18.04.1955
Neðri deild: 73. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

178. mál, bæjarstjórn í Kópavogskaupstað

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forsetl. Fjhn. hefur klofnað í þessu máli, og meiri hl. n. leggur til á þskj. 590, að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl., Hannibal Valdimarsson, telur málið ekki tímabært og mun gera grein fyrir sinni sérstöðu í málinu.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er að vísu svo, að það er allmikill ágreiningur um þetta mál, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé almennt kunnugt um. Fjhn. fékk hreppsnefnd Kópavogshrepps á sinn fund til þess að ræða við hana um málið, og gerðu þeir grein fyrir sínum sjónarmiðum, hæði fulltrúar meiri og minni hl. í hreppsnefndinni. Hins vegar er það svo, að hér hafa verið lögð fram eða þinginu send undirskriftaskjöl frá íbúum Kópavogshrepps, sem munu vera komnir á 9. hundrað núna, sem óska eftir því, að Kópavogshreppur fái kaupstaðarréttindi eða verði breytt í kaupstað.

Því er haldið fram af meiri hluta hreppsnefndar, að það séu svo og svo margir af þessum íbúum, sem í raun og veru gætu ekki verið atkvæðisbærir um þetta, vegna þess að þeir séu ekki eða eigi ekki að vera á kjörskrá, sem nú á að vera tilbúin og samin, eftir því sem oddvitinn segir, lögum samkvæmt, en hreppsnefnd Kópavogshrepps hefur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu í hreppnum n.k. sunnudag um það tvennt, hvort kjósendur þar óski eftir, að Kópavogur öðlist kaupstaðarréttindi, og hvort íbúarnir óski eftir sameiningu við Rvík.

Ég vil ekki blanda mér neitt inn í þær deilur, sem milli þeirra innbyrðis standa um gildi þessarar kjörskrár og gildi þeirra undirskriftalista, sem hér hafa verið lagðir fram. Það kann kannske að vera eitthvert misræmi í því, sérstaklega vegna þess, hvernig þessi skjöl eru til orðin, kjörskráin og undirskriftirnar. En það liggur þó í augum uppi, að það mun aldrei verða mikið frávik frá því, að þessir rúmlega 800 undirskrifendur séu þannig lagað atkvæðisbærir, að þeir hafi átt og eigi búsetu í Kópavogshreppi nú, og munu flestir hafa átt við síðasta manntal þar, en kjörskráin, sem gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslan fari eftir, er samin eftir manntali 1953 í samræmi við gildandi ákvæði um sveitarstjórnarkosningar.

Af því tilefni, að efnt hefur verið til þessarar atkvæðagreiðslu, spurðist heilbr.- og félmn. fyrir um það, hvort hreppsnefndin gæti ekki eða mundi ekki vilja einskorða atkvgr. við þetta mál, sem hér liggur fyrir þinginu. En meiri hl. hreppsn. var ákveðið á móti því, og eftir að n. spurðist einnig fyrir um það, hvort hreppsn. væri þá kunnugt um viðhorf Reykjavíkur til sameiningar, þar sem um það væri spurt annars vegar, þá var því lýst yfir af oddvitanum, að hann óskaði ekki eftir að taka upp viðræður eða leita umsagnar Reykjavíkur um það fyrr en fyrir lægi vitneskja um það, að meiri hl. hreppsbúanna óskaði eftir slíkri sameiningu.

Meiri hl. í heilbr.- og félmn. þótti hins vegar ástæða til þess af sjálfsdáðum að reyna að afla upplýsinga um það atriði, hvernig viðhorf Reykjavíkurkaupstaðar væri í þessu sambandi, og eins og fram kemur í nál., hefur verið leitað umsagnar bæjarráðs um þetta atriði. Er þess að vænta, að það berist þinginu undir meðferð málsins. Meiri hl. skilaði hins vegar sínu nál., m.a. vegna þess, að nú er orðið svo mjög liðið á þing, að það er brýn nauðsyn að hraða þingstörfum og afgreiðslu mála. Mér þykir sennilegt, að fjallað verði um þetta atriði á bæjarráðsfundi, sem halda á á morgun.

Um málið sjálft eða efni frv. hefur enginn ágreiningur verið, ekki komið fram hér innan þingsins og ekki heldur í þingnefndinni, heldur aðeins um það atriði út af fyrir sig, hvort eðlilegt sé að veita nú með löggjöf Kópavogshreppi kaupstaðarréttindi. Efni frv. mun einnig vera samið í samræmi við það, sem tíðkast í slíkum efnum og hefur tíðkazt áður, þegar hreppum hefur verið breytt í kaupstaði.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að hafa fleiri orð um þetta, en meiri hl. n., eins og fram kemur á þskj. 590, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.