14.04.1955
Neðri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

132. mál, jarðræktarlög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að gera fsp. um eitt atriði í frv. til hv. frsm. landbn. Eins og fram er tekið í 3. gr. frv., þá er gert ráð fyrir því, að nokkur munur verði á greiðslu jarðræktarframlags til ræktunar lands eftir því, hvort um sanda er að ræða eða ræktun annars lands. En í ákvæðum til bráðabirgða er gert ráð fyrir því, að til ársloka 1960 skuli þau býli, er hafa minna en 10 hektara tún, njóta 450 kr. framlags á hektara til jarðræktar. Ég vildi spyrjast fyrir um, hvort það væri álit landbn. og skilningur hennar á málinu, að þeir bændur, sem hafa þá aðstöðu að hafa minna en 10 hektara tún, skuli samkv. bráðabirgðaákvæðinu fá það framlag, sem þar er rætt um, til jarðræktar, hvort sem þeir taka sand til túnræktar eða annað land.