10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það, að þessu máli hefur verið frestað, meðan ég hef verið fjarverandi vegna forfalla, og skal reyna að valda ekki drætti á málinu.

Ég hef gefið út nál. aðeins þess efnis, að ég er ósamþykkur frv. eins og það kemur frá hv. Nd., og til þess að það liggi ljóst fyrir, að ég tel mig hafa frjálsar hendur um að greiða atkv. með brtt., sem hér kunna að koma fram, og flytja brtt.

Munurinn á afstöðu minni og hv. 1. þm. N-M. er að ég hygg sá í. höfuðatriðum, að þetta mál var mjög rætt hér á Alþ. í fyrra, bæði í þessari hv. deild og í hv. Nd., og þá þrautreynt, hve mikill meiri hluti stendur að þessu frv. Og enn fremur hefur málið verið rætt í hv. Nd. Þar komu fram fjöldamargar brtt., sem allar hafa verið felldar, og hann mun telja, að það sé þess vegna þýðingarlaust að reyna að koma fram frekari breytingum en orðið er.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál við þessa umr. og tel mér það skylt, þar sem málinu hefur verið frestað hvað eftir annað eftir minni beiðni. En ég tel, að það komi fram, m.a. af þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. S-Þ., að það er lengi von, að hægt sé að koma fram nokkrum leiðréttingum, því að ég geri ráð fyrir því, að sú brtt. verði þó samþ., og styð ég það við þær yfirlýsingar, sem voru gefnar hér í umr. í fyrra, að sá réttur, sem landsmönnum væri gefinn samkvæmt frv., sem þá varð að lögum, mundi ekki verða aftur tekinn. En það var eitt af ádeiluatriðum af minni hendi, að ég hélt því fram, að það mundi e.t.v. eiga eftir að koma í ljós, þó að ég vildi ekki fullyrða það, að eitthvað af þeim réttindum, sem samþ. voru í lögunum, eins og gengið var frá þeim í fyrra, yrði tekið aftur af þeirri n., sem ætti að starfa í málinu. En því var þá mjög kröftuglega mótmælt og fullyrt, að slíkt kæmi ekki til mála, enda geri ég ráð fyrir, að þessi till. verði samþ. — Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi. En ég mun taka það til athugunar að koma fram með brtt. við 3. umr.