28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar d. hefur haft frv. þetta til athugunar og ekki orðið sammála. 4 nm. leggja til, að frv. verði samþykkt, en ég hef gefið út sérstakt nál. sem minni hl. n. og komizt að gagnstæðri niðurstöðu, legg til, að frv. verði fellt.

Ég hef þegar við 1. umr. þessa máls bent á það, að til þess að það geti verið réttlætanlegt, að félag sé undanþegið þeim skattálögum, sem lagðar eru á aðra sambærilega aðila í þjóðfélaginu, verður annaðhvort að vera fyrir hendi, að um sé að ræða fjárþröng hjá viðkomandi félagi og því sé þetta gefið eftir sökum fátæktar, eða hitt, að viðkomandi félag leysi svo óumdeilanlega þjónustu af hendi við þegna þjóðfélagsins almennt, að það geti réttlætt frávik frá hinni almennu reglu.

Ekki get ég séð, að þetta sé óumdeilanlega fyrir hendi hvað varðar Eimskipafélag Íslands. Ég get einnig vitnað til þess, að í frv., sem er til afgreiðslu hér í þinginu núna um tekju- og eignarskatt, er gert ráð fyrir því, að hlutafélögum sé almennt gefinn 20% afsláttur frá gildandi skattstiga skattalaganna, og mundi Eimskipafélagið að sjálfsögðu koma undir það ákvæði. Enn fremur eru í gildi um slík félög lög, sem heimila þeim að afskrifa mjög mikið ný skip, þ.e.a.s. fyrstu 3 árin, og hluti af tekjum Eimskipafélagsins, sem annars væru skattskyldar, losnar undan skatti sökum þeirra ákvæða. Ég sé þess vegna alls ekki, að fyrir hendi séu þær forsendur, sem nauðsynlegar hljóta að teljast eða skynsamlegar, til þess, að skattfrelsi félagsins verði samþykkt hér í þinginu. Það má að sjálfsögðu margt ágætt um Eimskipafélag Íslands segja, en sem betur fer er það nú rannar ekki eina hlutafélagið í landinu, sem sitt hvað má segja gott um. En efnahagur félagsins gefur ekki tilefni til þess, að undanþága sé veitt, og þjónusta félagsins er ekki heldur gagnrýnislaus, hvorki að því er snertir skipulag flutninganna né heldur farmgjöldin.

Þess vegna hef ég lagt til, að frv. verði fellt. En þar sem ég sé af samstöðu þriggja stjórnmálaflokka í hv. fjhn., að ekki eru miklar líkur til þess, að frv. verði fellt, þá mun ég greiða atkvæði brtt., sem fram hafa komið við þetta mál, frá hv. 8. landsk. og hv. 8. þm. Reykv., þar sem gert er ráð fyrir, að Eimskipafélaginu verði gert að greiða 8% í skatt af skattskyldum tekjum sínum, en það mun vera nokkru minna en tíðkast um sambærileg félög. Til vara mun ég greiða þeirri till. atkvæði.