13.12.1954
Sameinað þing: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2455)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Frsm. meiri hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur haldið einn fund um þetta mál og athugað þessa þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild sambandslýðveldisins Þýzkalands. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, eins og fram komin nál. bera með sér. Hv. 1. landsk. (GÞG) taldi sig ekki geta tekið þátt í afgreiðslu málsins á þessu stigi, vegna þess að þau ríki, sem hann taldi að skipti þetta mál meira en Ísland, hefðu ekki tekið afstöðu til málsins enn, og taldi rétt að láta málið bíða, þar til þau hefðu tekið afstöðu til málsins. En hv. 6. landsk. virðist vera algerlega andvígur málinu, þó að það komi ekki greinilega fram af nál., eftir því sem mér virðist.

Meiri hl. n. telur rétt að afgreiða málið nú þegar, og þó að ekki sé óeðlilegt, að málið hefði verið látið bíða eitthvað, að áliti ýmissa nm., þá þykir það þó ekki fært vegna þess, að það mun vera ákveðið af ríkisstj., að þinginu verði frestað nú bráðlega og víst allar líkur til, að það komi ekki saman fyrr en í byrjun febrúarmánaðar n. k., og það telur utanrrh. of langan frest á afgreiðslu þessa máls.

Það var rætt mjög mikið um þetta mál almennt við fyrri umr. þess hér á Alþingi fyrir nokkrum dögum, og ég sé ekki ástæðu til, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins og án þess að gefist tilefni til, að endurvekja þær umræður með því að hefja að nýju rökræður um þetta mál, hvort við eigum að fallast á það, að Þjóðverjar gerist aðilar að Atlantshafsbandalaginu:

Ég vil því láta hér staðar numið og legg til f. h. meiri hl., að till. verði samþykkt.