22.02.1955
Neðri deild: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

141. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. talaði mikið um skerðingu á frelsi einstaklingsins, um það frelsi, sem einstaklingurinn væri sviptur með frv. um Brunabótafélag Íslands, og varpaði í því sambandi fram þeirri spurningu til mín, hvernig mér litist á, ef það frelsi yrði nú af tekið á Íslandi, að hver maður gæti verzlað, og verzlunin væri fengin í hendur ríkinu eða jafnvel S. Í. S., sem ég tel nú öllu betri aðila í því efni en ríkið. — Ég vil í þessu sambandi benda á, að ég lagði þunga á það, að með sameiginlegum tryggingum væri betur séð fyrir hagsmunum einstaklinganna en ef þeir semdu hver í sínu lagi. Hagsmunum þeirra er betur borgið. En ég segi: Ef sú frelsisskerðing í verzluninni ætti fram að fara, sem hv. þm. talaði um, þá væri miklu verr séð fyrir hagsmunum einstaklinganna í landinu heldur en nú er. Þess vegna er þetta ekki sambærilegt, annað er hagkvæmt, hitt ekki. Ef ríkið eða Sambandið eitt ætti að fara að sjá um alla verzlunina, myndaðist slíkt vandræðaástand hér, að ólifandi væri í landinu á eftir. Mætti segja, að með því væri verið að fara úr öskunni í eldinn, og getur því ekki verið neitt sambærilegt yið framkvæmd, sem sér betur fyrir hagsmunum einstaklinganna en áður.

Hv. þm. sagði, að það væri alveg óviðunandi frelsissvipting, að menn hafi ekki fullt ráð á því, — hvernig og hvar þeir tryggðu fasteignir sínar. Það má segja, að um margt sé einstaklingurinn sviptur frelsi í ýmsum greinum. Mundi hv. þm. ekki kalla það skerðingu á frelsi einstaklingsins, að hann skuli þurfa að vera bundinn í bæjarfélagi eða þjóðfélaginu, að hann megi ekki valsa eins og honum lízt? Það má segja, að þetta sé út af fyrir sig frelsisskerðing, en þessa frelsisskerðingu hefur einstaklingurinn sjálfur lagt á sig til þess að mega búa í þjóðfélaginu. Einstaklingurinn afhendir frelsi sitt á ýmsan hátt í hendur ríkisins, í hendur bæjarfélagsins, til þess að samfélag mannanna geti gengið betur en verða mundi, ef hver höndin væri upp á móti annarri. Það má t. d. segja, að einstaklingarnir í þessu bæjarfélagi, hér í Reykjavík, afsali sér frelsi að mega byggja eins og þeim þóknast sjálfum að byggja. Þeir verða að senda umsóknir sínar til byggingarnefndar, sem segir þeim, hvernig þeirra hús eigi að líta út. Er þetta ekki frelsisskerðing? Jú, vissulega er það frelsisskerðing. En það er frelsisskerðing, sem borgarinn sjálfur hefur með opnum augum og glöðu geði afsalað til bæjarfélagsins. Er það ekki líka frelsisskerðing, að hver húseigandi megi ekki hafa eigin skólpleiðslu? Vissulega er það frelsisskerðing. En það er öllum bannað, a. m. k. hér í Reykjavík, að hafa hver sína skólpleiðslu. Vegna hvers? Vegna þess að það er hættulegt fyrir samfélagið, ef slíkt væri gert. Þess vegna hefur borgarinn afsalað sér þessum rétti. — Þetta snýr að heilsulegri sambúð manna, en það, sem við erum að ræða um hér, snýr að hagsmunum manna. Hér í Reykjavík hafa menn, eins og ég gat um áður, afsalað sér frelsinu til þess að semja sjálfir um brunatryggingar á húsum sínum. Þeir gera það nú með glöðu geði og kemur ekki til hugar að fara fram á að endurheimta þetta frelsi. Og það er vegna þess, að frelsisskerðing þessi hefur borið þann árangur, að ekki einn einasti húseigandi í Rvík lætur sér detta í hug, að hann geti sjálfur hjá nokkru vátryggingarfélagi í Rvík fengið tryggða sína húseign fyrir það verð, sem hann getur með þátttöku í samvinnu borgaranna á þessu sviði. Hví skyldi þetta ekki geta reynzt eins úti á landsbyggðinni? Hví skyldi ekki sama gilda þar um þá hagsmuni, sem hér er um að ræða? Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það verður svo. Rök hv. þm. um, að einstaklingarnir séu sviptir frelsi, falla niður dauð og ómerk, því að hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Þessar umræður minna mig á gömlu söguna um stafaknippið. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hv. þm. vilji leggja hvern einstakling um hné voldugra tryggingarfélaga, til þess að þeir verði þar brotnir hver í sínu lagi, en ég vil aðeins benda honum á, að það verður að meira eða minna leyti árangurinn, ef þeir standa ekki saman, og það er engin frelsisskerðing að standa saman.