21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

153. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti.

Eins og nál. á þskj. 373 ber með sér, leggur fjhn. einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessu máli við 1. umr. þess, og einnig er þess getið í athugasemdum við frv., að tilefni þess, að það er fram borið, sé það, að 2. þing Norðurlandaráðsins, sem haldið var í Osló í ágúst s. l., beindi þeirri áskorun til ríkisstj. hlutaðeigandi landa, að þau menningartæki, sem frv. fjallar um, yrðu tollfrjáls.

Fyrir utan það, að þetta mál er þannig samkomulagsatriði eða í þá áttina að vera samkomulagsatriði á milli fleiri landa, þá verð ég nú að segja það, að jafnvel þó að svo hefði ekki verið, finnst mér þetta sjálfsagt mál, því að það er áreiðanlegt, að það eru fá kennslutæki eins góð og einmitt kvikmyndir og skuggamyndir.