04.04.1955
Neðri deild: 69. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það kemur manni alltaf í einkar gott skap að hlusta á hinar endurteknu ástarjátningar hæstv. forsrh. til hv. 2. þm. Reykv. Þær eru kannske ekki orðnar eins „hrærandi“ nú og fyrst, af því að maður er farinn að venjast þeim dálítið, en þó eru þær alltaf skemmtilegar. Af því að ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. þarf að greiða fyrir þessa síðustu ástarjátningu, áður en langt um líður, og segja eitthvað fallegt um hæstv. forsrh., þá skal ég lofa því að hafa þetta mál ekki mjög langt.

Ég tel, að ég geti hæglega rætt um það mál, sem hér liggur fyrir, án þess að blanda inn í það miklum tilfinningahita. Ég vil ræða það litillega á við og dreif og þá sérstaklega, hvort heppilega og skynsamlega er stefnt, að mínum dómi, í því frv. til l. um bæjarstjórn fyrir Kópavogskaupstað, sem hér er fram borið.

Þegar ég heyrði síðustu fréttir um flokkadrætti og allmikið vopnabrak úr Kópavogshreppi, datt mér í hug ein af okkar gömlu og góðu fornsögum; það var Ljósvetningasaga. Eins og þeir vita, sem þekkja Ljósvetningasögu, skýrir hún frá sífelldum viðureignum hvorki meira né minna en í heilan mannsaldur. Þannig gekk það til, að þegar einn höfðinginn þóttist hafa farið varhluta fyrir öðrum, linnti hann ekki látum fyrr en hann hafði skorið upp herör og farið af stað til þess að reyna að rétta hlut sinn. Ég gæti jafnvel trúað, að ef einhver ritfær maður tæki sig til og skrifaði sögu Kópavogshrepps síðustu ára, þá kynni svo að fara, að sagnfræðingar framtíðarinnar, við skulum segja eftir nokkur hundruð ár, kæmust að þeirri niðurstöðu, að sú saga væri sniðin eftir Ljósvetningasögu. En þegar ég las þetta frv., sem hér er fram komið, og sá, að hæstv. forsrh. var fyrsti flm. þess, datt mér Ljósvetningasaga í hug öðru sinni, og það var vegna þess, að í þeirri sögu eru orð höfð eftir einum höfðingja, sem loksins eftir langa mæðu var orðinn langþreyttur á því að rísa upp, þó að einhver af fylgismönnum hans eggjaði hann lögeggjan til framgöngu, og mælti þessi ágætu orð: „Fýsi ég eigi mína menn að fara í heimsku þessa.“

Ég held, að ef hæstv. forsrh. hefði lesið þessa ágætu sögu nýlega, hefði hann ekki lagt þetta frv. fram nú með þeim undirbúningi, sem það hefur fengið. Ég hygg, að það sé einsdæmi, að kaupstaðarréttindi til handa einum eða öðrum kaupstað hafi valdið deilum hér á Alþingi. Það hefur a.m.k. ekki kveðið mikið að því. Venjulega hefur slíkur undirbúningur verið hafður á, þegar frumvörp hafa verið borin fram um það, að eitthvert kauptún fengi kaupstaðarréttindi, að til þess hefur ekki komið, að það ylli verulegum deilum á Alþ. Það hefur venjulega verið svo, að um málið hefur verið nokkurn veginn fullt samkomulag innan þess kauptúns, sem slíks hefur óskað. Hér er því um heldur óvenjulega málsmeðferð að ræða, þar sem það, eins og löngu er upplýst og rakið hefur verið af ýmsum ræðumönnum, kemur ekki frá yfirstjórn viðkomandi hrepps eða hreppsyfirvöldum að æskja eða krefjast kaupstaðarréttinda, heldur eru það þrír stjórnmálaflokkar í hreppnum eða félög þeirra, sem beita sér fyrir þessu máli og virðast gera það af mjög mikilli hörku.

Það fóru fram í Kópavogshreppi kosningar á s.l. ári eins og í öðrum hreppum og kaupstöðum þessa lands. Og það var ekki látið við það sitja, að þar færu fram einar kosningar, heldur urðu þær að vera tvennar. En ég hygg, að það sé rétt með farið, sem hér hefur verið sagt áður, að fyrir þessar tvennar kosningar hafi engin rödd komið fram um það, að á því væri brýn nauðsyn að gera Kópavogshrepp að kaupstað nú þegar. Þær raddir hafa a.m.k. ekki farið hátt.

Nú er skorin upp herör fyrir þessu máli, og hetjur ríða um hérað eins og fyrr á dögum og safna liði. Þetta líkist dálítið görpunum í Ljósvetningasögu, sem aldrei gátu við það unað að lúta í lægra haldi eftir nokkra sennu. Garparnir í Kópavogshreppi, sem biðu lægri hlut í tvennum kosningum á s.l. ári, telja það nú höfuðnauðsyn, að því er virðist, ég veit ekki, hvort heldur er fyrir sig eða fyrir hreppinn, að fara nú út í þriðju kosningarnar og reyna einu sinni enn, hvort ekki megi betur til takast.

Það er ýmislegt einkennilegt í málflutningi þeirra manna, sem telja það nú allt í einu höfuðnauðsyn, að Kópavogur verði gerður að kaupstað, áður en þessu þingi lýkur. Það er m.a. haft á orði, að þótt að vísu þurfi að stofna þarna töluvert embættismannalið eins og í öðrum kaupstöðum, þá komi þetta ekki eins tilfinnanlega við Kópavog og í fljótu bragði virðist, vegna þess að ríkið borgi stunum þessara embættismanna.

Þetta kann að vera sæmileg röksemd út frá sjónarmiði þeirra manna, sem eingöngu hugsa um fjárhag Kópavogshrepps eða fyrirhugaðs Kópavogskaupstaðar. En fyrir okkur hér á hv. Alþ., sem ættum a.m.k. að hugsa eitthvað um hag ríkissjóðsins og viljum, vænti ég, flestir gera það, eru þetta heldur haldlítil rök. Það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að stofna ný embætti, ef þeirra er ekki brýn þörf, jafnvel þó að ríkið eigi að greiða. En það er ómótmælanlegt, að í sambandi við stofnun kaupstaðar í Kópavogi hlýtur Kópavogur að verða að taka á sig mjög verulega auknar útgjaldabyrðar og ríkið einnig nokkrar. Þarna mundi að sjálfsögðu verða að koma allálitlegur embættismannahópur, eins og í öðrum kaupstöðum. Þar kæmi að sjálfsögðu bæjarstjóri ásamt bæjargjaldkera og einhverju starfsliði. Þar kæmi bæjarfógeti ásamt lögregluliði. Þar kæmi skattstjóri. Þar kæmi sennilega bæjarverkfræðingur o.s.frv. Þetta er eitt af því, sem að sjálfsögðu ber að athuga í sambandi við það, hvort nú á að hlaupa að því að gera Kópavog að kaupstað. Ég tel þetta ekkert höfuðatriði, því að ef brýna nauðsyn bæri til, að sú breyting væri gerð, sem hér er fram á farið með þessu frv., væri sjálfsagt að gera hana, þó að henni fylgdi nokkur kostnaður.

Hæstv. forsrh., fyrsti flm. þessa máls, lagði á það allríka áherzlu í frumræðu sinni, að hér væri ekki nema um tvær leiðir að gera. Önnur væri sú, að allt sæti við hið sama og verið hefði, Kópavogur yrði um langa framtíð hreppsfélag, eins og hann hefur verið, ellegar þá hitt, að hann yrði gerður að kaupstað og það nú strax. Þriðja leiðin er að sjálfsögðu til, og um hana hefur verið nokkuð rætt, a.m.k. nú upp á síðkastið, og þó að ég sé ekki ýkja kunnugur í Kópavogi, þá hef ég góðar heimildir fyrir því, að sú leið á þar mjög verulegu og að ég hygg stöðugt vaxandi fylgi að fagna. Sú leið er, að Kópavogur, annað tveggja nú innan skamms eða þá áður en mjög langir tímar líða, sameinist Reykjavíkurkaupstað.

Ég skal lýsa því yfir þegar, að það er tvímælalaus skoðun mín, að þetta sé skynsamlegasta,og eðlilegasta leiðin. Ég segi ekki þar með, að brýn nauðsyn sé á að ganga frá þessu nú á þessu vori. En þetta er sú leið, sem tvímælalaust á að fara að því er varðar stöðu Kópavogs, og það er sú leið, sem farin verður fyrr eða síðar, jafnvel þó að það frv., sem hér er lagt fram, verði gert að lögum, þó að það að vísu muni seinka málinu verulega, eins og ég ætla að koma að lítillega hér á eftir.

Hvað er Kópavogur? Hann er í raun og veru ekki annað en eitt af úthverfunum frá Reykjavík. Hann hefur að mjög verulegu leyti byggzt frá Reykjavík, og í Reykjavík starfa langflestir vinnufærir menn í Kópavogi. Og eins og við sjáum, ef við fylgjumst með þróuninni í byggingarmálum, líður ekki á löngu þar til Kópavogur vex svo að segja algerlega saman við Reykjavík. Þar verður í því efni alveg sama þróunin og við sjáum að er að gerast varðandi Seltjarnarnesið, sem nú er orðið svo að segja algerlega samvaxið Reykjavík og verður það fullkomlega eftir örfá ár. Og það er margt fleira, sem nú þegar sameinar Kópavogshrepp og Reykjavík. Frá Reykjavík hefur Kópavogur ýmsar brýnar nauðsynjar, svo sem póst, rafmagn, vatn og sima og jafnvel fleira. Þetta allt hefur Kópavogur nú þegar í samlögum við Reykjavík. Og eins og margsagt hefur verið, starfa langflestir Kópavogsbúar í Reykjavíkurkaupstað, enda skortir í Kópavogi nálega öll atvinnutæki, sem stafar af því, hvernig hann er upp byggður, að hann er raunverulega byggður upp sem eitt af úthverfum Reykjavíkur.

Það er enginn efi á því, að það er hárrétt, sem einn hv. ræðumaður sagði hér í dag, að ef að kreppir með atvinnu, og alltaf má búast við því, sérstaklega þegar óstjórn er í landi, þá mun Kópavogur finna mjög tilfinnanlega til þess, ef hann væri þá enn hreppsfélag, en enn tilfinnanlegar mundi slíkt ástand sennilega bitna á honum, ef hann hefði að lögum verið gerður kaupstaður.

Það hefur verið nefnt í blaðaumræðum, og ég vil ekki alveg láta hjá líða að minnast á það hér, að nú einmitt á þessu þingi vorum við að samþykkja lög um sameiningu Akureyrarkaupstaðar og Glerárþorps. Ég hygg, að ég fari með rétt mál, þegar ég staðhæfi, að meginástæðan til þess, áð talið var sjálfsagt að sameina Glerárþorp og Akureyri, var óttinn við það, að íbúarnir í Glerárþorpi, sem langflestir stunda atvinnu sína í Akureyrarkaupstað, mundu illa settir, ef mjög harðnaði um atvinnu, og væru raunar nú þegar illa settir að vetrinum, þegar atvinna er litil í Akureyrarkaupstað. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér örfá orð, sem hv. þm. Ak. sagði um þetta mál, þar sem mér virðist það megi að mjög miklu leyti heimfæra upp á Reykjavík og Kópavog. Hv. þm. komst m.a. svo svo að orði:

„Nú hefur þetta verið þannig, að verkalýðsfélögin á Akureyri hafa frekar amazt við því, að verkamenn og sjómenn úr Glerárþorpi sæktu vinnu inn til Akureyrar. Það hefur eingöngu verið vegna þess, að á vetrum hefur alltaf verið þröngt um atvinnu á Akureyri og þá hefur þessi aðsókn verkamanna úr Glæsíbæjarhreppi orðið til þess að draga úr atvinnumöguleikum verkamanna í Akureyrarkaupstað.“

Og litlu síðar í ræðunni segir hv. þm.:

„Hins vegar er ekki því að neita, að Akureyrarkaupstaður hefur af því verulega hagsmuni að fá Glerárþorp innlimað, vegna þess að bærinn þarf í náinni framtíð á auknu landrými að halda, og því er ekki hægt að neita, að það er ákaflega eðlilegt, að þessir staðir séu eitt og sama sveitarfélagið. Það er eingöngu lítil árspræna, sem skilur þar á milli, og segja má, að hagsmunir þeirra manna, sem á þessum stöðum búa, falli að mestu leyti saman hvað atvinnu snertir.“

Þetta er í raun og veru kjarni málsins að því er varðar sambandið milli Kópavogs og Reykjavíkur: Hagsmunir manna þar falla mjög verulega saman að því er atvinnu snertir. Sérstaklega á þetta að vísu við um Kópavog. En þó er það einnig svo, að meðan svo margt er ógert hér í Reykjavíkurbæ og þar eru mörg fyrirtæki, sem hafa hagsmuni af því að njóta vinnuaflsins úr Kópavogshreppi, eru hagsmunirnir að mörgu leyti gagnkvæmir.

Ég hygg, að það sé í sjálfu sér ekki miklu meiri fjarstæða en það að gera Kópavog að sjálfstæðum kaupstað, ef einhver kæmi fram með þá hugmynd og legði jafnvel fram frv. um það hér á hv. Alþ. að gera einhver af þeim úthverfum Reykjavíkur, sem þegar eru sameinuð Reykjavík, að sérstökum kaupstað. Ég tala ekki um Seltjarnarnes, sem enn þá er sjálfstætt hreppsfélag. Þess vegna mætti í framhaldi af þessu alveg búast við því, að við fengjum bráðum frv. um Seltjarnarneskaupstað, Langholtskaupstað, Hlíðakaupstað o.s.frv.

Ég hygg, að því verði ekki á móti mælt, að öll rök hnigi þess vegna að því, að Kópavogur verði á sínum tíma sameinaður Reykjavík. Og ég hef þær fregnir sunnan úr Kópavogi, að þessi stefna eigi þar miklu fylgi að fagna. Um hug Reykvíkinga til þessa máls skal ég ekki margt segja. Á það hefur ekki reynt enn þá, þar sem um þetta efni hefur ekki komið fram nein ósk. En mér þykir þó líklegt, að af skynsemi og skilningi verði á þeim málum haldið, a.m.k. þegar breytt verður um bæjarstjórnarmeirihluta í Reykjavík, þótt ekki verði kannske fyrr.

Allir þeir, sem talað hafa í þessu máli, jafnt hæstv. forsrh. og þeir, sem frv. hafa andmælt, hafa lagt á það mjög verulega áherzlu, að kjósendurnir í Kópavogi eigi miklu og jafnvel mestu að ráða um það, hvernig skipað verður málum þess hreppsfélags. Undir þetta skal ég mjög fúslega taka. Það er aðeins skoðun mín, sem ég hef hér lýst, að það sé skynsamlegast og eðlilegast, að stefnt verði að sameiningu Kópavogs við Reykjavík, en ég mun að sjálfsögðu sem alþingismaður taka fullt tillit til vilja Kópavogsbúa, þegar hann liggur óvefengjanlega fyrir.

Nú mundu þeir, sem að þessu frv. standa, segja, að þetta liggi fyrir nú þegar, og benda þar á þá undirskriftasöfnun, sem fram hefur farið í hreppnum. Eins og kunnugt er, liggja hér í lestrarsal Alþ. nöfn 760 manna, sem taldir eru kjósendur þar í hreppi. Það hefur hins vegar verið vefengt, að allir þeir, sem undir þessi skjöl hafa skrifað, séu á kjörskrá í hreppnum, og játað hefur verið, að a.m.k. einhver brögð séu að því, að aðrir hafi undirritað þessi skjöl en þeir, sem kosningarrétt hafa í Kópavogshreppi. Þeir, sem andmælt hafa þessu frv., hafa fullyrt, og ég hygg, að þær upplýsingar séu frá hreppsyfirvöldum á staðnum, að eitthvað á þriðja hundrað þeirra, sem undir skjölin hafa skrifað, sé ekki á kjörskrá í hreppnum. Um þetta get ég að sjálfsögðu ekkert sagt og skal engar fullyrðingar hafa í frammi um það, hvort hér er rétt frá skýrt eða ekki, en það hlýtur að verða verkefni þeirrar hv. þn., sem málið fær til meðferðar, að kanna þetta. En í þessu sambandi vil ég benda á það, að á hausnum á undirskriftaskjalinu, sem þessir 760 menn hafa undirritað og sent Alþ., er í síðustu setningunni dálítið einkennileg klausa, sem að vísu var aðeins vakið máls á hér í dag, en ég vil þó leyfa mér að vekja alveg sérstaka athygli á, vegna þess að ég tel, að hún skipti nokkru máli. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa stuttu setningu. Þar segir ofan við áskrifendanöfnin:

„Við undirritaðir kjósendur í Kópavogshreppi skorum hér með á hið háa Alþingi að gera núverandi Kópavogshrepp að sérstöku lögsagnarumdæmi með fullum kaupstaðarréttindum á þingi því, er nú situr, enda rýrir það ekki möguleika á sameiningu við Reykjavík síðar meir.“

Það eru þessi síðustu orð, sem ég tel fulla ástæðu til að vekja nokkra athygli á. Ég hygg, að það sé enginn efi á því, að þessi klausa er þarna inn komin til þess að friða þá menn, sem í raun og veru vilja ekkert annað en sameiningu við Reykjavíkurkaupstað. Ég hef allgóðar heimildir fyrir því, eins og ég áður sagði, að þeir menn í Kópavogshreppi, sem það vilja, séu margir, og það getur ekki verið önnur ætlun þeirra, sem þetta hafa samið, en að reyna að notfæra sér þann vilja sér til framdráttar í sambandi við undirskriftasöfnunina.

Nú er það alveg vafalaust, að ég hygg, og má færa fyrir því mörg rök, að verði Kópavogur gerður að sérstökum kaupstað með fullum bæjarréttindum, þá hlýtur það að tefja mjög verulega fyrir því, að hann sameinist Reykjavík. Það þarf ekki að fara um þetta efni mörgum orðum. Það má aðeins benda á, að þarna mundi þegar koma upp töluvert embættismannalið, sem sennilega mundi heldur vera því andvígt, þegar til kæmi, að farið yrði að leggja kaupstaðinn niður og sameina hann Reykjavík, og þá mundu Kópavogur og ríkið standa uppi með nokkra embættismenn, sem yrði þá að setja annaðhvort á biðlaun eða eftirlaun, þegar til þess kæmi, að úr sameiningu yrði.

Þá hef ég einnig talað við góða og gegna menn úr Kópavogshreppi, þ. á m. einn mann, sem er alger andstæðingur núverandi bæjarstjórnarmeirihluta í landsmálum, og hann fullyrti við mig, — það eru að vísu hans orð, sem ég hef enga aðstöðu til þess að gera að mínum, — að þessi síðasta klausa í sambandi við undirskriftirnar hafi verið notuð mjög mikið og, að því er hann vildi telja, mjög freklega misnotuð. Það er að sjálfsögðu erfitt að færa sönnur á slíkt og kannske ógerlegt, en þessi maður taldi sig þó hafa fyrir þessu algerlega öruggar heimildir. Og ef það er rétt, að reynt hafi verið að fá menn til þess að skrifa undir þetta áskriftaskjal á þeim forsendum, að það mundi a.m.k. ekki seinka, heldur jafnvel flýta fyrir sameiningu við Reykjavíkurkaupstað, þá sé ég ekki betur en það séu svo alvarlegir hlutir í sambandi við það að fá fram vilja meiri hluta kjósenda, að það jafngildi fyllilega því, þó að fengnir hafi verið einhverjir til undirskriftar, sem ekki eru á kjörskrá.

Ég hygg, að hér beri allt að sama brunni, að þar sem vefengt hefur verið með nokkrum rökum a.m.k., að ótvíræður vilji kjósenda í Kópavogshreppi í þessu máli hafi komið fram, þá sé sjálfsagt fyrir hv. Alþingi að bíða eftir því, að úrskurður um þetta falli óvefengjanlega.

Nú hefur það verið tilkynnt af yfirvöldum hreppsins, að almenn leynileg atkvæðagreiðsla um þessi mál fari fram eftir þrjár vikur, og ég sé ekki, að það sé minnsta ástæða til þess fyrir Alþingi að fara að hraða þessu máli, áður en úrslit þeirrar atkvgr. liggja endanlega fyrir.

Við vitum það, sem hér sitjum á þingi, að mörg mál liggja hjá nefndum og bíða þar afgreiðslu, sum nokkurn tíma, koma þá, eftir að þau hafa verið allrækilega athuguð, önnur sofna kannske í nefndum algerlega. Ég held, að það séu rétt og skynsamleg vinnubrögð í þessu tilfelli, án þess að ég vilji gerast talsmaður þess almennt, að mál sofi allt of lengi í nefndum, að þetta frv. fái nú dálítinn blund í þeirri hv. nefnd, sem því verður vísað til, og það verði a.m.k. ekki vakið fyrr en óvefengjanlega liggur fyrir vilji kjósenda í Kópavogshreppi, sem á að fást nú eftir þrjár víkur í leynilegri atkvgr. Ég vil í þessu sambandi hafa svo sterk orð, að þar sem þessi atkvgr. hefur verið ákveðin, þá sé það hreint og beint vansæmandi fyrir hv. Alþingi að ljúka afgreiðslu þessa máls, áður en úrslít atkvgr. liggja fyrir.