03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

15. mál, vegalög

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Það var að ég hygg á síðasta fundi þessarar hv. d., að hæstv. forseti lýsti eftir nokkrum málum, sem hefði verið vísað til nefnda, en lægju þar enn óafgreidd. Af þessu tilefni vil ég taka fram, að í samgmn. liggur fyrir frv. til l. um breyt. á vegalögum, sem hefur ekki verið tekið til afgreiðslu enn þá.

Sá háttur hefur verið hafður á um afgreiðslu þessara mála, að samvinnunefnd samgöngumála, þ. e. a. s. samgmn. beggja d. hafa leyst þessi mál sameiginlega í samráði við vegamálastjóra og flutningsmenn brtt. um vegalögin. Sá háttur mun enn verða hafður á um þetta mál, sem nú liggur fyrir, og sömuleiðis sams konar mál, sem liggur fyrir í Nd. En það, að þetta hefur dregizt nokkuð lengi og um of, er vegna þess m. a., að vegamálastjóri var veikur í vetur og gat lítið eða ekkert sinnt störfum allan þann tíma, sem Alþ. sat fyrir áramót, og var lítið kominn til starfa, þegar þingi var frestað í desember s. l. En hann hefur haft þessi mál til meðferðar núna, og ég átti tal við hann í síma í fyrradag, og þá sagði hann, að þetta mál væri í athugun hjá sér og hann mundi hafa sínar athugasemdir tilbúnar í næstu viku, og þá verður málið tekið fyrir.