10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft mál þetta til athugunar. Þegar n. tók málið fyrir og afgreiddi það, var einn nm. fjarverandi, form. nefndarinnar, hv. þm. Str. Hinir fjórir, sem mættu á fundinum, urðu ásáttir um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Í dag hefur svo verið lagt fram hér í d. nál. frá minni hl. nefndarinnar, hv. þm. Str., þar sem hann lýsir því yfir, að hann sé ekki samþykkur frv. eins og það hefur komið frá Nd., og áskilur sér rétt til þess að bera fram brtt.

Á síðasta þingi urðu allmiklar umræður nm brunatryggingar í Reykjavík og brunatryggingar utan Reykjavíkur. Þeim umræðum lyktaði með því, að lögunum um brunatryggingar í Reykjavík var breytt nokkuð og sett voru ný, sérstök lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Í þessum nýju lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur var sú meginbreyting gerð á um brunatryggingar, að bæjar- og sveitarstjórnum var heimilað frá 15. okt. 1955 að semja við eitt vátryggingarfélag eða fleiri um brunatryggingar á þeim húseignum í umdæmi sínu, sem tryggingarskyldar eru,í stað þess að allar brunatryggingar utan Reykjavíkur höfðu áður verið lögbundnar hjá Brunabótafélagi Íslands. Í þessum nýju lögum var bæjar- og sveitarstjórnum jafnframt lögð sú skylda á herðar að ábyrgjast, að vátryggingum í umdæmum þeirra væri haldið við og ný hús metin og vátryggð þegar eftir að byggingu þeirra væri lokið eða þau tekin til notkunar.

Um leið og þessi lög voru sett, var jafnframt svo ákveðið, að Alþ. skyldi kjósa hlutfallskosningu fimm manna nefnd til þess að endurskoða lögin um Brunabótafélag Íslands og önnur lagafyrirmæli um brunamál utan Reykjavíkur og gera tillögur um skipan þeirra til Alþ. það snemma, að hægt væri að taka það fyrir á næsta reglulegu Alþingi. Áður en þingi lauk, var svo þessi mþn. kosin, og í henni átti sæti Jónas Rafnar alþm., Jón Sigurðsson alþm., Vilhjálmur Jónsson lögfræðingur, Guðmundur Guðlaugsson forstjóri og ég. Nefndin starfaði að málinu á s.l. sumri og fram á haust, og hún lauk störfum og skilaði niðurstöðum sínum til félmrn. 9. nóv. s.l.

Þegar n. hóf störf sín, var fyrsta vandamálið, sem við henni blasti, það, hvort taka ætti lögin, sem samþ. voru á síðasta þingi, um brunatryggingar utan Reykjavíkur, og lögin um Brunabótafélag Íslands og steypa þeim saman í ein heildarlög um brunatryggingar utan Reykjavíkur eða hvort það ætti að endurskoða bæði lögin, hvor í sínu lagi, og láta þau bæði haldast með þeim breytingum, sem nauðsynlegt kynni að vera talið að á þeim yrðu gerðar.

Nefndin var á einu máli um, eftir nokkrar umræður og athuganir, að heppilegast væri að láta bæði lögin gilda áfram, en steypa þeim ekki saman í einn lagabálk. Meiri hl. nefndarinnar, Jón Sigurðsson, Jónas Rafnar og ég, taldi ekki nauðsynlegt og ekki rétt að gera neinar breytingar á lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur eins og þau voru afgreidd á seinasta þingi. Minni hl. vildi hins vegar gera breytingar á þessum lögum. Meiri hl. vildi hins vegar gera nokkrar breytingar á lögunum um Brunabótafélag Íslands. Minni hl. vildi það einnig, en nefndarhlutarnir gátu ekki orðið á einu máli um, hvernig þær breytingar ættu að vera, og varð því niðurstaðan sú, að meiri hl. n. sendi félmrn. brtt. sínar við lögin um Brunabótafélag Íslands, en lagði jafnframt til, að lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur væru látin haldast óbreytt. Minni hl. sendi hins vegar sínar brtt. við bæði lögin.

Félmrn. sá sér ekki fært að bera neitt af þessum brtt. fram, og því var það skömmu fyrir jólin, að fimm þm. í Nd. báru fram þær brtt. svo að segja óbreyttar, sem meiri hl. mþn. hafði sent félmrn. Málið hefur fengið afgreiðslu í Nd., og hafa engar breytingar verið gerðar við frv. þar, og liggur það því hér fyrir í þessari hv. d. að segja óbreytt eins og mþn. gekk frá því.

Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á lögunum um Brunabótafélag Íslands, eru ekki margar. En þær eru, a.m.k. ein eða tvær þeirra, þýðingarmiklar, og ein þeirra er óhjákvæmileg breyting til þess að samræma lögin um Brunabótafélag Íslands lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur.

Fyrsta breytingin, sem ég vil minnast á og frv. gerir ráð fyrir að gerð verði á lögunum um Brunabótafélag Íslands, er í því fólgin, að breyting er gerð á fyrirkomulagi á stjórn fyrirtækisins. Í gildandi lögum er Brunabótafélagi Íslands stjórnað af forstjóra undir yfirumsjón og stjórn viðkomandi ráðherra, þ.e. félmrh. Frumvarpið leggur til, að á þessu verði gerð sú breyting, að félaginu verði skipt í deildir og sé hvert bæjar- og hreppsfélag sérstök deild innan félagsins. Að afstöðnum hverjum reglulegum bæjar- og sýslunefndarkosningum ber sýslunefndum og sveitarstjórnum að velja einn fulltrúa í fulltrúaráð fyrir Brunabótafélagið. Þegar fulltrúar hafa verið kosnir, eiga þeir að koma saman til fundar í Reykjavík. Gert er ráð fyrir, að þetta fulltrúaráð haldi aðalfund fjórða hvert ár, og er ekki gert ráð fyrir, að fundir skuli haldnir oftar, þó að heimild sé til þess að kalla þá saman, ef ástæða þykir til. Verkefni þessa fulltrúaráðs er að ræða um rekstur félagsins, afkomu og framtíðarhorfur og taka til athugunar, hvað unnt er að gera til hagkvæmra brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og brunavarnir, og einnig um aðrar tryggingar, er félagið kynni að takast á hendur. Enn fremur á fulltrúaráðið að kjósa þrjá menn í framkvæmdarstjórn. Þessi þriggja manna framkvæmdarstjórn á siðan að stjórna Brunabótafélaginu ásamt forstjóra þess, en að sjálfsögðu undir yfirumsjón viðkomandi ráðherra.

Þessi breyting verður að teljast í alla staði eðlileg og réttmæt á stjórn félagsins. Brunabótafélagið er í eðli sínu samstarf og að vissu leyti sameign þeirra, sem þar taka tryggingu. Hingað til hafa þeir ekki haft neina aðstöðu til þess að hafa áhrif á rekstur og gang fyrirtækisins og ekki haft aðstöðu til að gæta sinn hagsmuna þar sérstaklega. Með þessu fyrirkomulagi er til þess ætlazt, að hinir tryggðu geti gætt betur sinna hagsmuna, að þeir geti haft áhrif á rekstur fyrirtækisins og ráðið verulega um stjórn þess. Breytingin verður því að teljast til bóta, enda er það staðreynd, að á Norðurlöndum bjá tryggingarfélögum, sem starfa á svipaðan hátt og Brunabótafélag Íslands, hefur skipan nokkuð áþekk þessari verið upp tekin.

Næsta breytingin, sem veigamikil verður að teljast, er svo í 20. gr. frv. Í lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur er gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarstjórnir geti frá 15. okt. 1955 samið við hvert vátryggingarfélag, sem þeim þóknast, um brunatryggingar í viðkomandi umdæmi. Með þessu ákvæði er felld niður skyldutrygging hjá Brunabótafélagi Íslands. Það leiðir af sjálfu sér og er enda óþekkt fyrirbæri með öllu í tryggingamálum, hvar sem er í heiminum, að hægt sé að hverfa frá tryggingu fyrirvaralaust frá því fyrirtæki, sem menn hafa skipt við áður. Það er föst regla alls staðar í tryggingum, að félagið, sem trygginguna hefur tekið, verður að segja henni upp með fyrirvara, og það á rétt á því að fá fyrirvara, ef frá tryggingunni á að hverfa. Liggja til þessa margar ástæður. Í fyrsta lagi er tryggingarfélögunum nauðsynlegt að geta vitað um það með góðum fyrirvara, hvers þau mega vænta í sambandi við viðskiptavini og tekjur af tryggingunum, til þess að geta áætlað sín iðgjöld. Í öðru lagi er þetta nauðsynlegt vegna endurtrygginganna, og í þriðja lagi er þetta nauðsynlegt vegna undirbúnings á innheimtu tryggingariðgjalda.

Hjá Brunabótafélagi Íslands er þessum málum þannig varið, að reikningsár fyrirtækisins er miðað við 15. okt. og gjalddagi iðgjalda er einnig 15. okt.

Brunabótafélagið þarf að byrja á því með margra mánaða fyrirvara að skrifa sínar iðgjaldakvittanir, semja sína iðgjaldaskrá og undirbúa sína iðgjaldainnheimtu. Það væri því með öllu óviðunandi fyrir félagið, ef það vissi ekki með góðum fyrirvara, hverjir mundu verða tryggðir hjá því á næsta ári og hverjir ættu að greiða því iðgjald á næsta ári. Af þessari ástæðu er Brunabótafélagi Íslands það með öllu óhjákvæmilegt að vita með nokkuð góðum fyrirvara, hverjir tryggja hjá því á því ári, sem byrjar 15. okt. hverju sinni. Þess vegna taldi milliþn. nauðsynlegt, að sett yrðu inn í lögin einhver ákvæði um það, að segja þyrfti upp tryggingunni hjá Brunabótafélaginu með fyrirvara, ef menn vildu hverfa að uppsögn. Um það var út af fyrir sig enginn ágreiningur í n., að uppsagnarfrests var þörf, og ég á varla von á því, að það hefði orðið ágreiningur um fyrirvarann, eins og endanlega var frá honum gengið, ef aðrar ástæður hefðu ekki skilið leiðir manna í nefndinni.

Í frv., eins og það kom frá meiri hluta milliþn., er því lagt til, að ef sveitarstjórn óski ettir að hverfa frá tryggingu hjá Brunabótafélaginu, þá eigi hún að láta Brunabótafélagið vita um það, að hún óski eftir að losna við tryggingana eða semja á ný um hana, og ef ekki verða komnir á samningar innan tveggja mánaða frá slíkri tilkynningu, þá getur sveitarstjórnin sagt upp tryggingunni hjá Brunabótafélaginu með 6 mánaða fyrirvara, miðað við 15. okt. ár hvert.

Ég vil taka það fram hér, vegna þess að þetta atriði hefur vakið nokkrar umr., að tímalengd þessa frests, sem hér er á settur, er í fullkomnu samræmi við þær reglur, sem önnur tryggingarfélög hafa fylgt, þegar svipað hefur staðið á. Ég vil t.d. minna á, að það brunatryggingarfélag, sem nú gefur sig hvað mest að brunatryggingum utan Reykjavíkur fyrir utan Brunabótafélag Íslands, Samvinnutryggingar, hefur boðið sveitarfélögum fasta samninga, þar sem gert er ráð fyrir, að sveitarfélögin verði að vera bundin til 5 ára og geti ekki losnað með skemmri uppsagnarfresti en 6 mánuðum. Er þetta aðeins undirstrikun á því, að sú regla, sem tekin er hér upp í 20. gr., er í fullkomnu samræmi við það, sem tryggingarfélög yfirleitt álíta að þau geti komizt af með skemmst í sambandi við uppsögn.

Það hafa heyrzt raddir um það, að óþægilegt væri og óheppilegt að láta þennan 6 mánaða fyrirvara koma til framkvæmda nú á þessu ári; vegna þess að það væri erfitt og lítt viðráðanlegt fyrir sveitarfélög að nota sér uppsagnarákvæðin, miðað við þetta ár, ef fresturinn þyrfti að vera svo langur á þessu ári, svo sem liðið er af árinu.

Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að Brunabótafélag Íslands skrifaði öllum sveitarstjórnum á Íslandi utan Reykjavíkur bréf um s.l. áramót, skýrði sveitarstjórnunum frá því, að frv. það, sem hér liggur fyrir, væri fram komið á Alþ., og gerði ýtarlega grein fyrir því í þessu bréfi, hvað í frv. væri lagt til í sambandi við uppsagnarfrestinn. Benti Brunabótafélagið sveitarstjórnunum á það, að ef þær óskuðu eftir því að vera lausar við Brunabótafélagið eða óskuðu að semja sérstaklega, þá skyldu þær gera það þegar í stað, en ekki láta það dragast með tilliti til þess lagafrv., sem á ferðinni væri og ef til vill yrði samþykkt á þinginu. Það liggur því fyrir, að öllum sveitarstjórnum á Íslandi hefur verið bent á, hvað hér er að gerast, og þeim hefur verið gefið tilefni og beinlínis óskað eftir því af Brunabótafélagi Íslands, að þær byrjuðu að nota sér frestinn strax um áramót, vegna þess að lögin væru yfirvofandi, ef sveitarstjórnirnar vildu semja.

Það verður því ekki sagt, að þetta frv. komi í bakið á sveitarstjórnunum eða skapi þeim nein óþægindi þannig, og þess vegna virðist mér, að till. sú, sem hv. þm. S–Þ. (KK) hefur borið hér fram, sé óþörf og eigi ekki rétt á sér.

Þá er breyting á lögunum um Brunabótafélag Íslands í 8. gr. frv., ekki stórvægileg breyting, en þar er lagt til, að í stað þess að Brunabótafélagi Íslands er nú ekki leyfilegt að tryggja lausafé nema með nokkurri takmörkun, þar eð félaginu er bannað að tryggja vörubirgðir í geymslu, þá er lagt til í frv., að þessi takmörkun sé felld niður.

Í 23. gr. er enn fremur lagt til, að Brunabótafélaginu sé heimilað að nota varasjóð sinn, ef öruggt þykir að áliti framkvæmdarstjórnar og fulltrúaráðs, til stofnunar og rekstrar nýrra tryggingargreina, sem félagið kynni að reka, enda hafi þær aðgreindan fjárhag, bókhald og reikningsfærslu. Þessi rýmkun á starfsemi Brunabótafélagsins er tekin hér upp með tilliti til þess, að brunatryggingarnar utan Reykjavíkur eru með frv. færðar inn á svið frjálsrar samkeppni, og þykir þá ekki óeðlilegt, að Brunabótafélaginu sé jafnframt heimilað að færa út starfsemi sína og taka þátt í samkeppni annarra tryggingarfélaga á viðtækari grundvelli en verið hefur. Allt er þetta þó með því fororði, að framkvæmdarstjórnin og fulltrúaráðið álíti, að þetta sé rétt, og vilji á það fallast.

Þá er í 2. gr. frv. gerð nokkur breyting á starfssviði félagsins. Eins og mönnum er kunnugt um, hefur Brunabótafélag Íslands nú um nokkurt skeið rekið allvíða starfsemi í sambandi við brunavarnir og annað slíkt.. Fyrir þessari starfsemi hefur ekki verið nein föst heimild í lögunum um Brunabótafélag Íslands, og er nú lagt til, að þessi heimild sé örugglega tekin upp í lögin. Ákvæði um þetta er að finna í 2. tölul. 2. gr., sem segir, að það sé m.a. hlutverk félagsins að fylgjast með og afla upplýsinga um nýjungar í slökkvitækni, sem komið gætu hér að notum, og útvega eða útbúa hentug slökkvitæki, sem bæjar- eða sveitarfélögum og einslökum heimilum væri gefinn kostur á að eignast með hagkvæmum greiðsluskilmálum.

Þessi atriði, sem ég hef minnzt á, eru aðalbreytingarnar, sem frv. gerir á gildandi lögum um Brunabótafélag Íslands. En ég vil taka það skýrt fram, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að ef þetta frv. um Brunabótafélagið verður samþykkt, þá halda lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur að vera áfram í gildi eins og þau voru samþykkt á seinasta þingi, þ. á m. ákvæðið um skyldutryggingar gegn eldsvoða. Lögin um Brunabótafélag Íslands eru hins vegar bundin við félagið sjálft, og að svo miklu leyti sem þau snerta lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur, eru lögin um Brunabótafélagið eingöngu skýring og nánari útfærsla á lögunum, sem samþykkt voru á seinasta þingi. — Meira hef ég ekki að segja.