18.10.1954
Neðri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

32. mál, brotajárn

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fer fram á það, að sett verði heimildarlög til að banna útflutning á brotajárni og járnskipum, sem ætluð eru til niðurrifs. Frv. er flutt í beinu sambandi við þáltill., sem liggur fyrir Sþ. og er á þskj. 31. Sú till. fjallar um það, að fram verði látin fara rannsókn á því, hvort ekki muni hagkvæmt að hefja hér járnbræðslu í landinu, láta fara að hagnýta það brotajárn, sem til fellur árlega.

Við flm. lítum svo á, að full nauðsyn sé á, að þetta verði gaumgæfilega athugað, en á meðan sú athugun fer fram, væri eðlilegt, að ekki væri flutt út brotajárn, svo að það safnaðist saman og yrðu til af því nokkrar birgðir, þegar athuguninni væri lokið og niðurstaða hennar lægi fyrir.

Járn er þess eðlis, að það rýrnar lítið, þótt það geymist eitt, tvö eða þrjú ár. Þess vegna er ekki hætta á ferðum, jafnvel þó að sú yrði niðurstaða þeirrar rannsóknar sem hér um ræðir, að ekki teldist hagkvæmt að hefja hér vinnslu brotajárns. Þá mundi að sjálfsögðu leyft að nýju að flytja það úr landi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Ég mun ræða brotajárnshugmyndina nokkuð í sambandi við þáltill., þegar hún kemur fyrir Sþ., en vil óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og iðnn.