21.03.1955
Neðri deild: 62. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samkvæmt 37. gr. laga frá 29 frá 9. apríl 1947, um vernd barna og unglinga, er svo ákveðið, að ríkisstj., eftir því sem fé er veitt á fjárl., stofnsetji og reki hæli fyrir börn og unglinga, sem lent hafa á glapstigum. Skulu þessi hæli vera að minnsta kosti tvö, annað fyrir drengi en hitt fyrir stúlkur. 1952 var stofnað til vistheimilis fyrir drengi í Breiðuvík á Barðastrandarsýslu. Það ár og 1953 og 1954 voru árlega veittar 150 þús. kr. til rekstrar, en raunverulegur rekstrarkostnaður mun hafa orðið nokkru meiri og t.d. s.l. ár hátt á þriðja hundruð þús. kr. Til stofnkostnaðar hælisins mun ríkissjóður þegar hafa varið að meðtalinni fjárveitingu þessa árs nálega 11/4 millj. kr.

Upphaflega mun ætlunin hafa verið sú, að þetta vistheimili rúmaði 30 drengi. Má gera ráð fyrir, að að því verði stefnt, eftir því sem þörf krefur og fjárveitingar hrökkva til. Á s.l. ári munu 10 drengir hafa dvalið á hælinu, þegar flest var, en ætlazt er til, að nú sé hægt að hafa þar 15 drengi. Er það þó dregið í efa, nema húsakostur sé eitthvað aukinn frá því, sem nú er. Við þetta vistheimili vinna 7 manns, og er gert ráð fyrir, að einum manni þurfi að bæta við, miðað við 15 drengja vist.

Í tillögum framkvæmdastjóra vistheimilisins um fjárveitingar til þess árið 1955 var beðið um 300 þús. kr. til rekstrar og 950 þús. kr. til stofnkostnaðar. Bárust hv. fjvn. skjöl um þetta efni frá framkvæmdastjóranum, og segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að geta starfrækt heimilið í framtíðinni og draga úr rekstrarhalla þarf að auka stórkostlega búið, byggja peningshús og brjóta landið, og er áætlun um fjárfestingu á næsta ári byggð á því, að hluti af þessu verði framkvæmt nú þegar. Þá er óhjákvæmilegt í framtíðinni að bæta aðstöðu til útgerðar á staðnum, og er erfitt að segja um, hve mikið fé þarf í allar þessar framkvæmdir, fyrr en fyrir liggur heildarskipulag, áætlanir og teikningar hér að lútandi. En telja má, að fyrir minna en 4-5 millj. kr. verði þessar framkvæmdir ekki allar gerðar.“

Af þessu má ráða, að eftir þriggja ára starfsemi er æði margt laust í reipunum um framkvæmdir á þessum stað, þar sem svo virðist sem enn geti það munað milljón eða jafnvel milljónum, hvað þarna verður ráðizt í að framkvæma á næstu árum. Virðist þó nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér einhverja grein fyrir þessu, áður en hún ræðst í þá framkvæmd, sem til er ætlazt, þ.e. að stofna og starfrækja vistheimili fyrir stúlkur, sem lauslega er áætlað að kosta muni 6–8 millj., ef byggt er, og vart getur rekstur vistheimilis fyrir 30–40 stúlkur kostað árlega minna en nálægt 1/2 milljón króna, ef dæma má eitthvað eftir rekstri heimilisins í Breiðuvík.

Á þessu þingi lagði hv. þm. Barð. (GíslJ) fyrir hv. Ed. frv. til laga um vistheimili fyrir stúlkur. Frv. þetta tók allmiklum breytingum í hv. Ed., og þegar frv. kom til þessarar hv. d., var því vísað til menntmn., sem hefur svo rætt það á nokkrum fundum.

Eins og frv. kom frá hv. Ed., má segja, að þrjú væru meginatriði þess:

1) Að ríkisstj. hefji þegar undirbúning að stofnun og rekstri vistheimilis fyrir stúlkur.

2) Að ríkissjóði sé skylt að leggja fram nauðsynlegt fé til stofnunar og rekstrar heimilisins.

3) Að ríkisstj. sé heimilt að útvega hentugt húsnæði, sem til kann að vera, hvort sem það er nú eign þess opinbera eða annarra.

Menntmn. er samþykk 1. og 3. atriði frv. Getur það ekki leikið á tveim tungum, að æskilegt er, að farið sé að undirbúa framkvæmdir í þessu máli, ekki sízt þar sem búast má við, að sá undirbúningur geti tekið nokkurn tíma. Þarf bæði að vanda staðarval og gera sér fulla grein fyrir rekstrar- og stofnkostnaði, og einnig er þýðingarmikið að meta þá möguleika að fá til starfseminnar húsnæði, sem til kann að vera, í stað þess að þurfa að byggja stofnunina upp frá grunni. Hins vegar gat menntmn. ekki fallizt á það ákvæði frv., að ríkissjóði sé skylt að leggja fram allt fé til rekstrar og stofnkostnaðar án tillits til þess, hvort fé er veitt til þess á fjárl. eða ekki. Er slíkt ákvæði óvenjulegt, enda í rauninni þýðingarlaust, þegar um mikil fárframlög er að ræða, eins og hér hlýtur að verða.

Þegar hér var komið, virtist ekki meira eftir af hinu upphaflega frv. hv. þm. Barð. um vistheimili fyrir stúlkur en það, sem fremur ætti að afgreiða með þál. en lögum.

Niðurstaða n. varð þó sú að leggja til, að samþ. yrði viðauki við 37. gr. laga nr. 29 frá 9. apríl 1947, um vernd barna og unglinga, og að tekin yrðu þar upp þau atriði úr frv. hv. þm. Barð., eins og það kom frá hv. Ed., sem n. gat fallizt á og ég hef hér skýrt frá.

Menntmn. leggur einróma til, að hv. þd. fallist á frv. hennar á þskj. 482, og væntir þess, að svo verði.

Að lokinni þessari umr. óska ég þess, að málinu verði vísað til 2. umr.