06.05.1955
Neðri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

181. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þegar 1. umr. fór fram um þetta mál, hafði framsögu hv. 2. þm. Skagf. (JS), og gerði þá grein fyrir tildrögum frv. og tilgangi þess. Mun ég því ekki ræða frv. sem heild nú, heldur gera grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. n. stendur að, sem er hv. 2. þm. Skagf. (GGísl) og hv. þm. A-Húnv. (JPálm) ásamt mér. En við höfum lagt fram brtt., sem eru á þskj. 733.

Landbn. hefur haft frv. til athugunar og sent það til umsagnar Grænmetisverzlun ríkisins og Sambandi smásöluverzlana í Reykjavík. Þótt þessar stofnanir hafi ekki mælt með frv. að öllu leyti, höfum við þó tekið til greina till. þeirra, að svo miklu leyti sem okkur var auðið, en ég vil undirstrika það, að megintilgangur þessa frv. er sá, að framleiðendur fái í sínar hendur yfirstjórn þessara mála, þ. e. a. s. verzlun með innlendar matjurtir. Þegar tekið er tillit til þeirra óska og till., er þess vart að vænta, að þau sjónarmið, sem ríkja hjá þessum aðilum, falli að öllu leyti saman, en brtt. meiri hl. miða að því að láta þær umboðssölur, sem Grænmetisverzlun ríkisins hefur haft, gegna sínu hlutverki áfram eða hafa forgangsrétt, ef þær vilja, enda munu þær sennilega hafa geymslur og menn með meiri þekkingu í þessum efnum en almennt gerist, og þess vegna leggjum við jafnframt til, að þau félög og félagsmyndanir, sem frv. gerði ráð fyrir upphaflega, verði felldar niður úr frv.

Sömuleiðis leggjum við til, að sú sölunefnd, sem gert er ráð fyrir upphaflega í frv., verði felld út úr frv., en að yfirstjórn þessara mála verði í höndum framleiðsluráðs og að einum fulltrúa frá Sölusambandi garðyrkjumanna og öðrum frá Landssambandi eggjaframleiðenda verði gefinn kostur á að sitja fundi framleiðsluráðsins, þegar fjallað er um þeirra mál, og hafa málfrelsi og tillögurétt, en eins og hv. þm. er kunnugt, þá sitja í framleiðsluráði landbúnaðarins 9 menn, og virðist því ekki vera bein ástæða til að fjölga í því ráði.

Þá leggjum við til, að gerð verði sú breyting, að komið verði á fót stofnun, sem á að annast sölu matjurta, og verði sú stofnun kölluð Grænmetisstofnun landbúnaðarins, því að frv. gerir ráð fyrir, að Grænmetisverzlun ríkisins verði lögð niður. Þessi stofnun starfar undir stjórn framleiðsluráðs, sem skipar framkvæmdastjóra stofnunarinnar eða Grænmetisverzlunar landbúnaðarins.

Varðandi innflutning á kartöflum og grænmeti leggjum við til, að ríkisstj. verði falinn einkaréttur á þeim innflutningi, en til þess að hann geti átt sér stað, þurfi samþykki framleiðsluráðs, og er það breyting frá okkur, því að upphaflega í frv. er gert ráð fyrir, að það þurfi aðeins að leita álits framleiðsluráðs, en við gerum þá breytingu, að það þurfi til þess samþykki framleiðsluráðs. Það mun ekki vera hægt í þessu tilfelli að gera þennan innflutning frjálsan, vegna þess að það er allt of mikil áhætta fyrir framleiðendurna, sem gætu þá átt á hættu, að þeir hefðu ekki forgangsrétt með sölu á sínum afurðum. En að sjálfsögðu mun ríkisstj. fela einum eða fleiri aðilum að annast innflutninginn, þegar um hann er að ræða, en þess er að vænta, og þróunin hefur einnig verið í þá átt á seinustu árum, að það muni ekki þurfa að grípa til innflutnings nema í tæplega miðlungsgóðu árferði hér á landi, því að garðyrkjan hefur farið það ört vaxandi, og maður gerir sér vonir um, að við verðum sjálfum okkur nógir í þessum efnum, — þrátt fyrir þá miklu fólksfjölgun. sem hefur verið, þá býst ég við, að hægt verði að fullnægja þeim þörfum, sem verða í hvert skipti á þessu sviði.

Þessar breytingar á framleiðsluráðslögunum eru að mestu um þá framleiðslu, sem vantað hefur ákvæði um í framleiðsluráðslögin og mjög hefur verið óskað eftir. Það þarf ekki að lýsa því hér, það er öllum hv. þm. kunnugt, að síðasta áratuginn hafa umbætur hér á landi á flestum sviðum verið mjög miklar og ekki hvað minnstar á sviði ræktunar matjurta í landinu, og það eigum við kannske fyrst og fremst að þakka þeim yl, sem hér er í jörðu og kemur frá þeim hverum og laugum, sem við höfum og tæknin og þekkingin hafa ætíð kennt okkur að nota betur og betur. Þessir aðilar, þ. e. a. s. þeir, sem standa að matjurtaræktinni, hafa mjög óskað eftir því að fá ákvæði fest í framleiðsluráðslögin þannig, að þeir njóti sama réttar sem aðrir framleiðendur í landinu og þeir framleiðendur, sem þegar falla undir þau l., og þess vegna vil ég vænta, að hv. alþm. virði þeirra starf og sjái sér fært að verða við þeirra ósk og samþykkja það frv. ásamt þeim breytingum, sem fyrir liggja, nú á Alþingi.

Hér hefur komið fram rökstudd dagskrá í málinu frá hv. minni hl. landbn., þ. e. hv. 6. þm. Reykv. (GMM) og hv. 3. landsk. þm. (HV), en ég vil segja það um þá dagskrá, að hún er í raun og veru óþörf, vegna þess að hún byggist á því, að það skuli fresta málinu nú og síðar, þegar það verði tekið til afgreiðslu, skuli liggja fyrir álit þeirra, sem mesta þekkingu og reynslu hafa á framleiðslu- og sölumálum garðræktar.

Þá vil ég geta þess, að þeir, sem eru framleiðendur í landinu, eru þeir fyrst og fremst, sem hafa mjög óskað eftir breytingum á þessum l., og því ekki ástæða til að leita þeirra umsagnar, þar sem hún hefur legið fyrir okkur í mörg ár. En varðandi hitt atriðið, þegar leita á álits þeirra, sem hafa mesta þekkingu á skipulagningu og sölu í þessum málum, þá gerir frv. ráð fyrir, eins og brtt. segja nú um að þeir umboðsmenn hafi forgangsrétt til að vera það áfram, ef þeir vilja. Ég sé því ekki, að það sé ástæða til að vera að fresta þessu máli nú með tilliti til þess. Það hljóta að vera einhver önnur sjónarmið, sem þar liggja að baki, heldur en þessi meginrök, sem færð eru fram í dagskránni. Þess vegna vonast ég eftír því, að hv. alþm. samþykki frv. og brtt., en ekki dagskrána, þar sem hún virðist byggjast á þeim forsendum, að leita skuli álits um atriði, sem ekki þarf að leita álits um og þegar eru kunn.