05.05.1955
Efri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

122. mál, kirkjubyggingasjóður

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 744 ber með sér, hef ég skrifað undir það og mælt með samþykkt þessa frv. án nokkurs fyrirvara. En mér þykir samt rétt að segja nokkur orð um þetta mál.

Eins og hv. frsm. gat um, er hér um að ræða breyt. á l. um kirkjubyggingasjóð. Lög um kirkjubyggingasjóð voru samþykkt á árinu 1954, og upphaflega voru þau borin fram þannig, að stofna skyldi kirkjubyggingasjóð og að ein millj. króna skyldi árlega lögð til sjóðsins úr ríkissjóði fyrstu 5 ár frá því að lögin tækju gildi, síðan háif miljón í næstu 15 ár, þannig að á 20 árum yrði sjóðurinn búinn að fá frá ríkissjóði 121/2 millj. kr. í meðförum þingsins breyttist þetta á þann hátt, að ákveðið var, að ríkissjóður legði 1/2 millj. kr. á ári til sjóðsins í 20 ár og byrjaði á árinu 1955. Með þessu var upphaflega upphæðin færð niður um 21/2 millj. kr., og er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Vitanlega minnkuðu með þessu möguleikar sjóðsins til þess að gegna hlutverki sínu, þ.e. að hjálpa söfnuðum landsins að byggja kirkjur sínar. En lögin um kirkjubyggingasjóð voru miðuð við safnaðarkirkjur eingöngu, og var það hugsun flm., að bændakirkjur, þ.e. kirkjur, sem eru í einkaeign, fengju ekki lán úr sjóðnum, nema þær yrðu eign safnaðanna. Var hugmyndin með þessu að ýta undir það, að söfnuðirnir tækju kirkjurnar að sér og smám saman yrðu allar kirkjur á landinu eign safnaðanna. En það er ekki svo enn. Svo sem segir í aths. við frv. þetta á þskj. 255, eru 30 kirkjur á landinu enn í bændaeign. Nú er með þessu frv. gert ráð fyrir, að þessar kirkjur skuli njóta lána úr kirkjubyggingasjóði. Ég vil geta þess, að nú liggja fyrir hjá stjórn kirkjubyggingasjóðs frá kirkjum, sem rétt eiga á lánum samkvæmt lögum um kirkjubyggingasjóð, umsóknir, sem nema 2 millj. kr. Þetta segir, að tillag næstu 4 ára fer til að anna þeim lánbeiðnum, sem nú þegar liggja fyrir. Þessar upphæðir eða umsóknir frá kirkjunum eru miðaðar við það, að þeim séu veitt lán nákvæmlega eftir því, sem frv. segir til um, og er það ekki nema lítill hluti af byggingarkostnaði kirknanna. Þar sem þetta liggur nú fyrir, þá er augljóst, að samþykkt þessa frv. mundi hafa það í för með sér að draga úr getu sjóðsins að styðja að kirkjubyggingum í landinu. En þar sem hér er aðeins um heimild að ræða, og gera má ráð fyrir, að stjórn kirkjubyggingasjóðs láti safnaðarkirkjur ganga fyrir um lán, verða lög þessi að litlu gagni fyrir þær kirkjur, sem hér er um að ræða, nema sjóðurinn verði efldur frá því, sem nú er. Ég vakti máls á þessu við meðferð málsins í menntmn. Ég lýsti þá yfir, að ég vildi ekki verða til þess að mæla á móti því, að þetta frv. yrði samþykkt, m.a. vegna þess, að mér þykir það ekki óeðlilegt og getur verið í mörgum tilfellum nauðsynlegt að hjálpa þeim bændum, sem eiga kirkjur, að endurbyggja þær. En ég vildi láta þetta álit mitt og þessi orð mín koma fram hér til þess að undirstrika það, að til þess að þetta frv. nái tilgangi sínum, þ.e., að mögulegt verði að veita bændakirkjum lán úr kirkjubyggingasjóði auk safnaðarkirkna, sem hann var upphaflega settur til að gera, þarf vitanlega aukið fé í sjóðinn, a.m.k. fyrstu starfsárin, og ég vil láta þá einlægu ósk mína í ljós við þessa umr. núna, að þeir hv. þm., sem hafa beitt sér fyrir því að koma þessu frv. fram, verði hjálplegir um það, að sjóðurinn fái auknar tekjur og það strax á næsta ári, því að eins og ég hef tekið fram, nær þetta frv. þeirra ekki tilgangi sínum, nema aukið fé fáist til sjóðsins og hann verði þess umkominn að gegna hinu merka hlutverki sínu að styðja að kirkjubyggingum í landinu.