28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

80. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal hugga hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) með því, að ég skal ekki hirta hann verulega, enda eru allar málsástæður orðnar svo ljósar hv. þm., að þess gerist ekki þörf. Hv. þm. æsti sig talsvert í síðustu ræðu sinni. Ég afsaka það við hann. Ég tel það aðeins sönnun þess, að málstaðurinn er ekki góður. Það hafa margir þann sið að tala þeim mun hærra og með þeim mun meira blæstri sem málstaðurinn er verri, og það hefur hent þennan hv. þm. núna.

Ég hef sjálfur enga þörf fyrir slíkt í þessum umr., eins og málstaðurinn er. Ég vildi aðeins leiðrétta eitt, sem hann sagði. Hann andmælti þeirri staðhæfingu minni, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði brugðizt þeim skyldum, sem gildandi lög legðu á sveitarfélögin. Hann vildi afsanna þá staðhæfingu mína með því að segja, að bæjarstjórnin hefði þó komið upp áfengisvarnastöðinni, sem ég hefði farið lofsamlegum orðum um, og taldi, að í þessu fælist mótsögn hjá mér. Mér finnst þessi orð hv. þm. bera þess vott, að hann eigi ekki gott með að segja, að aðrir tali af vanþekkingu um þessi efni, því að hann ætti að vita, ef hann hefur þekkingu á því, sem hann er að tala um, að í gildandi lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra eru engin ákvæði um stofnanir eins og áfengisvarnastöðvarnar. Gildandi lög leggja enga skyldu á herðar Reykjavíkurbæ né nokkurs annars sveitarfélags að koma upp leiðbeiningarstofnun eins og áfengisvarnastöðinni. Þau leggja hins vegar þá skyldu á Reykjavíkurbæ og önnur sveitarfélög að koma upp sjúkrahúsdeildum fyrir þá menn, sem teknir eru úr umferð sökum ölvunar, og hælum fyrir „króníska“ drykkjusjúklinga. Það er þetta tvennt, sem bæjarstjórnin hefur ekki gert. Það er þess vegna, sem ég hef sagt, að hún hafi brugðizt þeim skyldum, sem á hana voru lagðar lögum samkvæmt.

Hitt er svo rétt, að hún hefur gert annað, sem lög skylduðu hana ekki til, sem sagt að koma upp áfengisvarnastöðinni. Hún hefur þó ekki búið eins vel að henni og skyldi, og það játaði hv. þm. líka, að áfengisvarnastöðinni væri ekki séð fyrir neinu tryggu sjúkrahúsrúmi í bænum fyrir þá sjúklinga, sem hún fær til meðferðar.

Þá sagði hv. þm. enn, að forvígismenn Reykjavíkurbæjar hefðu beitt sér fyrir lagabreytingum í þessu efni. Ég skírskota aðeins til hv. þm., sem hér hafa setið á undanförnum þingum, varðandi það, hvaða lagafrv. mena hafa séð frá forvígismönnum Reykjavíkurhæjar til breytingar á gildandi lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Allir, sem hér hafa setið síðan 1949, vita, að frá þeim hafa engin frv. sézt til breytingar á þessum lögum nema þau, sem haft hafa þann eina tilgang að létta útgjöldum af Reykjavíkurbæ.