18.10.1954
Efri deild: 5. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

11. mál, tollskrá o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Svar hv. frsm. gefur mér nú ekki tilefni til. margra athugasemda. Ég vil taka það fram, að það er að vísu rétt, að fjárlög hafa hækkað mikið frá því 1946, þegar verðtollsálagið fyrst var tekið í lög, en það gildir engu síður um tekjuhlið fjárlaganna heldur en útgjaldahliðina.. Samkv. yfirliti hæstv. fjmrh. um tekjur ríkissjóðs á árinu 1953 h~afa þær reynzt af tollum og sköttum 391 millj. samkv. reikningi, en voru áætlaðar í fjárlögum 321 millj., þ.e.a.s. skattar og tollar hafa farið 70 millj. kr. fram úr áætlun. Eftir þeim bráðabirgðaáætlunum, ef svo mætti nefna það, sem hæstv. ráðh. flutti einnig í fjárlagaræðunni um horfurnar á árinu 1954, þá taldi hann líkur til, að tekjurnar á því ári yrðu nálægt 550 millj. kr., eða 50 millj. kr. hærri en það fjárlagafrv., sem hann nú leggur fram fyrir árið 1955, gerir ráð fyrir.

Það er því augljóst af þessu, enda viðurkennt af hæstv. ríkisstj., að hún fær tugi milljóna, um 100 milljónir, í umframtekjur frá því, sem fjárlögin hafa gert ráð fyrir á yfirstandandi ári. Þetta fé telur hún sig hafa til ráðstöfunar án þess. að leita samþykkis þingsins um það, til hvers. því sé varið. Það er starfsaðferð,sem er alveg gagnstæð öllu þingræði, eins og vitað er og viðurkennt, og því verra sem lengra er gengið í þá átt.

Hv. frsm. telur, að ekki sé fært vegna fjárhagsins að gera. þessa lækkun á verðtollinum. Hann er áætlaður, eins og hann réttilega tók fram, í fjárlagafrv. fyrir næsta ár nokkuð yfir 130 millj: kr. Mér telst því til, að 25% lækkun á viðaukanum, þ.e.a.s. úr 45% og niður í 20%, mundi nema um 1/6 af heildarupphæð skattsins, eða verða í kringum 23 og 24 milljónir. Það er alveg augljóst mál, að ríkissjóður, eins og horfurnar eru nú á þessu ári og næsta ári, má vel við því að missa þessa skatta, og þetta kemur væntanlega fram á þann hátt, að verðlag í landinu lækkar sem því nemur, álagningunni á það, og er því spor í þá átt að hindra vöxt dýrtíðarinnar og heldur til þess að draga úr henni.

Ég tel, að meira sé hægt að skerða þá skattstofna, sem ríkissjóður hefur nú. En ég fer ekki lengra í því að leggja til lækkun á verðtollinum, og stafar það af því,eins og ég áðan sagði, að ég tel, að nauðsyn beri til, þótt ekki fáist söluskatturinn afnuminn, að lagfæra hann, og geymi mér því nokkurn varasjóð af umframtekjum ríkissjóðs til þess að mæta því.

Ég skal gjarnan undirstrika það, sem hv. frsm. sagði um kostnaðinn við dýrtíðarráðstafanir, að þær höfðu verið í fjárlögum um 35 millj. kr. nokkru ettir að verðtollurinn var hækkaður og allt fram undir 1949, ætla ég, en nú eru þær komnar upp í 50 millj. kr., sagði hann, og því væri sízt fært að draga úr sköttum í þessu skyni til að mæta þeim kostnaði. Ég vil leyfa mér að minna hv. frsm. á það, að verðtollsaukningunni var ekki ætlað að mæta þessum kostnaði sérstaklega, það var söluskatturinn, sem átti að mæta niðurgreiðslunum og öðrum dýrtíðarráðstöfunum. En reynslan varð sú, að þegar gengislækkunin var gerð, þá var samt sem áður söluskattinum haldið, og þrátt fyrir gengislækkun og bátagjaldeyri hafa svo uppbótagreiðslurnar vaxið ár frá ári og eru nú bara í fjárlögunum einum saman, að ég ekki taki nú styrki til bátanna og togaranna með, orðnar stórum hærri en þær voru áður en gengisbreytingin var gerð.