25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

183. mál, húsnæðismál

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vildi aðeins víkja hér að tveim brtt., sem fluttar eru á þskj. 632 af meiri hl. fjhn. Ég er nú ekki viss um, að það sé neinn ágreiningur innan nefndarinnar um þessar till. Sumt af því var orðað í n., og kann að vera, að aðrir nefndarmenn séu því samþykkir. En aðalatriðið er, að það er bætt inn tveim atriðum í 2. gr.

Nokkru nánar skal tiltekið um verkefni húsnæðismálastjórnarinnar samkv. a-lið brtt.: Áð láta fara fram rannsókn og samanburð á byggingarkostnaði húsa víðs vegar á landinu í því skyni að finna, hverjir byggja hús með minnstum kostnaði og hvað veldur þeim mun, sem er á byggingarkostnaðinum. Í sjálfu sér er ekki tæmandi upptalning í gr., hvert verkefni húsnæðismálastjórnar á að vera, en það er þó veigamikið atriði, sem hér er sérstaklega bent á, og það hefur oft komið fram bæði hér í þingsölum og annars staðar, að það er ótrúlega mikill mismunur á byggingarkostnaðinum víðs vegar á landinu, svo að það er full þörf á því, að af einhverjum aðila og þá í þessu tilfelli húsnæðismálastjórninni sé hafizt handa um rannsóknir í þessu sambandi, ef það mætti leiða til þess, að meiri samræming gæti orðið í þessum málum, sem stuðlaði að því, að byggingarkostnaðurinn færðist niður þar, sem hann hefur verið mestur.

Till. undir b-lið er, að ég hygg, að vísu dálítið í öðru formi, að efni til orðuð í till. minni hl. n., þ.e.a.s., að það komi sérstaklega sem verkefni húsnæðismálastjórnar að hafa samráð við Iðnaðarmálastofnun Íslands ásamt öðrum aðilum, sem gert er ráð fyrir að húsnæðismálastjórn hafi samvinnu við. Iðnaðarmálastofnun Íslands er að vísu ung stofnun og nokkuð laust í böndunum enn þá um starfssvið hennar og starfsgrundvöll, en það standa vonir til, að þessi stofnun eflist í framtiðinni, og einmitt á hún að geta sinnt mjög veigamiklu verkefni á sviði tæknirannsókna í byggingariðnaðinum og þar á meðal á samhæfingu byggingarefna. Hygg ég, að Iðnaðarmálastofnunin muni hafa aðstöðu til þess að hafa mjög veigamikið samstarf við aðrar svipaðar stofnanir í öðrum löndum, sem samvinna er með á þessu sviði, og ef slík stofnun á þess kost að hafa samvinnu við aðrar svipaðar stofnanir nágrannalanda okkar og ýmissa annarra, Ameríkuríkja einnig, þá þykir mér með ólíkindum, ef það getur ekki leitt til einhvers góðs til þess að færa niður byggingarkostnaðinn í einni eða annarri mynd. Undir öllum kringumstæðum sýnist eðlilegt, að þessi stofnun sé sérstaklega tilgreind sem aðili, sem húsnæðismálastjórninni beri sérstaklega að snúa sér til til þess að fá upplýsingar varðandi þessi mál.