24.02.1955
Efri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

92. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við, þegar þetta frv. var til 2. umr., en vildi bera fram fyrirspurn út af 1. gr. frv. Þar eru settar ákveðnar reglur um það, að það barn eða þau börn, sem hafa staðið að staðaldri fyrir búi foreldra sinna á jörðinni eða unnið búinu að staðaldri og eru líklegust til að standa þar áframhaldandi búskap, skuli taka við jörðinni með þeim hætti, sem í gr. segir. En svo segir: „Náist eigi samkomulag, ræður meiri hluti á skiptafundi, ella sker skiptaráðandi úr.“ Nú skilst mér, að vandinn sé enginn og hafi ekki verið neinn eftir núgildandi lögum, ef samkomulag hefur náðst, og vandinn mun í raun og veru heldur aldrei hafa verið svo mikill, ef meiri hluti hefði viljað afhenda þessum tiltekna aðila jörðina, þó að ég játi, að hann á ríkari rétt eftir frv. en hann átti áður.

En nú skulum við segja t.d., að það séu 7 systkini, eitt þeirra hafi verið heima allan tímann og sé alveg ótvírætt eftir laganna ákvæðum, að það eigi rétt á því að taka við jörðinni, tvö önnur séu með þessu systkini, en þau séu þrjú þá, sem það styðji, en fjögur á móti. Þá skilst mér, að í því tilfelli séu fyrirmæli frv. gagnslaus, þá sé ekki heimilt að láta þetta barn fá jörðina. Það sé aðeins, ef enginn meiri hluti fæst, sem skiptaráðanda sé heimilt að skerast í málið og fara eftir ákvæðum l. um þær reglur, sem ætlazt er til að hlýtt sé. Ég spyr nú: Ef mönnum þykir það á annað borð sanngjörn regla, sem hér er sett upp, að sá, sem hafi veitt búinu forstöðu, eigi rétt á að taka við jörðinni, er þá ástæða til þess að láta það vera komið undir samþykki meiri hluta systkinanna, frekar en ef foreldri hefur gert ráðstöfun? Ef skiptaráðandi telur, að efnisreglum laganna sé fullnægt, er þá ekki langeðlilegast, að hann hafi heimild og eftir atvíkum skyldu til að láta þetta barn fá jörðina, þó að meiri hluti hinna barnanna sé þessu andvígur? Koma ákvæði frv. að fullu gagni, nema þessu sé breytt? Mér er það að vísu ljóst, að það verður sagt, að óeðlilegt sé að taka ráðstöfunarréttinn þarna af meiri hluta barnanna. Það er hvort eð er gert, ef foreldri hefur mælt svo fyrir um, og ef þessi efnisákvæði eru fyrir hendi og ætlunin er sú að greiða fyrir því, að jarðirnar haldist í sömu ættinni, þá finnst mér þarna vera nokkuð mikil veila á.

Ég vildi nú spyrjast fyrir um það, hvort n. hefði hugleitt þetta atriði sérstaklega. Ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi málsins til þess að bera fram um þetta brtt., en hefði talið nauðsynlegt, að n. gerði hv. d. nánari grein fyrir þessu, og bið afsökunar á því, ef það hefur verið gert á þeim fundi, þar sem ég var ekki viðstaddur. Hafi það ekki verið gert, þá vildi ég fá nánari skýringar hv. n. En hafi hún hugleitt þetta atriði, þá finnst mér það þess vert, að hún taki sér um það umhugsunartíma.