25.03.1955
Neðri deild: 65. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

173. mál, lán til vegagerðar um Heydal

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja hér við þessa 1. umr. um þetta mál.

Ég skil vel, hvað fyrir vakir með þessu frv. hjá flm. þess. Ég hef þó nokkurn kunnugleika á þessum leiðum þarna og veit vel, hve Dalasýsla er illa sett um samgöngur, vegna þess, eins og hv. þm. Dal. tók fram, hve Brattabrekka er oft ófær, jafnvel þó að tiltölulega greiðar samgöngur kunni að vera í meginsveitum sýslunnar, þegar vestur fyrir Bröttubrekku kemur. Hitt mun þegar vera viðurkennt, að þessi svonefndi Heydalsvegur af Skógarströnd og þann veg suður í samband við þjóðvegakerfið muni vera miklu öruggari um að teppast ekki af snjó. Er því eðlilegt, að leitað sé einhverra úrræða til þess að koma í verk slíkri framkvæmd.

Ég vil taka það strax fram, að þá brtt., sem við þm. Skagf. ásamt hv. þm. Siglf. flytjum hér á þskj. 470, má alls ekki skilja þannig, að það eigi að vera til þess að hindra framkvæmd þess, sem kemur fram í frv. Þessi brtt. fjallar um það, að ríkisstj. sé enn fremur heimilt að taka allt að 600 þús. kr. að láni til Siglufjarðarvegar, en það er vegurinn frá Hofsós og til Siglufjarðar, sem svo er nefndur, til þess að Haganesvík verði komið í öruggt vetrarvegasamband við aðalbyggðir Skagafjarðar. Þetta er borið fram af fullri nauðsyn og nákvæmlega sömu nauðsyn og hv. þm. Dal. var að lýsa fyrir sitt byggðarlag. Nyrztu byggðir Skagafjarðar að austanverðu eru Fljótahrepparnir tveir og Sléttuhlíðin. Í þessum sveitum eru 400 manns eða kannske vel það, ef Sléttuhlíðin er talin með, og er því mjög mikill hluti af Skagafjarðarhéraðinu öllu. En svo er ástatt að hér teppist allt bílasamband um meginhluta vetrarins í flestum árum. Það hefur t. d. nú verið teppt um marga mánuði, að ekki hefur verið unnt að komast á bílum, nema þá snjóbílum, út í Fljótin, út í Haganesvík. Það er lagt allmyndarlega til þessa vegar á fjárlögum, eftir því sem unnt er, eitthvað röskar 200 þús. kr. á ári, og hefur nú verið síðustu árin. Þó er þessi vegur ekki kominn hálfa leið úr Hofsós og út í Haganesvík. Það munu vera á milli 15 og 20 km enn eftir af þessum kafla. Það, sem nýi vegurinn nær, hefur alltaf verið fært í vetur á bílum. En þegar honum sleppir, þá er allt ófært. Þetta sýnir, að með þeim vegagerðartækjum, sem nú eru, og aðferðum við vegagerð, þar sem settir eru tiltölulega háir og öflugir vegir, er mjög auðvelt að koma á vetrarvegasambandi út í Haganesvík og þar með í þessar sveitir þar, sem sjálfar eru sæmilega vegaðar. Það er af þessum ástæðum, sem við höfum borið þessa till. fram. En þetta snertir miklu meira en Fljótin og Sléttuhlíðina, þetta snertir náttúrlega Siglufjörð mjög einnig, vegna þess að það er vitanlega í þágu Siglfirðinga, þótt Skarðið sé eftir, að greitt vetrarvegasamband sé til Haganesvíkur eða alveg út að þessum ógnarfjallgarði, sem skilur þar í milli.

Aðeins til að sýna, hve almennur áhugi er fyrir þessari framkvæmd í Skagafirði, vil ég geta þess, að sýslunefnd Skagfirðinga, sem situr að fundum á Sauðárkróki núna, sendi okkur þm. Skagf. svo hljóðandi skeyti, sem mér var að berast alveg í þessu og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefnd Skagfirðinga ályktaði á fundi sínum í dag að skora á Alþ. það, er nú situr, að samþ. þál. frá þm. Skagf. um 600 þús. kr. lántökuheimild til nýbyggingar í Siglufjarðarvegi innan Haganesvíkur og stuðla með því að jafnvægi í byggðum Skagafjarðar. Máli sínu til stuðnings vísar sýslunefndin til rökstuddrar greinargerðar, er sveitarstjórnir Haganeshrepps og Holtshrepps hafa sent Alþingi og samþykkt með öllum 15 atkv. nefndarmanna. — Sýslumaður.“

Þessar grg., sem vísað er í, liggja hér fyrir á Alþingi, og geta hv. alþm. kynnt sér þær. Ég vil því leyfa mér, án þess að fara að hafa fleiri orð um þetta, að beina því til n., sem fær til meðferðar þetta frv., sem hv. þm. Dal. hefur nú lýst, að kynna sér nákvæmlega það, sem liggur til grundvallar þeirri brtt., sem við flytjum á þskj. 470, og vænti ég þess þá, að það muni verða ljóst, að hér sé um framkvæmd að ræða, sem sé mjög nauðsynleg fyrir þessi byggðarlög. Sannleikurinn er sá, að þessir Fljótahreppar eru einangraðir frá öðrum sveitum Skagafjarðar, og veldur það ótrúlega miklum erfiðleikum og tapi fyrir þá á ýmsan hátt, bæði hvað snertir ýmsa atvinnuvegi, ómögulegt að koma mjólk t. d. í mjólkurbú þau, sem eru í firðinum, og hefur svo vitanlega ótrúleg félagsleg vandamál í för með sér. Ég tel það í raun og veru vera mjög til athugunar, þó að Alþ. hafi verið ófúst að leggja inn á þá braut að vilja veita ábyrgð og heimildir til lántöku til að ljúka vissum verkum, og er það að vissu leyti mjög skiljanlegt, þá sé þó mjög til athugunar, hvort ekki geti verið réttmætt að ljúka ákveðnum, tilteknum verkum á þennan hátt, sé unnt að fá fé til þess að ljúka þeim, í stað þess að þurfa að bíða mörg ár eftir því takmarkaða framlagi, sem Alþ. að sjálfsögðu getur veitt til þessara framkvæmda á fjárlögum hvert ár. — Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta.