03.05.1955
Efri deild: 78. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skattgreiðslu h/f Eimskipafélags Íslands er ekki nýtt, því að lögin, sem verið er að framlengja, eru upprunalega lög nr. 33 7. maí 1928. Þau giltu um tiltekinn tíma og hafa jafnan síðan verið framlengd. En áður en þau lög voru selt, voru til lög um skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands, mjög svipuð, — ég man ekki, hvort þau voru sett 1924 eða 1925, það mun hafa verið annað hvort það ár, og komu þessi lög í staðinn.

Það verður ekki séð, að það séu neinar breyttar ástæður fyrir hendi frá því, sem verið hefur, að því er snertir Eimskipafélag Íslands, hlutverk þess og verkefni í þágu alþjóðar, og þess vegna hefur fjhn. þótt rétt að mæla með því, að þetta frv. yrði samþ. óbreytt, og það því fremur sem skattalögin eru enn í rannsókn og athugun, svo sem kunnugt er, og þá ekki hvað sízt sá hluti skattalaganna, sem fjallar um skattgreiðslu félaga, hlutafélaga, samvinnufélaga og annarra félaga, og virðist þegar af þeirri ástæðu einsýnt að hafa þessi ákvæði um skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands óbreytt, þar til þeirri endurskoðun er lokið.

Þegar n. afgr. málið, var einn nm., hv. 4. þm. Reykv. (HG), fjarstaddur, og hefur hann því að sjálfsögðu óbundnar hendur í þessu máli, en till. hinna fjögurra nm. er sú, sem ég þegar hef greint.