17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (2520)

123. mál, hafnarbætur í Loðmundarfirði

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þessi litla till. þarf litla framsögu. Sveitin, sem hér ræðir um, er afskekkt, lítil sveit, sú fámennasta hér á landi. Það hafa alltaf verið þar fá býli, en á síðari árum hefur þeim fækkað af ýmsum ástæðum og þó kannske hvað helzt af því, hve sveitin hefur verið einangruð og út úr öllum samgöngum. Það liggja að henni þrír fjallvegir, einn ofan úr Héraði, sjaldan farinn og slæmur, annar frá Seyðisfirði, oft farinn, stuttur, en brattur, ógreiðfær og ekki góður, og sá þriðji — og þar reyndar tveir — til Borgarfjarðar, báðir dálítið erfiðir fjallvegir, og sveitin þess vegna ákaflega mikið einangruð. Samgöngur hefur hún haft af sjó að því leyti til, að styrktur hefur verið bátur, sem gengið hefur frá Seyðisfirði og þangað annað veifið að sumrinu, en það þykja mjög ófullnægjandi samgöngur.

Það, sem er farið fram á í þessari till., er, að látið sé athuga, hvaða leiðir séu til að bæta úr þessum samgöngum og hvort þær yfirleitt séu þess eðlis, að það sé gerlegt að ráðast í að framkvæma þær. Það er annars vegar um það að ræða að rannsaka vegarsamband til sveitarinnar og á hvern hátt það yrði haganlegast gert. Það er álit ýmissa, a. m. k. nú á seinni árum, að það sé hugsanlegt að koma henni í samband við Seyðisfjörð með því að fara fyrir framan Brimnesmúla og inn hann, og er vegarlagningin þar ekki nema lítið brot af því, sem um er rætt, þegar fara á fyrir múlann milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Aðrir halda, að það sé hægt að fara með ódýrari og jafngóðan veg beint yfir fjallið, frá Seyðisfirði til Loðmundarfjarðar. Um þetta deila menn. En vegamálastjóri hefur ekki athugað málið, og það er farið fram á það með tillögunni, að hann sé látinn athuga aðstöðuna til að koma þangað akfærum vegi, bílvegi, og hvernig það væri bezt og léttast gert. Enn fremur er þarna í firðinum sú eina biksteinsnáma, sem þekkt var hér til skamms tíma, og er sú eina, sem liggur í byggð. Það er þar um ákaflega mikinn bikstein að ræða og mundi þegar vera kominn þar á stað töluverður útflutningur eða vinnsla á honum, ef nokkrir möguleikar væru til að koma honum þaðan, en þeir eru engir nú. Höfn er þar engin, og aðstaða til hafnargerðar er sjálfsagt frekar erfið. Þó liggur það ekki heldur fyrir, og því er farið fram á það, að líka séu athugaðir möguleikar til hafnargerðar.

Þessi till. fer sem sagt fram á rannsókn, til þess að hægt sé að gera sér ljóst, hvort aðstaða og ástæður séu til að ráðast í þær framkvæmdir, hætta að láta sveitina vera einangraða, en skapa möguleika til þess, að byggð þar aukist eða a. m. k. standi í stað. Verði ekkert af þessu gert, eru ákaflega miklar líkur til þess, að þau heimili, sem eftir eru, leggist í eyði og sveitin verði ekki nytjuð, nema að því leyti sem kindur, sem þangað sleppa að sumrinu, ættu þar friðland.

Ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið og þessar athuganir og rannsóknir, sem farið er fram á í henni, verði framkvæmdar, og legg til, að henni, að endaðri þessari umræðu, verði vísað til allshn. Þó að þessar rannsóknir kosti eitthvert fé, þá er það fé til manna, sem þarna eru á ferðinni hvort sem er, a. m. k. hjá vegamálaskrifstofunni, meðan aftur á móti mundi þurfa að senda þangað sérstaklega menn frá vitamálaskrifstofunni viðvíkjandi athugun á þessu.