13.12.1954
Sameinað þing: 26. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2458)

118. mál, Norður-Atlantshafssamningurinn

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Við þjóðvarnarmenn höfum þrásinnis varað við þeirri hættu, sem við teljum að í því felist fyrir okkur Íslendinga að gerast hlekkur í herbúnaðarkeðju hvors sem vera skyldi þeirra meginafla, sem undanfarin ár hafa háð hið kalda stríð og staðið öndvert hvort öðru og vígbúizt. Við höfum bent á hið mikla fámenni þjóðarinnar íslenzku og algert vopnleysi hennar um aldaraðir og þá sérstöðu, sem af þeim staðreyndum leiðir. Því höfum við talið og teljum hiklaust, að Ísland eigi að kosta kapps um að vera hlutlaust í hernaðarátökum og standa utan við hernaðarbandalög. Við lítum svo á, að hvar sem fulltrúar Íslands koma fram á alþjóðavettvangi, beri þeim skylda til að vinna að eflingu friðar, berjast fyrir þeirri skoðun, að hlutlausar smáþjóðir fái notið alþjóðlegrar réttarverndar, og stuðla að því með atkvæði sínu og á annan hátt, að undirokaðar þjóðir, hvar sem er í veröldinni, fái öðlazt frelsi og sjálfstæði.

Við teljum, að þessi stefna, hlutleysi Íslands í hernaðarátökum, sé ekki aðeins líklegust til farsældar okkar eigin þjóð, heldur sé hún einnig hinn bezti stuðningur, sem við getum veitt þeim friðaröflum, sem vilja draga úr viðsjám í heiminum og koma í veg fyrir þá óheillavænlegu þróun, að veröldinni allri verði skipt í tvær fjandsamlegar meginfylkingar, þar sem leiðtogar Rússlands og heimskommúnismans eru hið leiðandi afl annars vegar, en áhrifamenn Bandaríkja Norður-Ameríku, sumir næsta einsýnir auðhyggjumenn, stjórna ferðinni hins vegar. Þeim mönnum í Evrópu og viðar fer fjölgandi, sem sjá, hve hættuleg sú braut er, sem farin hefur verið nú um sinn, og þeir leitast við að draga úr tortryggni og viðsjám á alþjóðavettvangi. Það er sannfæring okkar þjóðvarnarmanna, að þessum öflum friðar og lýðræðis eigum við Íslendingar að fylgja og veita þeim það fulltingi, sem við megum.

Út frá þessu sjónarmiði — og því einu — erum við andvígir þátttöku Íslendinga í hernaðarbandalögum, þar á meðal aðild okkar að Norður-Atlantshafsbandalagi. Það eru rangfærslur, að þessi afstaða okkar mótist á nokkurn hátt af fylgi við austræna einræðisstefnu. Það er þvert á móti. Við fordæmum einræði og yfirgang, í hvaða formi sem slíkt birtist, og teljum yfirgang leiða til ófarsældar án tillits til þess, með hverjum „ideologiskum“ kennisetningum reynt er að réttlæta stefnur, sem taka ofbeldi í þjónustu sína. Einræðishneigð leiðir af sér herbúnaðarkapphlaup, og sagan sýnir, að herbúnaðarkapphlaup leiðir jafnan til ófarsældar og veldur ómælanlegu böli. Afstaða okkar mótast eingöngu af því, hvað við teljum íslenzkri þjóð fyrir beztu og hvað líklegast sé til að auka friðarvonir í heiminum. Sömu eða svipaða afstöðu hafa tekið fjölmargir lýðræðissinnaðir menn og flokkar í mörgum löndum. Þeir hafa tekið þá afstöðu út frá áþekkum sjónarmiðum, með tilliti til farsældar eigin lands og friðarhugsjónarinnar.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþingi till. til þál. um heimild sér til handa til að fullgilda viðbótarsamning við Norður-Atlantshafssáttmálann, en sá viðbótarsamningur fjallar um það, að Vestur-Þýzkalandi verði veitt aðild að Norður-Atlantshafssamningnum, það verði tekið upp í Atlantshafsbandalagið.

Nú er það skoðun míns flokks, eins og ég hef áður sagt, að Íslandi sé farsælast að standa utan við öll hernaðarbandalög og hefði því ekki átt að ganga í Atlantshafsbandalagið á sinum tíma. Hins vegar er það og staðreynd, að við erum meðlimir í þessu bandalagi og höfum samkv. ákvæðum 13. gr. sáttmála þess ekki rétt til einhliða úrsagnar úr því fyrr en að 16 árum liðnum. En vegna algerrar sérstöðu okkar Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar getum við aldrei orðið nema óvirkir þátttakendur í þessu bandalagi né nokkru hernaðarbandalagi. Við lítum svo á, þjóðvarnarmenn, að svo óhyggilegt sem það var að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu, þegar það var stofnað árið 1949, þá sé jafnvel enn varhugaverðara að vera meðlimir þess, eftir að það hefur einu sinni verið fært út og látið ná til Grikklands og Tyrklands, og nú á það í annað sinn að auka svið sitt, veita inngöngu Vestur-Þýzkalandi. sem jafnframt fær aðstöðu til að hervæðast á nýjan leik.

Við teljum, að upptaka Þýzkalands, eins og nú er ástatt í heiminum, breyti í verulegum atriðum þeim grundvelli, sem byggt var á, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað og Ísland ákvað að gerast aðili að því. Svo gæti a. m. k. farið, að aðild Þýzkalands yrði til að auka enn vígbúnaðarkapphlaup á meginlandi Evrópu, og áframhaldandi þátttaka okkar í þessu bandalagi, þótt óvirk sé, mætti þá verða til þess, að við kynnum að sogast meira en orðið er inn í átök stórveldanna, en það hlyti að færa okkur nær sjálfum voðanum, ef svo skyldi til takast, að friðslit yrðu á nálægum tímum.

Nú er það augljóst, að þó að við Íslendingar höfum ekki rétt til að segja okkur einhliða úr Atlantshafsbandalaginu, getur enginn meinað okkur að fara þess á leit við aðildarríki bandalagsins hvert um sig, að við fáum að losna úr bandalagi þessu. Teljum við þjóðvarnarmenn, að einmitt nú eigum við að bera fram þessi tilmæli, og höfum því lagt fram brtt. um það efni á þskj. 265, þar sem einnig er nokkur rökstuðningur fyrir því, hvers vegna slík tilmæli skuli fram borin af Íslands hálfu. Um það segir á þessa leið í brtt. okkar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að rökstyðja þessa málaleitan m. a. með eftirfarandi :

1) Aðild sambandslýðveldisins Þýzkalands að Norður-Atlantshafsbandalaginu mundi breyta í mikilvægum atriðum grundvelli þeim, sem byggt var á við stofnun bandalagsins, og skapa innan þess á komandi tímum ný viðhorf og vandamál, sem ekki var unnt að sjá fyrir né taka tillit til, er Ísland gerðist aðili þess.

2) Frá íslenzku sjónarmiði er aðild sambandslýðveldisins Þýzkalands að Norður-Atlantshafssamningnum, samfara hervæðingu þess, varhugavert spor, sem gæti haft í för með sér vaxandi viðsjár og vígbúnaðarkapphlaup á meginlandi Evrópu, einkum þegar tekið er tillit til þess, að Þýzkaland er klofið í tvö ríki. Má í því sambandi minna á afstöðu þýzkra jafnaðarmanna, annars stærsta stjórnmálaflokks Vestur-Þýzkalands, sem berjast harðlega gegn því, að þetta spor sé stigið eins og nú er ástatt. Bendir flokkurinn á þá hættu, að slík ákvörðun geti jafnvel leitt til borgarastyrjaldar í Þýzkalandi.

3) Á hinn bóginn telja Íslendingar, sem eru óvígbúin þjóð og þess vegna í reyndinni óvirkur aðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu, ekki eðlilegt, að þeir taki á sig þá ábyrgð að hindra með neitunarvaldi sínu það, sem herveldi bandalagsins kunna að telja sér nauðsynlegt í vígbúnaðarmálum sínum.“

Þá leggjum við til, að fyrirsögn till, breytist og orðist svo:

Till. til þál. um lausn Íslands úr Norður-Atlantshafsbandalagi.“

Við leggjum til, að á meðan beðið sé eftir svari meðaðildarríkja okkar í bandalaginu við þeim tilmælum, að við fáum að hverfa úr þessum hernaðarsamtökum, fresti Alþ. og ríkisstj. að taka ákvörðun um það mál, sem hér liggur fyrir.

Mörg rök hníga að því, að okkur Íslendingum beri ekki að flýta okkur ósköpin öll að taka ákvörðun um aðild Vestur-Þýzkalands að Atlantshafsbandalagi, sízt á þá lund að hrapa að því á undan flestum öðrum aðildarríkjum að samþykkja upptöku þess í bandalagið.

Það virðist þegar blasa við, að hervæðing Vestur-Þýzkalands getur haft þau áhrif að auka vígbúnaðarkapphlaupið í Evrópu. Því hefur strax verið hótað, að næsti mótleikur að austan verði sá, að Austur-Þýzkaland verði kappsamlega herbúið með fulltingi Rússa. Eru það vissulega óheillavænleg tíðindi.

Margir lýðræðisflokkar Mið- og Vestur-Evrópu hafa þegar tekið mjög ákveðna afstöðu gegn endurhervæðingu Vestur-Þýzkalands og inngöngu þess í Atlantshafsbandalagið. Í Frakklandi og Englandi eru sterk öfl, sem engir geta með rökum vænt um stuðning við utanríkisstefnu Rússa, algerlega andvíg aðild Þýzkalands að bandalaginu. Og annar stærsti stjórnmálaflokkur Vestur-Þýzkalands sjálfs, flokkur þýzkra jafnaðarmanna, sem á vaxandi fylgi að fagna með þýzku þjóðinni, hefur barizt af alefli gegn upptöku Þýzkalands í bandalagið. Samkvæmt útvarpsfregnum í gærkvöld hafa þýzkir jafnaðarmenn nú sent jafnaðarmannaflokkum annarra Evrópulanda mjög kröftug tilmæli um liðstyrk til að koma í veg fyrir það, að Vestur-Þýzkaland verði að svo stöddu gert aðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Telja þeir nauðsynlegt, að áður en slíkt spor sé stigið, verði gengið úr skugga um það, hvort ekki verði komið á fjórveldaráðstefnu um framtíð alls Þýzkalands. Benda þeir á þá hættu, sem við blasi, ef Þýzkaland verði áfram klofið í tvö ríki, sem bæði vígbúist af kappi, annað á áhrifasvæði vesturvelda, hitt í greipum hinna austrænu ríkja. Hefur formaður jafnaðarmannaflokksins þýzka komizt svo að orði, að inntaka Vestur-Þýzkalands í Atlantshafsbandalagið og það vígbúnaðarkapphlaup, sem af því kynni að leiða, gæti haft það í för með sér, að til borgarastyrjaldar kæmi í Þýzkalandi. Ég tel okkur Íslendingum skylt, ekki sízt þeim, sem aðhyllast grundvallarhugsjónir jafnaðarstefnunnar, að taka fullt tillit til þessara varnaðarorða. Enginn þarf að væna þýzka jafnaðarmenn og aðra lýðræðisflokka í Mið- og Vestur-Evrópu um það, að þeim gangi til þjónustusemi við Rússa, þegar þeir vara við afleiðingum þess, að Vestur-Þýzkaland fái að vígbúast og gerast aðili að hernaðarbandalagi. Þeir taka að sjálfsögðu afstöðu út frá þeim sjónarmiðum einum, hvað þeir telja þjóðum sínum fyrir beztu og hvernig þeir hyggja sig þjóna bezt hugsjónum friðarins. Hið sama hlýtur að vera efst í huga íslenzkra lýðræðissinna, þegar þeir taka afstöðu til þess máls, sem hér liggur fyrir.

Að lokum vil ég taka þetta fram: Stefna flokks míns í máli þessu er ákveðin. Hún er mótuð í brtt. þeirri, sem við höfum lagt hér fram við till. hæstv. ríkisstjórnar. Við leggjum fyrst og fremst til, að þess sé freistað nú, eftir þeim leiðum, sem færar eru, að hin vopnlausa íslenzka þjóð fái að losna úr Norður-Atlantshafsbandalaginu og megi framvegis standa utan við öll hernaðarsamtök. Meðan beðið sé eftir svörum við þessari málaleitan, verði frestað að taka ákvörðun um þá till. hæstv. ríkisstjórnar að fallast á aðild sambandslýðveldisins Þýzkalands að Norður-Atlantshafssamningnum. Verði það fellt að æskja brottfarar Íslands úr Norður-Atlantshafsbandalaginu, teljum við engu að síður rétt og setjum það fram sem varatill., að frestað verði ákvörðun um till. hæstv. ríkisstj., þar til séð verður, hver reynist afstaða annarra aðildarríkja bandalagsins til upptöku Vestur-Þýzkalands. Við teljum það ekki ná neinni átt, að Ísland verði einna fyrst allra ríkja bandalagsins til að veita þetta samþykki, meðan enn er allt í óvissu um ákvarðanir hinna stóru meginlandsríkja, þ. á m. Vestur-Þýzkalands sjálfs. Fari hins vegar svo, eins og líkur benda óneitanlega til, að ríkisstj. Íslands og stuðningsflokkar hennar knýi fram atkvgr. um mál þetta nú, munum við þm. Þjóðvarnarflokksins greiða atkv. gegn þáltill. hæstv. ríkisstjórnar. Það munum við gera með svo hljóðandi rökstuðningi:

Í fyrsta lagi til að mótmæla því svo kröftuglega sem verða má, að hæstv. ríkisstj. og meiri hluti Alþ. hefur þá ekki viljað á það fallast, að við Íslendingar freistuðum þess að fá okkur lausa úr Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Í öðru lagi: Þar sem við lítum svo á út frá hinum takmörkuðu möguleikum okkar Íslendinga til að spá um þróun mála á meginlandi Evrópu, að endurhervæðing Vestur-Þýzkalands og aðild að Norður-Atlantshafsbandalagi kunni að auka viðsjár og vígbúnaðarkapphlaup í álfunni, þá teljum við óráðlegt, að Ísland fallist á upptöku Vestur-Þýzkalands í bandalagið og verði einna fyrst aðildarríkja bandalagsins til að stíga það skref. Bendum við í því sambandi enn einu sinni á varnaðarorð þýzkra jafnaðarmanna og afstöðu margra annarra frjálslyndra lýðræðisflokka í Evrópu.