22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég held, að hv. þdm. hljóti að vera nokkuð hissa á öllu því moldviðri, sem þyrlað hefur verið upp í kringum þetta svokallaða brunamál. Í fyrsta lagi er því haldið fram af andstæðingum frv. um Brunabótafélag Íslands, að það sé verið að lögfesta einkarétt Brunabótafélagsins, og það meira að segja tekið fram í áliti hæstv. félmrn., að það sé núna verið að viðhalda þeim einkarétti, sem Brunabótafélagið hefur haft. Núna um helgina fæ ég tóninn norðan frá Akureyri í höfuðmálgagni Framsfl. þar, þar sem þessu er jafnframt haldið fram, að Sjálfstfl. og aðrir flokkar hér í þinginu séu að tryggja það, að Brunabótafélagið geti áfram haft þann einkarétt, sem það hefur haft. Í öðru lagi er hamazt á móti því, að tryggjendurnir sjálfir fái að stjórna Brunabótafélagi Íslands. Maður á dálítið erfitt með að skilja þessa afstöðu, að verið sé að læða því inn hjá íbúum þessa lands, að það sé verið að halda við einhverri einkasölu, sem alls ekki er, og svo í öðru lagi, að það sé stórkostlega hættulegt, að þeir menn, sem koma til með að skipta við Brunabótafélagið, ráði því sjálfir. Ég vildi aðeins láta þessi tvö atriði koma fram.

Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, vil ég svo aðeins taka það fram, vegna þess að ég átti sæti í þeirri n., sem vann að þessum málum, að meiri hluti nefndarinnar leit svo á, að það væri heppilegra, að sveitarfélögin önnuðust tryggingar í umdæmum sínum, húseigendur mundu með því móti komast að hagstæðari kjörum, a. m. k. þegar til lengdar léti. Og ég vil benda á það, að með þessu er einmitt verið að halda við því fyrirkomulagi, sem verið hefur. Þar til lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur voru sett í fyrra, önnuðust sveitarfélögin hjá Brunabótafélagi Íslands allar tryggingar á húseignum sínum, og með lögunum í fyrra um brunatryggingar utan Reykjavíkur, þar sem gert er ráð fyrir því, að sveitarfélögin geti eftir 15. okt. 1955 hætt að tryggja hjá Brunabótafélaginu, er því einmitt slegið föstu, að það „prinsip“ eigi að ráða, að sveitarfélögin sjái um tryggingar húseigna sinna. Það er því alls ekki um neitt nýtt fyrirkomulag að ræða.

Hv. 1. þm. Árn. vék að því áðan, að það hefðu verið nokkuð óhagstæð viðskipti við Brunabótafélag Íslands á undanfarandi árum. Ég leyfi mér að vefengja þessi orð hv. þm. Ég held einmitt, að Brunabótafélag Íslands, miðað við þær aðstæður, sem verið hafa, hafi staðið sig vel. Og það er ekki alls kostar rétt, þegar verið er að ræða um iðgjöldin, að bera saman brunatryggingariðgjöld hér í Reykjavík og úti á landi, vegna þess að brunavarnir hér í Reykjavík eru komnar langt fram úr því, sem þær eru nokkurs staðar annars staðar á landinu. Það er því eðlilegt, að iðgjöldin utan Reykjavíkur hafi verið allmiklu hærri en hér í bænum. Annars vildi ég í sambandi við þetta atriði benda á þskj. 771, sem lá fyrir Alþ. í fyrra, þar sem einmitt er gerð mjög ýtarleg grein fyrir þessum málum frá Brunabótafélaginu sjálfu. Þessi grg. er það ýtarleg, að ég held, að eftir að menn hafa kynnzt efni hennar, hljóti þeir að komast að raun um það, að ýmsar ásakanir í garð Brunabótafélags Íslands séu ekki á rökum byggðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég er búinn að tala nokkuð oft í því, en ég held, að meiri hl. n. hafi markað réttu stefnuna í þessum málum.