04.11.1954
Neðri deild: 12. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

82. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Akureyrarkaupstaðar

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. gat um hér áðan, þá er forsaga þessa máls nokkuð löng. Þannig er háttað í Glerárþorpi, að verkamenn þar hafa þurft að sækja vinnu inn til Akureyrar á undanfarandi árum, siðan fjölga tók í þorpinu. Eins hafa þeir að verulegu leyti fengið uppeldi sitt frá Krossanesverksmiðju, sem er rétt við Glerárþorpið, en er eign Akureyrarkaupstaðar.

Nú hefur þetta verið þannig, að verkalýðsfélögin á Akureyri hafa frekar amazt við því, að verkamenn og sjómenn úr Glerárþorpi sæktu vinnu inn til Akureyrar. Það hefur eingöngu verið vegna þess, að á vetrinum hefur alltaf verið ákaflega þröngt um atvinnu á Akureyri, og þá hefur þessi aðsókn verkamanna úr Glæsibæjarhreppi orðið til þess að draga úr atvinnumöguleikum verkamanna í Akureyrarkaupstað. Þetta er sú hliðin, sem snýr að okkur á Akureyri og veldur okkur og kemur til með að valda okkur nokkrum óþægindum, að eftir að sameiningin hefur orðið, fá verkamenn úr Glæsibæjarhreppi sama og jafna aðstöðu á við þá verkamenn á Akureyri, sem fyrir eru, til allrar vinnu í bænum. Hins vegar er ekki því að neita, að Akureyrarkaupstaður hefur af því verulega hagsmuni að fá Glerárþorpið innlimað, vegna þess að bærinn þarf í náinni framtíð á auknu landrými að halda, og því er ekki hægt að neita, að það er ákaflega eðlilegt, að þessir staðir, Glerárþorpið og Akureyrarkaupstaður, séu eitt og sama sveitarfélagið. Það er eingöngu lítil árspræna, sem skilur þar á milli, og segja má, að hagsmunir þeirra manna, sem á þessum stöðum búa, falli að mestu leyti saman hvað atvinnu snertir.

Það mun hafa verið í lok ársins 1951, að kosin var nefnd manna í Glerárþorpi, sem átti að vinna að sameiningunni við Akureyrarkaupstað, og þessi nefnd óskaði eftir formlegum viðræðum við bæjarstjórnina, sem hún fékk skömmu síðar. Það er engin ástæða til þess að rekja sögu þessa máls, hún er ekki það merkileg út af fyrir sig, en ég kemst ekki hjá því að benda á það í þessu sambandi, að félmrn. hafði þá þegar mjög mikinn áhuga fyrir þessu máli og einmitt fyrst og fremst vegna þess, að það þurfti að leysa vandkvæði verkamanna og sjómanna í Glerárþorpi, sem ekki höfðu nóga atvinnu um vetrarmánuðina. Mér er kunnugt um það, að atvinnumálanefnd ríkisins kom norður og átti um þetta viðræður bæði við bæjarstjórn Akureyrar og hreppsnefndina í Glæsibæjarhreppi. Einnig var ég viðstaddur viðræðufund hér í Reykjavík, sem fór fram á milli bæjarstjórnar Akureyrar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps og svo þessarar atvinnumálanefndar, þar sem lögð var á það rík áherzla af nefndarinnar hálfu, að það yrði af þessari sameiningu.

Það hefur alltaf komið fram hjá Akureyrarbæ, að það væri ekki óeðlilegt út af fyrir sig, að þar kæmi eitthvað á móti, úr því að Akureyrarbær féllist á þessa sameiningu, því að hún mundi leiða til þess, að vinnumarkaðurinn á Akureyri mundi þrengjast. Og Akureyri hefur farið fram á það við hæstv. ríkisstj. í viðtölum, að það yrði reynt að greiða fyrir ýmsum atvinnuframkvæmdum á Akureyri í staðinn fyrir þetta, að ríkisstj. reyndi, eftir því sem aðstæður leyfðu, m.a. að útvega fé til nauðsynlegra framkvæmda. Í því sambandi hefur sérstaklega verið minnzt á byggingu hraðfrystihúss á Akureyri, sem nú þegar er knýjandi nauðsyn, og einnig, að reynt yrði að auka og efla tunnuverksmiðjuna, sem starfar þar í bænum. Þessi sjónarmið hafa komið fram. Ég verð að segja, að það hefur komið fram skilningur hjá hæstv. ríkisstj. á þessum málum, án þess að nokkur ákveðin loforð hafi verið gefin í þessum efnum. Og í sambandi við brúarbyggingu á Glerá, sem Akureyrarbær hefur kostað að helmingi, og vegagerð um Glæsibæjarhrepp í gegnum Glerárþorp hefur ríkisstj. sýnt mikinn skilning og komið því bókstaflega til leiðar, að af þessum framkvæmdum yrði. En ég vildi nú aðeins víkja að þessu og benda á það, að nú fær Akureyri, — ég skal ekki segja hvað marga, en nokkuð stóran hóp verkamanna, sem við verðum að sjá fyrir atvinnu um vetrarmánuðina, og þá er knýjandi nauðsyn fyrir bæjarfélagið að geta aukið þau atvinnufyrirtæki, sem nú þegar eru á staðnum, og það er þá fyrst og fremst að koma upp fiskvinnslustöð til þess að vinna úr afla þeirra 5 togara, sem núna eru gerðir út frá bænum, og ég treysti því og vonast til þess, að ríkisstj. muni, þegar þar að kemur, veita okkur alla þá aðstoð, sem unnt er að veita í sambandi við þetta mikla hagsmunamál bæjarfélagsins. Ég vil ekki fara fram á nein loforð, enda sæmir það ekki í sambandi við þetta mál, en ég vil bara benda á það í sambandi við þessa afgreiðslu núna, að það er nauðsynlegt, að Akureyri fái einmitt á næstunni aðstoð til þess að koma upp auknum atvinnuframkvæmdum.

Í sambandi við þetta frv. vildi ég aðeins benda á það og óska eftir því, að hæstv. n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi sérstaklega 3. gr. frv., þar sem stendur: „Nú verður ekki innan 6 mánaða frá gildistöku laga þessara samkomulag milli bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar og hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps um bætur fyrir tekjurýrnun Glæsibæjarhrepps, er leiðir af ákvæðum 1. gr.“ — að í staðinn fyrir „bætur fyrir tekjurýrnun“ kæmi: um eigna- og skuldaskipti, að gr. yrði þannig breytt, að „ef ekki næðist samkomulag um eigna- og skuldaskipti“, þá komi til gerðardóms. Ég tel, að ef talað er um bætur fyrir tekjurýrnun, sé það nokkuð viðtækt og að slíkt orðalag gæti misskilizt, því að það mun ekki vera um það að ræða og ekki meiningin á bak við þetta, að Akureyrarbær fari að greiða til Glæsibæjarhrepps einhverjar bætur fyrir það tjón, sem hreppurinn kemur til með að bíða vegna missis útsvarstekna. Það á eingöngu við um eigna- og skuldaskipti, sem hlýtur að verða að ráða einhvern veginn fram úr, þegar sameiningin á sér stað.