aðstöðu hans til að fá fé úr sjóðnum eins og um byggingarsjóð sveitanna. Hitt vil ég upplýsa nú í sambandi við það, sem hv. þm. sagði, að það eiga eftir að koma fram frv., bæði varðandi byggingarsjóð sveitanna, varðandi ræktunarsjóðinn og varðandi verkamannabústaði í sambandi við þetta frv., og það munu því gefast nóg tækifæri til þess að athuga um aðstöðu einmitt þessara sjóða, sem hér er um að ræða. Ég taldi rétt að segja þetta hérna, af því að þessi frv. koma ekki fram fyrr en ofur lítið síðar, en eru þó í raun og veru í sambandi við þetta meginfrv., sem hér hefur verið flutt. Og ég vil taka það fram, að okkur er að sjálfsögðu ánægja að því að eiga samvinnu við hv. 5. landsk. og hans flokk um það, hvort hægt væri að gera einhverjar breytingar í sambandi við þau ákvæði, sem nú eru í lögunum um verkamannabústaðasjóðina. Ég er honum mjög sammála um það, að það væri mjög æskilegt, ef hægt væri, og ég get þar með einnig tekið hv. 2. þm. Reykv., sem talaði langt mál um það í dag, hve nauðsynlegt væri að geta veitt mjög vaxtalág lán til íbúða, talaði um 2% o.s.frv., og það eru þeir vextir, sem nú eru á lánum til verkamannabústaða. Þetta væri vitanlega æskilegt, að hægt væri að veita öllum venjulegum borgurum og þeim, sem lakar eru staddir í þjóðfélaginu, möguleika til þess að fá lán til þess að byggja íbúðir yfir sig með slíkum kjörum. En ríkisstj. hefur ekki komið auga á það, að þetta væri unnt í því fjármálakerfi, sem nú er um að ræða, og hefur því ekki treyst sér til að bera fram till. í þeim anda. — Þetta vildi ég aðeins leyfa mér að taka fram nú, án þess að ég ætli að fara að ræða málið meira.

Ég leyfi mér að endurtaka þakklæti mitt til þeirra, sem hér hafa talað, því að það hefur yfirleitt verið á þá ]und, að hér væri um frv. að ræða, sem sjálfsagt væri að athuga nákvæmlega og væri þess vert, að það væri tekið til þinglegrar afgreiðslu, og ég gat ekki búizt við öðru svari frá hv. stjórnarandstæðingum á þessu stigi málsins. En ég legg nokkra áherzlu á það, að þetta mál komist nú til nefndar, vegna þess að það má búast við, að það taki nokkurn tíma að koma því í gegnum þingið, en það er ákveðinn vilji ríkisstj., að þetta mál verði afgreitt áður en þessu þingi slítur.