18.02.1955
Neðri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

127. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað sannfærzt af rökum hv. frsm. samgmn. um að breyta fyrri till. minni. Ég vil taka það fram hvað hana snertir, að í Reykjavík er ástandið þannig, að þar er nú alveg ákveðinn fjöldi manna, sem hefur atvinnuleyfi til að keyra á bifreiðastöðvunum í Reykjavík samkv. samningum, sem Bifreiðarstjórafélagið Hreyfill hefur við bifreiðastöðvarnar í Reykjavík. Sá samningur byggist á þeim lögum, sem við hér erum að ræða um breytingar á, l. nr. 23 frá 16. febr. 1953, þar sem ákveðið var, að allir bifreiðarstjórar yrðu að hafa afgreiðslu á bifreiðastöð. Þessi atvinnuleyfi eru sem sé alveg ákveðin og takmörkuð, og það er sá áþreifanlegi hluti í þessu sambandi. Hitt, sem hv. frsm. samgmn. kom inn á, er ekki nærri því eins ákveðinn hlutur. Það er deilumál og álitamál, sem menn hafa mismunandi skoðanir á. Hins vegar mundi það auðvitað liggja undir vald samgmrh. að ákveða að bæta við frá þeim hópi, sem nú hefur atvinnuleyfi samkv. samningum Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils. Það væri á hans valdi, eftir að þetta frv. væri samþ. En ég vil hins vegar, að Alþ. fyrir sitt leyti gangi alveg skýrt frá þessum málum. Ég held, að ég megi fullyrða, að vilji Bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils í þessu sambandi sé, að það sé bundið við þau atvinnuleyfi, sem það félag nú þegar hefur samkv. sínum samningi við stöðvarnar. Þess vegna vil ég halda mjög fast við þá till. mína. Og hvað aðra kaupstaði snertir, þá tók ég þar upp till. hv. samgmn., þannig að um seinni hlutann, sem ég legg til að bætt sé við mína till., held ég að við ættum að geta orðið sammála.

Svo er hvað atvinnuleyfin snertir og reglugerðina. Það er búið að ræða það mál þó nokkuð hér, og það hefur ekkert komið fram, sem afsannar það, sem ég hélt fram um, að það væri nauðsynlegt að hafa lagaákvæði, sem fyrirskipa, að þetta sé sett inn í reglugerð. Það hefur verið bent á af hv. 8. landsk., að jafnvel þó að til væru lagaákvæði, þá þekktist það meira að segja, að svona hlutir væru brotnir, svo að þá geta menn ímyndað sér, hvernig ástandið muni vera, svo framarlega sem annaðhvort engin lög og ekkert reglugerðarákvæði væri eða bara reglugerðarákvæði, sem styddist ekki einu sinni við lög og þess vegna væri tvísýnt.

Ég vil benda á, að það er ekki aðeins hér um það að ræða, að það sé verið að girða fyrir að gera þessi atvinnuleyfi að verzlunarvöru, að svo miklu leyti senn þau eru í höndum hinna einstöku bifreiðarstjóra, sem sjálfir vinna í þessari atvinnugrein, og það er vitað einmitt, að það er þeirra ósk að koma í veg fyrir slíkt og þeirra félags. Það er þarna líka um það að ræða, að það er allmikið af atvinnuleyfum í höndum eins einstaks manns, eins af helztu auðmönnum Reykjavíkur. Bifreiðastöð Steindórs hér í Reykjavík hefur um 50 atvinnuleyfi. Þess eru dæmi, þegar atvinnuleyfi eru seld nú, að þau seljast fyrir 15-20 þús. kr., og það getur varla verið meining Alþ., að það eigi beint eða óbeint að stuðla að því, að jafnvel einstakur stóratvinnurekandi fái alveg sérstaka einokunaraðstöðu með svona aðgerðum. Og þegar vitað er, að viðkomandi bifreiðarstjórafélag vill koma í veg fyrir, að atvinnuleyfin verði verzlunarvara, þá á sannarlega ekki að standa á Alþ. að gefa því vald til þess að hjálpa því til þess á allan hátt.

Ég verð að segja, að frá því „prinsipiella“ sjónarmiði Sjálfstfl., ef hann hefði einhver „prinsip“, fyndist mér þetta dálítið varhugavert, a.m.k. hvað Steindór snertir. Það gætu verið ýmsir fleiri, sem vildu koma sér upp slíkum bílstöðvum, og þetta er náttúrlega mjög mikil takmörkun á atvinnurekstri. En það getur nú verið, að Sjálfstfl. sé ekki eins mikið á móti einokun í slíkum hlutum og hann stundum lætur. Ég á þess vegna bágt með að skilja, af hverju verið er að hafa svona mikið á móti þessari síðari till. minni. Hins vegar hef ég orðið var við það, að sumir hv. þm. vilja gjarnan hafa annað orðalag á því, sem ég segi um, hvernig reglugerðin skuli sett. Í till., eins og hún er frá mér, stendur: „Og skal þeim þá ráðstafað samkv. reglugerð, sem viðkomandi bifreiðarstjórafélag setur og staðfest hefur verið af samgmrh.“ Ég gæti alveg eins hugsað mér að hafa þann hátt á, að í staðinn fyrir tilvísunarsetninguna þarna: „sem viðkomandi bifreiðarstjórafélag setur og staðfest hefur verið af samgmrh.“ komi: sem samgmrh. setur samkv. tillögum viðkomandi bifreiðarstjórafélags, — sem að mínu áliti mundi þýða það sama, en er hins vegar venjulegra orðalag í lögum, ef mönnum finnst það heppilegra. Og ég vil leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. um, að orðalagið á þessari tilvísunarsetningu breytist þannig, að í stað þessara orða í till. komi: sem samgmrh. setur samkv. tillögum viðkomandi bifreiðarstjórafélags, — en að mínu áliti hins vegar kemur það út á eitt hvað merkinguna snertir.

Ég álít, að það hefði verið mjög heppilegt, að það hefði verið hægt að fresta þessari umr. og athuga, hvort ekki væri hægt að hafa nokkurt samráð um að orða þetta litla frv. þannig, að ekki gæti orkað neitt tvímælis um, hvað í því væri. Ég vil þess vegna eindregið styðja þá till. og þau tilmæli, sem fram hafa komið til hæstv. forseta, um, að þessari umr., sem er 3. umr. málsins, verði frestað. Ég vil vekja athygli á því, að þetta er 127. mál þingsins og er nú við síðustu umr. hér í Nd. Á sama tíma liggja hér frumvörp, sem búin eru að liggja í þrjá mánuði og meira hjá nefndum í þessari hv. d. og fást ekki afgreidd enn, og það mjög þýðingarmikil frv. Það kann að vera rétt, að með tilliti til slælegrar framgöngu slíkra nefnda sé lofsvert, að það skuli þó vera ein n., sem kemur fram með frv. í þinginu og virkilega drífur það áfram. En ég held, að það sé gott að hafa það ekki ýmist of eða van, heldur fara þarna fram með nokkurri hófsemi, þannig að við þeim frv., sem eru búin að hvíla sig þrjá mánuði í n., sé nokkuð stjakað og þau látin koma fram í þinginu, en að um frv., sem hefur lítið verið rætt í þinginu og er nýkomið fram og allmikill ágreiningur og mismunandi skoðanir virðast um, sé gefið tækifæri til þess að reyna að ganga þannig frá því, að því yrði tryggður framgangur í þinginu.

Ég vil vekja athygli hv. samgmn. á því, að þó að mjög vinsamlega hafi verið tekið í þetta frv., um leið og bent hefur verið á ýmislegt, sem betur mætti fara í því, þá er þetta frv. ekki öruggt í gegnum þingið, ef ekki er haft gott samkomulag við alla þá aðila, sem vilja lagfæra þetta frv. og ganga þannig frá því, að það væri ekki Alþ. til vansa. Ég vil þess vegna eindregið beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr., sliti ekki umræðunni. Það vakir alls ekki fyrir mér að tefja fyrir þessu máli á neinn hátt. Ég hef lýst yfir minni afstöðu til þess. En hins vegar legg ég áherzlu á, að þessar brtt., sem ég hef flutt, verði samþ., vegna þess að ég álít, að frv. verði ekki viðunandi með öðru móti, og ég álít, að það væri heppilegast, að hægt væri að ná slíku samkomulagi við hv. samgmn., að framgangur þess væri öruggur.