10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

129. mál, Brunabótafélag Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nefndarálit og ég mun samþ. frv., eins og það liggur hér fyrir, enda þótt ég sé ekki ánægður með það. Það kemur af því, að þær umr., sem fram hafa farið um þessi brunamál, bæði hér í deildinni og í Nd. á síðasta þingi og í Nd. á þessu þingi, hafa sannfært mig um það, að það er líkt ástatt um fylgjendur þessa frv., eins og það liggur hér fyrir, og var með einn bónda, sem núna er dáinn, en bjó uppi í Borgarfirði. Hann hugsaði mikið og hafði ákveðnar skoðanir.

Einu sinni eftir messu var hann að deila við prestinn sinn, sem þá var prófastur í Borgarfjarðarsýslu, um trúmál, og færði þá prestur honum biblíuna og sýndi honum, hvað stæði þar. Jú, hann sá það nú. En þá sagði hann: „Ja, svona stendur nú ekki í minni biblíu.“ Þá var hann kominn í alger rökþrot, og heldur en að sannfærast og gefa sig við það, sem um var að ræða, þá stóð það ekki svona í hans biblíu. (Dómsmrh.: Það eru margar þýðingar til af biblíunni.) Já, þetta var nú sama útgáfa og hann átti og allt í lagi með það, en hann gaf sig ekki. Eins er hér. Þeir menn, sem hafa fylgt þessu frv. í þinginu hér og rætt um það og eins um brunamálin í fyrra, eru eins og þessi karl. Þeir taka ekki röksemdum. Það stendur svona í þeirra biblíu, í þeirra heila. Það á að vera svona, og þeir taka ekki röksemdum. Þess vegna sá ég enga ástæðu til þess að fara að lengja þingið með því að fara á ný að taka upp deilur og brtt., sem ég fyrir fram vissi að höfðu enga þýðingu eða yrði neitt gert með. Þetta varð svo til þess, að ég skrifaði undir nál. fyrirvaralaust. Annars hreyfði ég einstaka breytingum, sem ég vildi gjarnan fá fram, og þegar nm. sáu ekki ástæðu til þess, þá var ég ekkert að tefja þingið og umr. þar, heldur skrifaði fyrirvaralaust undir.