03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

193. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Það hefur tíðkazt nú undanfarin ár að gera breytingar á vegalögum á 3–4 ára fresti. Snemma á þessu þingi komu fram tvö frv. um breyt. á þeim lögum í hv. Nd. og í þessari hv. d. Þessum frv. fylgdu síðan margar brtt., þannig að óskir um upptöku á nýjum þjóðvegum komu nærfellt úr hverju einasta héraði landsins. Þessum frv. ásamt brtt. var báðum vísað til samgmn. í hvorri d. um sig. En sá háttur hefur verið á hafður og var nú einnig upp tekinn, að samgmn. beggja deilda mynduðu eina nefnd, svokallaða samvinnunefnd samgöngumála, og tók hún öll þessi mál til meðferðar. Nefndin átti marga fundi um þessi mál, og þá fundi sat vegamálastjóri. Einnig mætti hæstv. samgmrh. á fundum n., og það varð úr, að nefndirnar komu sér saman um að breyta vegalögunum í þetta sinn og taka upp nýja vegakafla í þjóðvegatölu. Var þá hafður sá háttur á, að vegamálastjóri vann úr þeim tillögum, sem fyrir voru, og gerði tillögur um, hverja nýja vegi skyldi upp taka í lögin. Úr þessu vann síðan samvinnunefndin og breytti nokkuð till. vegamálastjóra, í þá átt helzt að auka við hans tillögur. Þá var haft samráð og talað við alla hv. þm., sem flutt höfðu frumvörpin og breytingartillögurnar, og reynt að komast að samkomulagi við þá, þannig að út úr þessu mætti koma heilt frv., sem báðar samgmn. stæðu að, og fyrir fram nokkuð tryggt, að ekki kæmi mikið af brtt. við frv., þegar það loks kæmi fram.

Niðurstaða þessa alls var það, að n. samdi frv. í samráði við vegamálastjóra, elns og ég gat um, og síðan var það flutt í hv. Nd. af samgmn. þar og hefur nú náð samþykki deildarinnar með einni lítils háttar breytingu. Og þannig er frv. komið hingað fyrir þessa hv. d. og hefur verið hér til 1. umr. Samgmn. þessarar hv. d. hefur tekið það enn á ný til athugunar, þar sem því var vísað til hennar að lokinni 1. umr.

Vegna þeirrar breytingar, sem samþ. var í hv. Nd., þótti rétt, að nefndirnar ættu sameiginlegan fund um málið, og var það gert. Varð niðurstaðan sú, að n. lagði einróma til, að frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 661 eða eins og það kom frá hv. Nd.

Því er ekki að neita, að margir hv. þm. hafa undir meðferð þessa máls slegið töluvert af kröfum sínum um nýja vegi í sínum héruðum. Kröfurnar um nýja vegi voru í byrjun samkvæmt frv. og öllum brtt. eitthvað um 1200 km að lengd. En samkvæmt þessu frv., sem nú liggur hér fyrir og samgmn. Nd. bar fram, voru það um 866 km, sem gerð var till. um að yrðu teknir upp í lögin. Þarna er um að ræða á fjórða hundrað km, sem hv. þm. hafa slegið af sínum fyrstu og upphaflegu óskum um nýja þjóðvegi, og var þetta gert til samkomulags, því að þessu máli er þann veg háttað, að ef ekki væri reynt að ná samkomulagi um málið í heild með nefndarstarfi og viðtali við flm., þá mundi það vera nokkuð mikið tilviljanakennt, hvernig það yrði að lokum samþykkt. En því er ekki að neita, að menn hafa gefið eftir af kröfum sínum til þess að ná samkomulagi, sleppt vegum, sem þeir hefðu gjarnan óskað eftir að hafa. En það eru einlæg tilmæli samvinnunefndarinnar og samgmn. þessarar hv. d., að frv. verði samþykkt eins og það er á þskj. 661.

Það er orðið áliðið þings, það eru aðeins nokkrir dagar eftír, þangað til því verður slítið, og ef það færu að koma fram brtt. núna við frv. og það yrði þess vegna að fara aftur fyrir hv. Nd., er mjög hætt við því, að afleiðingin gæti orðið sú, að frv. næði ekki fram að ganga, og væri það ekki gott. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. þm. yfirleitt óskuðu eftir því, að þau yrðu örlög þessa máls, þar sem búið er að hafa þetta mikið fyrir því og þetta er mikið áhugamál um allt land og hefur þegar verið gefið út, hvernig frv. er í heild, svo að ég veit, að það yrðu vonbrigði mikil, ef þetta færi þannig, að það dagaði upp. En á því getur orðið nokkur hætta, ef svo færi, að brtt. yrðu samþ. hér í þessari hv. d. og það yrði að fara aftur til Nd.

Ég veit nú ekki, hvort ástæða er til fyrir mig að vera að fara mikið út í þetta mál sérstaklega. Mönnum er það mjög kunnugt, og breytingarnar á vegalögunum eru sem sagt eingöngu fólgnar í því að bæta nýjum vegum við þjóðvegina, sem ég gat um áðan að væru 866 km eða rúmlega það. Verða þá þjóðvegirnir að þessu frv. samþykktu rúmlega 8 þús. km — 8209 — í stað þess að þeir eru núna 7343 km. Eins og hv. þm. hafa veitt athygli, þá er 2. gr. laganna prentuð alveg upp á þskj. 661, og þar eru allir vegir, bæði þeir, sem fyrir voru í þjóðvegatölu, og eins viðbótin, sem nú er hugsað að komi inn. En allir nýir vegir eru prentaðir með gleiðara letri en gömlu vegirnir, þannig að menn geta áttað sig á, um leið og þeir lesa frv., hvaða vegir eru nýir og hvar þeir eru.

Þá er önnur breyting sem felst í frv., og það eru nýbýlavegir. Hingað til mun það hafa verið þannig, að nýbýlasjóður hafi lagt þessa vegi og greitt þá eins og hvern annan kostnað við ræktun landa nýbýlanna, en nú er með þessu frv. gert ráð fyrir, að nýbýlavegir, sem nauðsynlega þarf að gera, þar sem nýbýlaþorp er að risa upp, verði lagðir af ríkinu, verði sem sagt þjóðvegir, en eftir að þeir eru fullgerðir og nýbýlahverfið er tekið til starfa, sé viðkomandi sýslu skylt að taka þessa vegi upp í sýsluvegatölu og annast viðhald þeirra ásamt ríkissjóði á venjulegan hátt. Um þetta hafði komið fram sérstök brtt. í hv. Nd., og var hún tekin upp í frv. að ráði og með samþykki vegamálastjóra.

Þá hefur einnig verið gerð breyting um fjarlægð girðinga frá þjóðvegum. Það er þannig, að girðingu, sem er úr sléttum vír eða vírneti, má ekki setja nær alfaravegi um óræktað land en 4 m frá vegarbrún og ekki nær en 2 m um ræktað land. Nú mun þetta vera 1 metri og 2 metrar. Gert er ráð fyrir, að fjarlægðin aukist. Girðingar úr gaddavír mega ekki vera nær vegarbrún en 8 m. Sömuleiðis er ákvæði um, að ekki megi reisa hús nær vegarbrún en 10 m frá þjóðvegi eða sýsluvegi, og sýsluvegum yrði þá bætt inn með það fyrir augum, að mikið af sýsluvegum, þegar þeir eru komnir vel á veg og búið að gera þá nokkuð góða, verði þjóðvegir og ekki ástæða til þess, að þeir sæti öðru um þetta en þjóðvegirnir. En fjarlægðin á þessum girðingum er einkum sett vegna þess, að þær liggja töluvert mikið undir skemmdum, þegar snjóar eru, og einkanlega t.d. þar sem þarf að ryðja snjó af vegi á veturna, eru girðingarnar hálfpartinn í kafi og eyðileggjast töluvert mikið þessa vegna, og ætti þess vegna ekkert að vera á móti því að færa þær svolítið frá, þó að það hafi samt óneitanlega nokkra skerðingu á landi í för með sér fyrir eigendur landsins, þar sem viðkomandi girðingar standa.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á fróðlegar skýrslur, sem fylgja frv. og vegamálastjóri hefur látið gera. Er það um lengd þjóðvega eins og þeir eru núna og einnig sýsluvega, og þetta er sýnt á mjög glöggu fylgiskjali, þar sem er linnrit á bls. 10 á þskj. 604. Þar má sjá lengd þjóðvega í hverri sýslu, einnig sýsluvega og hreppavega eins og þeir eru núna. Einnig er þar í línuritum sýnd lengd þjóðvega og sýsluvega árið 1937. Þetta ætti að vera töluverð leiðbeining um það, hvernig vegir skiptast á milli sýslna, þó að það sé nú e.t.v. ekki hægt að sjá það nákvæmlega á þessu línuriti, því þó að ein sýsla sé e.t.v. með langa vegi hér á móti öðrum, þá getur hún verið þannig ger ð, að vegaþörf sé miklu meiri í henni en annarri sýslu, sem e.t.v. hefur helmingi styttri vegi, svo að þetta er ekki að því leyti til nákvæmur mælikvarði, sem hægt er að reikna með. En það er ýmislegt annað, sem hægt er að lesa út úr þessari skýrslu, t.d. hvað þjóðvegirnir eru mörg prósent í viðkomandi sýslum miðað við alla vegalengdina, hvað sýsluvegir eru langir, miðað við þjóðvegatölu í viðkomandi sýslum, og er þetta mjög misjafnt, sem virðist benda á það, að sýslur leggi mismikið á sig til þess að koma vegum sínum áfram. Allar gera þær það mjög mikið, því að öllum er það ljóst og allir vita það, hver lífæð samgöngurnar eru orðnar í okkar þjóðfélagi og hversu mikil nauðsyn er á, að vegasambönd séu heim á hvern bæ. Það er óhætt að segja það, að þar sem um mjólkurframleiðslu er að ræða úti um sveitir landsins, að þar er sem sagt það býll, sem ekki hefur nokkurn veginn öruggt vegasamband, því nær óbyggilegt, þar sem afsetja þarf afurðirnar á hverjum einasta degi og koma þeim á markaðsstað.

Ég held, að ég fari svo ekki fleiri orðum um þetta mál. Ég álít, að það sé ekki þörf á því að ræða um það almennt, mönnum er það svo vel kunnugt, eins og ég hef getið um. Það þekkir hver maður það, sem hann hefur verið með viðvíkjandi þessu máli. Sumir eru e.t.v. ekki ánægðir yfir því, að þeir hafa ekki fengið alla þá vegi, sem þeir óskuðu eftir, en þrátt fyrir það vil ég ítreka þau tilmæli samgmn. þessarar hv. d. og sömuleiðis samgmn. hv. Nd., þ.e. samvinnunefndarinnar, að frv. nái samþykki eins og það liggur nú fyrir prentað á þskj. 661.